Fyrirhuguð frestun skattalækkunar

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 13:40:26 (1872)

1997-12-09 13:40:26# 122. lþ. 38.88 fundur 121#B fyrirhuguð frestun skattalækkunar# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[13:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta mál er að sönnu harla alvarlegt og ótrúlegt að hæstv. ríkisstjórn skuli láta sér detta í hug að ætla ekki að efna loforð sín að þessu leyti, jafnríkur hluti af niðurstöðum síðustu kjarasamninga og þetta sannanlega var og skipta þá tengslin í sjálfu sér ekki öllu máli. Það er alveg ljóst að kjarasamningar voru m.a. gerðir með þetta að leiðarljósi.

Ég var reyndar ekki einn af þeim sem var hrifinn af útfærslu á skattalækkun hæstv. ríkisstjórnar um flata lækkun af þessu tagi sem nýtist hátekjufólki best og þá reyndar barnlausu hátekjufólki eins og þetta var útfært en það er ekki það sem skiptir máli heldur grundvallaratriðið.

Það er annar þáttur þessa máls sem mér er líka nokkuð ofarlega í huga og það er framkoma hæstv. ríkisstjórnar við sveitarfélögin, þ.e. að ríkisstjórnin og hæstv. fjmrh. virðast halda að hann hafi einnig yfir fjármunum sveitarfélaganna að segja. Þetta er sjálfstætt stjórnsýslustig, kosið er til þess sérstaklega og í gildi eru lög og alþjóðlegir sáttmálar sem eiga að tryggja sjálfstæði og óhæfi sveitarstjórnarstigsins til þess m.a. að verja það fyrir fjármálaráðherrum eins og þeim sem þjóðin situr uppi með núna. Þessi samskipti geta ekki gengið svona til og þá skipta upphæðir ekki máli. Hvort það væru 5 kr. eða 500 millj. sem ríkisstjórnin ætlar sér einhliða að ráðskast með af fjármunum sveitarfélaganna skiptir ekki máli. Það er ósköp einfaldlega ekki þannig sem slík samskipti eiga að ganga fyrir sig á milli sjálfstæðra stjórnsýslustiga í landinu.

Einnig er framkoman við verkalýðshreyfinguna með endemum. Er það kannski vegna þess að nánast öll verkalýðshreyfingin hefur bundið hendur sínar til tveggja til þriggja ára sem ríkisstjórnin heldur að hún komist upp með framkomu af þessu tagi? Er það vegna þess að ríkisstjórnin veit að verkalýðshreyfingin er með hendurnar bundnar á bak aftur fram um aldamót sem hún ástundar framkomu af þessu tagi?