Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 17:25:37 (1903)

1997-12-09 17:25:37# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:25]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þetta hafa verið gagnlegar og góðar umræður og ekki farið jafnmikið á víð og dreif eins og gerst hefur áður með bandorminn vegna þess að hann er náttúrlega skaplegri í umfangi en hann hefur stundum verið áður og allt horfir það til bóta. Vonandi koma þeir tímar að við þurfum ekki mikið á slíkri lagasetningu að halda. Við munum hafa tækifæri síðar á þinginu til að fjalla ítarlega um vegáætlun og hugmyndir manna í þeim efnum. En staðreyndin er sú að á undanförnum sex, sjö árum hefur verið gert meira átak í vegagerð á landinu en löngum áður eða jafnvel nokkru sinni fyrr og lágu til þess góðar og gildar ástæður. Það þótti skynsamlegt að fara í mjög miklar framkvæmdir í vegagerð meðan kreppti að hér á landi vegna þess að þær hefðu holl og langvarandi jákvæð áhrif á efnahagsþróunina í landinu og væri fjárfesting sem kallaði ekki á rekstur heldur þvert á móti væri líkleg til að stuðla að öflugra atvinnulífi og ýta undir sparnað (Gripið fram í.) þegar fram í sækti. Það var að hluta til í hinni ríkisstjórninni og var síðan haldið áfram í þessari. Og allt var það mjög ánægjulegt eins og hv. frammíkallari hafði bersýnilega tilfinningu fyrir.

Varðandi það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um bætur almannatrygginga og þá tengingu sem ákveðin er nú, þá er það rétt hjá honum að forustumenn til að mynda Samtaka aldraðra hafa fagnað mjög þessari tengingu enda má segja að hún sé með tvöföldum lás. Viðmiðunin á að vera við laun en engu að síður er settur annar lás sem á að gæta þess ef svo vildi til, sem við skulum vona að verði ekki á næstu árum, að launin hækki minna en verðlag eins og hefur nú komið fyrir --- það kom nú rækilega fyrir þegar hv. síðasti ræðumaður var í ríkisstjórn, eins og menn muna, þegar kaupmáttur launa féll harkalegar og meira en menn höfðu lengi þekkt dæmi um áður. En við slíkar aðstæður þá á samkvæmt ákvæðinu að gæta þess að þetta fólk sitji ekki eftir með skarðan hlut. Það mun því standa betur að vígi við slíkar aðstæður en launþegar í landinu þannig að ákvæðið er raunverulega með tvöföldum lás. Það er líka viðurkennt af þessum samtökum og öllum öðrum sem að málinu hafa komið að hin fyrri tenging var ekki gæfuleg vegna þess að í kjarasamningum var höfð hliðsjón af þeirri tengingu í gegnum árin. Þetta þekkja allir sem vilja þekkja til og þess var sérstaklega gætt að viðmiðunarflokkarnir hækkuðu ekki eins og annað til þess að áhrif þess flytu ekki inn í allt þjóðfélagið. Það getur vel verið að mönnum henti ekki að viðurkenna það. En þetta er samt staðreynd máls og menn eiga að viðurkenna staðreyndir, það er hollt fyrir alla, líka fyrir okkur þingmenn. En það er ekki rétt, það er einhver misskilningur hjá hv. þm., að við séum að mæta þessu með því að breyta með nýjum hætti öðrum hlutum tengdum þessu. Það er alls ekki svo, þvert á móti. Þó maður eigi nú ekki að vera að vitna í sjálfan sig þá er óhjákvæmilegt að vitna í það sem ég sagði hér fyrr um þetta atriði í ræðu, af því að það var sagt að um þetta hefði ekki verið talað. Þar er sagt, með leyfi forseta, ef þarf að endurvitna í ræðu sem var flutt hérna fyrir nokkrum klukkutímum:

,,Tenging bóta almannatrygginga við vikukaup í almennri verkamannavinnu var afnumið tímabundið með bráðabirgðaákvæði með lögum um almannatryggingar í 34. gr. laga nr. 144/1995, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996. Bráðabirgðaákvæði þetta líður úr gildi um næstu áramót og mundi að óbreyttu færa ákvörðun um fjárhæð bóta almannatrygginga aftur í fyrra horf. En ýmsir hagsmunahópar hafa orðið til að benda á að tenging þeirra við almenna launataxta hafi ekki alltaf skilað bótaþegum sanngjarnri niðurstöðu í ljósi þeirra launahækkana sem orðið hafa á almennum vinnumarkaði. Af þessum sökum er í 9. gr. frv. lagt til að ákvæði bráðabirgðaákvæðisins um árlega endurskoðun á fjárhæð bótanna í tengslum við gerð fjárlaga verði fest varanlega í sessi. Jafnframt er í sömu grein lagt til að efnisregla bráðabirgðaákvæðisins um ákvörðun fjárhæðarinnar verði gerð varanleg í nokkuð breyttri mynd. Þannig er lagt til að ákvörðun bótanna taki mið af almennri þróun launa á fjárlagaárinu og leggi þá sömu forsendur og fjárlagafrv. því til grundvallar en jafnframt er lagt til að bótaþegum verði veitt trygging fyrir því að fjárhæð þeirra geti aldrei farið niður fyrir það mark sem vísitala neysluverðs segir til um ef laun skyldu þróast með öðrum hætti en verðlag. Fjárhæðir frítekjumarka samkvæmt 17. gr. almannatryggingalaga hljóta að fylgja þeim breytingum sem verða á fjárhæð bóta og almennra tekna lífeyrisþega. Þess vegna er eðlilegt að sú tenging verði tekin upp í 65. gr. laganna, sbr. 9. gr. frv., en heimild ráðherra til að breyta þeim með reglugerð í 2. mgr. 18. gr. laganna verði felld brott, sbr. 8. gr. frv.``

[17:30]

Menn verða sem sagt að skoða 17. gr. til að skilja það sem er að gerast í 18. gr. Ef menn skoða það, sjá þeir að ætlunin er einmitt sú að láta þann tvöfalda lás sem gildir varðandi bæturnar einnig virka með sama hætti við þær tengingar sem ég var að fjalla um. Ég held því að misskilningur sé á ferðinni hjá hv. þm. og menn muni átta sig á þessu þegar yfir þetta verður farið í nefnd.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurðist fyrir um hlutdeild Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga, og hver sú hlutdeild eigi að vera í rekstri svæðisvinnumiðlana. Það er ljóst að sú þátttaka verður nokkur, en auðvitað mjög lítil og ræðst það af hlutfallslegri stærð þeirra sem að því koma. Þá spurði hv. þm. hvort ekki væri tími til kominn að afnema algerlega lögbundin framlög markaðra tekjustofna til að slíkar tengingar skapi ekki falskar væntingar. Við höfum verið að vinna á þeirri braut, núv. og fyrrv. ríkisstjórn. Ég tel að það væri skynsamlegt og eðlilegt. Enn þá eimir nokkuð eftir af slíkum ákvæðum og ég tel að þingmenn eigi að hafa burði, vilja, getu og vitsmuni til að fjalla um þá þætti hverju sinni við ákvörðun fjárlaga, það eigi ekki að þrengja um of það vald sem þingheimi er fengið og skylt að fara með samkvæmt stjórnarskránni við afgreiðslu fjárlaga. Það eigi ekki að vera búið að binda það með öðrum hætti til langframa. Nógu mikið af útgjöldum ríkisins, eðli málsins samkvæmt, er óhjákvæmilega bundið við starfsmannafjölda, launasamninga þeirra og slíka framreikninga sem þingmenn geta sáralítið komið að. Aðrar slíkar bindingar eiga að vera í lágmarki. Eins og ég sagði í framsögu minni fyrr í dag, tel ég að í vissum tilvikum, til að mynda þegar menn eru að gera tiltekna, tímabundna, afmarkaða áfanga eða átök, þá kunni að vera réttlætanlegt að hafa slíkar tengingar, en ekki varanlegar og til eilífðarnóns. Það er ekki eðlilegt og þá skjóta menn sér undan því að vega og meta þau verkefni við önnur verkefni sem hafa komið upp síðar, eftir að hið mæta verkefni fékk forgang.

Ég tel jafnframt og vil nefna það að ástæða er til að nefndin sem fær frv. til meðferðar athugi sérstaklega að gera breytingu á lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, með síðari breytingum, og fella þá niður lokamálslið 48. gr. þeirra laga. Ástæðan er sú að menn hafa náð ákveðnu samkomulagi um fyrirkomulag þessara atriða. Í þeim málslið er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði þann kostnað sem er umfram almennar greiðslur vegna fatlaðra barna. Með frv. sem þannig yrði flutt, yrði slíkt ákvæði fellt niður og sveitarfélögunum gert að annast alfarið kostnað vegna vistunar fatlaðra forskólabarna. Þessi tillaga er í samræmi við lokaálit starfshóps frá 13. des. 1996 er menntmrn. skipaði til að fara yfir fyrirkomulag og endurgreiðslur ríkisins vegna fatlaðra barna í leikskólum og sem meginmáli skiptir, sameiginlega yfirlýsingu fjmrh., félmrh. og Sambands ísl. sveitarfélaga frá 13. des. 1996. Ég tel að þetta þurfi nefndin að athuga sérstaklega. Aðrir þættir hafa verið ræddir af öðrum og mun ég ekki fjalla um þá nánar.