Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 19:06:41 (1920)

1997-12-09 19:06:41# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[19:06]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir til 2. umr. frumvarp til fjáraukalaga íslenska ríkisins fyrir árið 1997. Upphaflega tillagan sem lá frammi til 1. umr. á dögunum gerði ráð fyrir auknum útgjöldum ríkisins umfram tekjur umfram það sem gert var ráð fyrir á fjárlögum 1997 að upphæð 1.097 millj. kr. En fljótlega varð ljóst að þar var mjög vanáætlað og er að mínu mati enn þó nærri 1 milljarður hafi bæst við frv. meðan það var í meðferð hjá hv. fjárln. bæði að frumkvæði ráðuneyta og hv. fjárln. Þó eru hvergi nærri öll kurl komin til grafar og hætt við að ýmsar stofnanir sem treysta á tekjur frá ríkinu verði áfram að dragast með uppsafnaðar skuldir svo nemur mjög íþyngjandi upphæðum.

Svo ég víki fyrst að stofnunum sem heyra undir menntmrn. þá blasir fyrst við vandi framhaldsskóla sem á undanförnum árum hafa mátt sæta allmiklum flötum niðurskurði sem þeir réðu ekki nándar nærri allir við og nú blasir við sú staðreynd að uppsafnaður halli framhaldsskóla frá undanförnum árum er á annað hundrað millj. kr., þ.e. 130 milljónir miðað við síðustu áramót sem var dregið af framlögum þessa árs og má því nærri geta að auðvitað réðu fæstir skólarnir við þá stöðu.

Á bls. 48 í frv. til fjáraukalaga er listi yfir stöðu nokkurra framhaldsskóla um sl. áramót og kemur þar fram að t.d. einn menntaskólanna í Reykjavík hafði þá keyrt fram úr um 23 millj. kr. Það geta verið fullkomlega eðlilegar ástæður fyrir þessari stöðu svo sem mikil veikindaforföll meðal starfsfólks skólans á undangengnu ári og fleira getur komið til. En mér sýnist eiga að ganga mjög skammt til að leysa fortíðarvandann hjá þessum ágætu stofnunum nú áður en þær taka upp nýtt kerfi til fjármögnunar á starfsemi sinni. Framvegis verður rekstrarkostnaður reiknaður út eftir svonefndu reiknilíkani sem ýmsir skólamenn hafa bundið miklar vonir við að muni bæta stöðu skólanna. Það er nefnilega aðeins lagt til í fjáraukalögum að búinn verði til 50 millj. kr. pottur sem ráðuneytið getur að geðþótta sínum úthlutað úr til þeirra sem best standa sig í að draga saman áfanga og draga úr námsframboði og minnka þannig gæði kennslunnar í skólunum, allt fyrir sparnaðinn. Það var ekki nákvæmlega þetta sem við þurftum á að halda í skólakerfi okkar, sem líður gróflega undir allt of mikilli miðstýringu, og því valfrelsi sem boðið var upp á í áfangaskólunum, og hefur vakið athygli víða um lönd, er nú ógnað í þeim skólum sem hafa lent í þessari afleitu stöðu. Þegar svo bætist við að hin nýju reiknilíkön, sem er nú verið að taka upp eins og ég ræddi áður, gera aðeins ráð fyrir greiðslum til skóla vegna þeirra nemenda sem taka próf en það tel ég einnig auka á hættuna að dregið verði úr valáföngum. Sérstaklega mun þetta koma illa út fyrir hina smærri áfangaskóla og vil ég t.d. nefna skólana á Húsavík, á Höfn í Hornafirði og fleiri slíka smærri skóla sem hafa staðið sig vel í að auka námsframboð úti á landsbyggðinni og við megum illa við að missa en það mun hins vegar gera þessa skóla að minna fýsilegum valkosti fyrir nemendur ef námsframboð þar verður mjög þröngt, býður ekki upp á nema brot af þeim sveigjanleika sem býðst í stærri skólum.

