Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 18:30:44 (1912)

1997-12-09 18:30:44# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[18:30]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ræðu síðasta ræðumanns vil ég koma að nokkrum atriðum varðandi það að hún taldi að viðhaldi væri mjög ábótavant á mörgum sjúkrahúsum. Það er rétt en einnig ber að geta þess sem gert hefur verið á mjög skömmum tíma. Ég minni á þær endurbætur sem gerðar hafa verið á Landakoti fyrir 120 milljónir á þessu yfirstandandi ári og gjörbreyta þar allri aðstöðu. Ég minni á að gjörgæslan á Ríkisspítölunum hefur verið endurbyggð. Skurðstofur á Landspítala hafa verið endurbyggðar og kvennadeildin endurbætt mjög. Tökum barnadeildina á Sjúkrahúsi Reykjavíkur sem er tveggja ára gömul deild og hjartadeild á Sjúkrahúsi Reykjavíkur sem var endurbyggð fyrir ári síðan. Ég held að menn verði að halda þessu til haga. Margt hefur verið gert. Ekki má gleyma endurbótum á sjúkrahúsum úti á landi og af því sessunautur hv. þm. kemur frá Norðurl. v. þá ætla ég að minna á það sem hefur verið gert þar. Á Hvammstanga hefur sjúkrahúsið nánast verið endurbyggt frá grunni. Á Blönduósi er ný langlegudeild og á Sauðárkróki er verið að endurbyggja endurhæfingu. Ég vil að þetta komi hér fram vegna þess að það mátti skilja svo að ekkert hefði verið gert. Fjármagn til sjúkrahúsanna í Reykjavík hefur sem betur fer aukist. Það jókst árið 1996 og 1997 og áætlað að það aukist 1998. Við erum að tala um 600 milljónir á fjáraukalögum til heilbrigðismála og tillögur eru um 300 milljónir á fjárlögum fyrir utan það sem áður hefur verið lagt fram.