Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 20:56:08 (1924)

1997-12-09 20:56:08# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., GHelg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[20:56]

Guðrún Helgadóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég var að minnast á var að það kemur auðvitað í sama stað niður hvar sparnaður eða eyðsla í heilbrigðiskerfinu og sjúkrahúskerfinu á sér stað. Það hefur einfaldlega sýnt sig að allt þetta brölt sem stjórnvald tróðu yfir höfuðið á sjúkrahúskerfinu hefur ekki haft neinn sparnað í för með sér og það er ósköp auðvelt að sanna það. Sá kostnaður sem kann að sparast kemur niður annars staðar og allt er þetta úr einum og sama sjóðnum. Ég hef ekki þær tölur núna hverju hefur verið veitt af fé til hagræðingar en það skiptir tugum ef ekki hundruðum milljóna. Ég held að þarna hafi verið farið afar vitlaust að og ekki hafi sparast neinar fjárhæðir við þetta og því síður hefur þjónustan batnað því þetta hefur auðvitað valdið miklum erfiðleikum hjá starfsfólki sjúkrahúsanna og ekkert haft í för með sér nema aukna eyðslu.