Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 17:15:04 (1902)

1997-12-09 17:15:04# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hafði hálfpartinn vænst þess að hæstv. ráðherrar, a.m.k. hæstv. forsrh. og jafnvel þeir hæstv. ráðherrar sem þetta mál varðar sérstaklega, til að mynda hæstv. heilbr.- og trmrh. og hæstv. samgrh., sýndu þessari umræðu þá virðingu að koma hér og svara þeim spurningum sem upp hafa verið bornar eða tjá sig um þær umræður sem hafa farið fram.

(Forseti (ÓE): Hæstv. forsrh. er á mælendaskrá.)

Ég þakka það en ég vil þá taka hér upp, herra forseti, af þessu tilefni og vona að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir, ein tvö efnisatriði þessa frv. á nýjan leik þar sem engin svör hafa borist við þeim spurningum og þeirri gagnrýni sem við höfum sett fram í umræðum, sérstaklega stjórnarandstæðingar. Það fyrra varðar þær breytingar sem frv. gerir ráð fyrir á lögum um almannatryggingar. Ég hélt því fram að þvert ofan í það sem boðað hefur verið og kynnt í fjölmiðlum og á fundum með hagsmunasamtökum, a.m.k. Samtökum aldraðra, þá gengju breytingarnar á lögum um almannatryggingar í þá átt að fella niður tengingar sem þar hafa verið og tryggt hagsmuni lífeyrisþega og barnafólks á tímum vaxandi launahækkana. Þær tengingar, sem ekki var hróflað við með breytingunum á almannatryggingalögunum í desember 1995 sem komu til framkvæmda á árinu 1996, í 18. og 65. gr. almannatryggingalaganna, er nú verið að taka út. Breytingarnar ganga því mun lengra í þá átt að afnema þær tryggingar sem lífeyrisþegar og barnafólk hefur haft í löggjöfinni, að það sæti við sama borð og almennir launamenn hvað kjör varðar. Það ætti í gegnum slíka tengingu að fá tryggingu fyrir því að fá í sinn hlut sambærilegan hluta af góðærinu, ef við tökum svo til orða, og aðrir launamenn hafa náð til sín í gegnum kjarasamninga samkvæmt tiltekinni viðmiðun. Þeirri túlkun minni hefur ekki verið mótmælt --- þeirri túlkun minni á efnisatriðum breytinganna á 18. og 65. gr. almannatryggingalaganna. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir kom sömuleiðis inn á þessi atriði.

Um þetta var ekkert fjallað þegar málið var kynnt úti í þjóðfélaginu á dögunum og mönnum var sent það sem ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að taka til baka að einhverju leyti breytingarnar frá 1995 og setja lífeyrinn á nýjan leik að hluta til í samband við launaþróunina. Það kemur svo í ljós að það er allt saman í skötulíki, allt mjög loðið, talað um að taka mið af launaþróun. En hins vegar eru tryggingar, sem ekki var hróflað við í lögunum 1995, teknar úr sambandi. Meðlagsgreiðslur og frítekjumörkin í 17. gr. voru áfram tryggðar, menn hrófluðu ekki við þeim 1995, en það er hins vegar gert núna. Og það verður geðþóttaákvörðun við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni hvernig þær upphæðir eru stilltar og eru þetta þó ákaflega næmir hlutir hvað varðar kjör þessa hóps sem menn geta væntanlega verið sammála um að sé ekki ofhaldinn. Hvaða áhrif hafa frítekjumörkin? Það eru þau sem ráða því hvenær aðrar tekjur fara að skerða lífeyrinn, hvenær tekjutryggingin fer að skerðast og það skiptir auðvitað alveg sköpum fyrir afkomu þessa hóps hvar þau mörk liggja. Það hefur verið tryggt með ákvæðum 18. gr. að þau færðust upp sem næmi hækkun bótanna á hverjum tíma þannig að þau hlutföll héldust. Nú er opnað fyrir leið til að breyta þessu samhengi, rjúfa þetta samhengi, þannig að t.d. í gegnum ákvörðun um að hækka lífeyrinn um eitthvað tiltekið en ákvörðun á móti um að halda frítekjumarkinu niðri er hægt að skerða þetta og láta aðrar tekjur telja fyrr til skerðingar hjá lífeyrisþegum. Það er þetta sem verið er að gera. Það er beinlínis óheiðarlegt og blekkingar að menn skuli þá ekki koma hér og gera grein fyrir því hreint og klárt hvað þarna er á ferðinni. Sama á auðvitað við um meðlögin. Í rauninni er verið að tína út úr almannatryggingalöggjöfinni þær tryggingar sem þar hafa verið fyrir einstaka hópa, hverja á fætur annarri. Byrjað var á almenna lífeyrinum 1995 og nú eru frítekjumörkin og meðlögin tekin.

Mér hefði þótt við hæfi að hæstv. heilbr.- og trmrh. sýndi a.m.k. þessari umræðu þá virðingu að koma og taka þátt í henni og gefa sínar skýringar á því sem þarna er verið að gera. Hvaða stefna er þarna á ferðinni? Er þetta hin nýja stefna Framsfl. um ,,fólk í fyrirrúmi``? Er það með þeirri stefnu sem t.d. ellilífeyrisþegar, barnafólk og þeir sem fá meðlög, eru hafðir í fyrirrúmi hjá Framsfl., og nýja heilbrigðisstefnan á þeim bæ?