Á liðnum Menningarstofnanir er gert ráð fyrir að fjárheimild endurbótasjóðs menningarstofnana verði hækkuð um 33 millj. kr. eða sem nemur sömu upphæð og sérstakur eignarskattur skilar í ríkissjóðs umfram áætlun fjárlaga á þessu ári. Við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári benti ég m.a. á að þessi liður væri mjög vanáætlaður og virðist það hafa komið á daginn þó eflaust hafi mikið verið látið ógert. Það er ekki vansalaust ef við látum þessar tiltölulega fáu menningarbyggingar hér á landi og flestar mjög nýbyggðar miðað við það sem þekkist hjá öðrum þjóðum hrynja yfir okkur vegna þess að viðhaldspeningarnir eru teknir í annað. Í þetta er áætlað að sérstakur eignarskattur renni en sá liður hefur síðan verið skertur verulega í hverjum einasta bandormi og virðist svo ætla að vera enn um sinn.

Á Háskóla Íslands er ekki minnst sérstaklega í fjáraukalagafrv. þó svo að forsvarsmenn háskólans telji sig hafa borið skarðan hlut frá borði að undanförnu og hafi borið sig illa, m.a. í fjölmiðlum og í hátíðarræðum. Ég tel framtíð Háskóla Íslands teflt í tvísýnu með þeirri aðhaldsstefnu sem hefur verið fylgt. Þó er einn liður sem hafði fallið niður í fjárlögum en verið afgreiddur með lögum frá Alþingi 1993, 8 millj. kr., sem voru í raun stofnframlag rannsóknarnámssjóðs en af einhverjum ástæðum hafði fjárveitingin ekki verið afgreidd með heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum til þessa og má segja að betra sé seint en aldrei.

Í utanríkismálakafla frv. vekur athygli að auk þess sem gert er ráð fyrir að verja töluverðum fjárhæðum til sendiherrabústaðanna í Washington og París er gert ráð fyrir 290 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til að mæta útgjöldum vegna húsnæðis sendiráðs Íslands í London. Af þeirri fjárhæð eru 230 millj. kr. vegna endurnýjunar á lóðasamningi sendiráðsins og 60 milljónir til viðhaldsframkvæmda. Þetta er hreint ótrúleg upphæð í umræddan lóðasamning og dettur manni ósjálfrátt í hug að e.t.v. mætti finna íslenska sendiráðinu í London, sem auðvitað er mjög mikilvæg stofnun, ekki skal hér dregið úr því, húsnæði á ódýrari stað og ætti það eftir sem áður að geta gegnt hlutverki sínu. Hv. formaður fjárln., 2. þm. Austurl., Jón Kristjánsson, kom áðan með skýringar ráðuneytisins út af þessu atriði og taldi að eftir nákvæma athugun hefði ráðuneytið talið þetta besta kostinn í stöðunni. Ég verð að segja að ég á mjög erfitt með að trúa þeim skýringum, a.m.k. við fyrstu áheyrn --- ég verð að fá að þreifa á því. Ég á mjög erfitt með að trúa því að það finnist ekki hagkvæmari lausn fyrir sendiráð Íslands í London en þetta. Við erum lítil þjóð og þurfum að gæta mikillar útsjónarsemi í utanríkisþjónustunni.

Það er í heilbrigðiskerfinu sem stærstur vandinn blasir við og þrátt fyrir að reyndar hafi verið nokkrar blóðgjafir, svo sem samkomulag stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík í haust, sem fylgdi umtalsvert fjármagn og svo þær 200 milljónir sem í fjáraukalögum er gert ráð fyrir að gangi upp í rekstrarvanda sjúkrahúsanna í landinu þá mun það duga skammt í þá hít sem blasir þar við en uppsafnaður halli þriggja stærstu sjúkrahúsanna í landinu er talinn munu nema um 800 millj. kr. í árslok.

