Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 17:13:02 (1901)

1997-12-09 17:13:02# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:13]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Út frá þessari yfirlýsingu hæstv. forsrh. þykir mér rétt að taka fram að ég fagna þessari ákvörðun. Ég tel að það hafi verið skynsamlegt af hálfu ríkisstjórnarinnar að falla frá þessum áformum. Vitaskuld væri hægt að segja að maður fagnaði því að hún hafi gefist upp við þessar fyrirætlanir. Látum það vera. Ég vil minna á að ég tók málið upp fyrir hönd þingflokks jafnaðarmanna fyrr á þessum fundi og spurði hæstv. forsrh. hvenær þetta yrði lagt fram og hann svaraði að það mundi skýrast frekar í dag. Ég held að það sé augljóst að hér var ríkisstjórnin á miklum villigötum. Það ber vitaskuld að fagna því að hún hafi séð ljósið. Þetta hefði ekki hafist nema vegna þess að stjórnarandstaðan tók þetta mál harkalega upp í gær og aftur í dag. Viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar, mjög harkaleg, í dag og í gær urðu þess valdandi að ríkisstjórnin hörfaði frá þessu máli. Jafnframt má minna á að ég gat þess í upphafi þessa þingfundar að ef málið hefði verið látið ganga fram þá hefði það vafalítið kostað átök hér í þingstörfum það sem eftir lifir þingdaga fram að jólum. Sjálfsagt hefur allt þetta haft áhrif á að menn hafi horfið frá þessum áformum og augljóst að þarna hafði ríkisstjórnin alls ekki góðan málstað að verja. En það er jafnljóst að ef viðbrögðin hefðu ekki verið jafnharkaleg af hálfu stjórnarandstöðunnar og verkalýðshreyfingarinnar þá hefði ríkisstjórnin knúið fram þessa stefnu sína.