Varðandi samgöngumálin þá ber vel í veiði, ef svo má að orði komast í óeiginlegri merkingu, því hæstv. samgrh. er hér í salnum. Ég trúi því satt best að segja ekki að hæstv. samgrh. ætli að sitja þegjandi undir þessari umræðu og reyna ekki að verja hendur sínar eftir þær ásakanir sem hann hefur mátt sæta, réttilega að mínu mati, fyrir það að láta fjmrh. fara þannig með sig að í miðju góðærinu, þegar tekjur ríkissjóðs hafa aukist um milljarða. Þegar tekjur af umferðinni hafa aukist verulega vegna aukins bílainnflutnings og aukinnar bensínsölu, þá ætlar hæstv. samgrh. að sætta sig við að fá minna en ekki meira í sinn hlut til framkvæmda í vegamálum. Hann ætlar að sætta sig við Íslandsmet í þjófnaði á mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar á næsta ári, yfir 1.000 millj. kr. í staðinn fyrir að í fyrirliggjandi vegáætlun var gert ráð fyrir að sú skerðing mundi lækka en ekki hækka á næsta ári. Hún lækkaði úr 806 millj. kr. á verðlagi sl. árs niður í 646 millj. En hver er niðurstaðan þegar bandormsfrv. birtist? Nei, skerðingin á ekki að lækka, hún á ekki að standa í stað --- hún á að aukast og fara í á annan milljarð króna. Við hvaða aðstæður? Við þær aðstæður að hæstv. samgrh. er að segja okkur að nú standi til að boða framtíðarstefnumótun í samgöngumálum og ný vegáætlun á grundvelli nýrrar langtímaáætlunar eigi að líta dagsins ljós og gilda á næsta ári. Er þetta þá upphafið á hinni nýju vegáætlun? Að hún leggur af stað, henni er ýtt úr vör við þær aðstæður að ríkissjóður hirðir meira af tekjunum en nokkru sinni fyrr --- hinum mörkuðu tekjum til Vegagerðarinnar --- og er hann þó að fá dálaglegan búhnykk sem nemur allri tekjuaukningunni af sköttum á umferðina í góðærinu. Það heita víst 24 milljarðar kr. sem heildarskattar á umferðina, vörugjöld af innflutningi á bifreiðum, þungaskattar, bensíngjöld og bifreiðagjöld og aðrir slíkir skattar, samtals telja. En Vegagerðin á að fá minna í sinn hlut á komandi ári og það er þá eins og menn hafi ekki heyrt minnst á að óánægja sé víða úti um landið um framgang samgöngumála. Hefur hæstv. ríkisstjórn ekki orðið eitthvað vör við það að farið væri að hitna dálítið í kolunum á landsbyggðinni vegna ástandsins í byggðamálum og þeirrar ofboðslegu byggðaröskunar sem í gangi er? Og hvað er það sem menn segja númer eitt, tvö og þrjú þegar þau mál ber á góma? Það eru bættar samgöngur, bættar samgöngur og bættar samgöngur. Er þetta svar ríkisstjórnarinnar á tímum meiri byggðaröskunar en nokkru sinni fyrr síðan verst lét á miðjum 9. áratugnum og á árum viðreisnarstjórnarinnar. Er það þetta? Að ríkissjóður þurfi þá við þessar aðstæður að hirða til sín meira en nokkru sinni fyrr af sköttunum af umferðinni. Niðurstaðan er því sú að til framkvæmda og rekstrar í vegamálum rennur minna en áður og það er í engu samræmi við vaxandi bílafjölda og vaxandi þörf, því menn skulu átta sig á því að þessi mikli tekjuauki sem leiðir af auknum bílainnflutningi og meiri umferð á vegunum kallar á framkvæmdir. Hann kallar á útgjöld til vegamála en ekki í ríkissjóð.

Eitt af því sem skilar stórauknum tekjum er t.d. auknir þungaskattar vegna aukinna flutninga á landi sem áður fóru fram á sjó og þeir þungaflutningar slíta vegunum mjög mikið. Þeir kalla á framkvæmdir til að auka burðarþol vega og brúa. Er þetta þá í samræmi við það? Að við þær aðstæður að umferðin þyngist, tekjurnar af henni aukast, þá eru fjárveitingarnar sem frá umferðinni renna inn í Vegasjóð til framkvæmda skornar niður? Þetta gengur auðvitað ekki upp, það sjá allir heilvita menn.

Það mætti nefna framkvæmdaþörfina á höfuðborgarsvæðinu til viðbótar o.s.frv. Þetta er svo hrakleg niðurstaða að ég trúi því satt best að segja ekki enn að hæstv. samgrh., að landsbyggðarþingmenn stjórnarflokkanna og aðrir í þessari fjölskyldu, sem styður ríkisstjórnina séu svo miklir geðleysingjar að þeir láti þetta yfir sig ganga, ég verð að segja það alveg eins og er. Það er meira óskapa húsbóndavaldið sem hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hafa yfir þessum mönnum, ef þeir láta bjóða sér þetta.