Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 17:48:45 (1909)

1997-12-09 17:48:45# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:48]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ekki hægt að líkja þessu við lífeyrissjóðina vegna þess að þeim er stjórnað af stjórnum lífeyrissjóðanna sem er samkomulagsfyrirbæri sem aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um. Ég held því að ekki sé hægt að miða þetta við það þannig að ég tel að í þessum efnum þurfi að ganga nákvæmar frá þessu. Ég er sammála hæstv. forsrh. um að ekki er hægt að nota óbreytta 65. gr. vegna þess að það er ekki lengur samið um taxtakaup eins og var gert hér áður þannig að það verður að finna eitthvert annað orðalag.

Ég hefði viljað negla þetta þannig að í fyrri hluta greinarinnar væri tekið afdráttarlaust af skarið um það við hvaða launaþróun eigi að miða. Ég tel að undir orðinu launaþróun, eins og það er hérna, geti falist margar mismunandi skírskotanir eins og við þekkjum frá undanförum árum. Eru menn að tala um kaup? Eru menn að tala um kaupmátt ráðstöfunartekna? Eru menn að tala um eitthvað annað. Ég held að þarna þurfi menn að kveða skýrar að orði og reyna að ná samkomulagi um það í hv. nefnd. Mér heyrist hugur manna standa til þess að það verði tiltekið við hvaða launaþróun á að miða og jafnvel þó að það væri aðeins t.d. í nefndarálit efh.- og viðskn., þá mundi ég telja það til verulegra bóta.