[19:15]

Auk þess glíma flest önnur sjúkrahús í landinu við einhvern uppsafnaðan vanda og getur margra milljóna króna halli hjá lítilli sjúkrastofnun verið þungur baggi að bera. Þó er ekki gert ráð fyrir viðhaldi í þeim tölum sem hér hafa verið nefndar og er það þó ekki síður áhyggjuefni að þar hafa safnast upp verkefni í mörg ár og er úrlausn þeirra orðin mjög brýn. Aðeins á Sjúkrahúsi Reykjavíkur er áætlað að brýnasta viðhald utan húss muni kosta um 400 milljónir að ekki sé minnst á þau ósköp sem þarf að gera innan húss. Það er eiginlega krafa sem okkur finnst réttmæt og eðlileg að þær sjúkrastofnanir sem dauðveikt fólk leggst inn á haldi vatni og vindi en það mun ekki vera reyndin, t.d. á gjörgæsludeild Sjúkrahúss Reykjavíkur.

Á sjúkrahúsum landsins er unnið mikið og gott starf sem við getum öll verið stolt af og starfsfólkið er margt hvert orðið langþreytt á að stöðugt er látið í það skína að einhver óráðsía sé í gangi og hægt sé að spara endalaust meira og meira. Það er skoðun mín að í flestu sé gætt ráðdeildar í rekstri sjúkrahúsa á Íslandi enda sýna samanburðartölur svo ekki verður um villst að sjúkrahúsin hér á landi eru ekki dýrari en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við heldur þvert á móti hagkvæmari.

Ég held að ekki verði undan því vikist lengur að taka heildstætt á vanda heilbrigðiskerfisins og ef það er ekki hægt að fá peninga til þess með öðru móti en hækka skatta þá þarf að hækka skatta. Það er t.d. sagt að skattar á fyrirtæki á Íslandi séu mun lægri en í nágrannalöndunum, e.t.v. má hugsa sér að hækka skatta á fyrirtæki og eyrnamerkja þá sérstaklega í þetta verkefni. Auðvitað þarf að gæta fyllsta aðhalds í rekstri og ég tel að það sé gert. Vegna þeirra vinnubragða sem hér er lagt til að verði viðhöfð varðandi þá nefnd fagaðila sem á af alvisku sinni að útdeila þeim fjármunum sem gert er ráð fyrir að gangi inn í sjúkrahúskerfið til að hjálpa stofnunum að rétta úr kútnum bæði í fjáraukalögum, þar eru 200 milljónir, og í fjárlögum næsta árs en þar eru 300 milljónir, þá set ég spurningarmerki við þau vinnubrögð sem ætlað er að viðhafa hér, að því er mér sýnist, til að þröngva sjúkrastofnunum til að grípa til tiltekinna aðgerða ef þau eiga að fá úthlutun. Með öðrum orðum svona æfing í hnjáliðamýkt sem við höfum stundum séð áður frá hæstv. ríkisstjórn. Allt of lítill pottur er búinn til og yfir hann settir nokkrir vitringar en á endanum ræður hæstv. ráðherra ferðinni. Þetta heitir að deila og drottna og mér finnst það ekki viðkunnanleg stjórnunaraðferð þótt hún virðist eiga miklum vinsældum að fagna um þessar mundir.

Að lokum vil ég svo minnast á það sem vel hefur verið gert og snertir mitt kjördæmi. Sólvangur er hjúkrunarheimili sem sinnir öldruðum hjúkrunarsjúklingum og hefur gegnum árin ávallt verið rekið innan ramma fjárlaga en á síðasta ári byrjaði það að safna halla og stefndi hann í 28 milljónir nú í árslok. Á þessu máli er tekið hér í frv. og ber að þakka það en þess má geta að Sólvangur hefur næstþyngstan stuðul umönnunar í landinu. Einnig hafa verið vanáætluð útgjöld Hleinar, heimilis fyrir heilaskaddaða, sem rekið er í tengslum við Reykjalund en þar er hjúkrunarþyngd einnig mikil og er útlit fyrir að uppsafnaður halli í árslok verði 15,5 milljónir og er áætlað að greiða hann upp og hækka rekstrargrunninn á næsta ári svo þar virðist vera komist fyrir horn og mér finnst þetta vera til fyrirmyndar og ég vildi sjá svona afgreiðslu á miklu fleiri stöðum.

Það ber að þakka það sem vel er gert og vissulega er tekið á ýmsum málum en maður hefði gjarnan viljað sjá það víðar í frv. sem liggur hér frammi til 2. umr.