Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 20:59:34 (1926)

1997-12-09 20:59:34# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., LMR
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[20:59]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan ræða lítillega um fjárhagsvanda heilbrigðisþjónustunnar, einkum með tilliti til þess sem er að gerast í málum stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík en þó ætla ég að reyna að halda mig almennt við það hvernig við vinnum að málefnum heilbrigðisþjónustunnar.

[21:00]

Ég vil í upphafi vekja athygli á því og það ekki í fyrsta skipti hversu mér finnst umræða um jafnmikilvægan málaflokk eins og heilbrigðismál liggja oft hjá garði. En smærri hagsmunamál verða hins vegar að háværum umræðum. Mér finnst vera kominn tími til að Alþingi ræði um heilbrigðismál með meiri áherslu, stefnu og víðsýni en taki ekki flest mál upp í utandagskrárumræðum um afmörkuð efni eða eins og við gerum í dag og væntanlega um fjárlögin, í heildarumræðum um fjáraukalög og fjárlög. Það er þó ljóst að hv. Alþingi hefur ekki gefið formlegt samþykki sitt né rætt heilbrigðismál þannig að vilji þingsins sé skýr, að minnsta kosti hef ég ekki þá reynslu eftir mína setu á þingi. Hins vegar hefur af hálfu viðkomandi stjórnmálamanna og embættismanna verið unnið dyggilega að því að hlúa að þeirri stefnu sem þjóðin hefur að öllum líkindum ekki fylgt eða stutt samkvæmt könnunum undanfarinna ára um þessi mál meðal almennings. Þar hefur komið fram skýlaus vilji almennings um að heilbrigðisþjónusta eigi að njóta meiri forgangs. Hv. Alþingi hefur ekki látið í ljós skýran vilja sinn heldur hefur verið fjallað um heilbrigðismálin eins og ég minntist á áðan með eins konar plástrameðferð sem þykir nú ekki góð læknisfræði þegar um jafnaðþrengdan sjúkling er að ræða sem þessi málaflokkur er.

Enn ber frv. til fjáraukalaga merki þess að lítið hafi breyst í þessum efnum. Á sama tíma eykst miðstýring stjórnvalda og embættismanna. Gert er ráð fyrir því núna að leggja eigi til hliðar 200 millj. kr. í einn sjóð til að mæta uppsöfnuðum rekstrarvanda sjúkrahúsanna úti á landi. Þess ber þó að geta að uppsafnaður vandi stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík nemur nú rúmlega 400 millj. kr. og Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar rúmlega 84 millj. kr. Alls er um að ræða á þessum þremur stóru sjúkrahúsum um 500 millj. kr. í rekstrarvanda og á þá eftir að huga að öðrum sjúkrahúsum á landinu.

Ég vísa til komandi niðurstöðu fjárln. á fjárlögum ársins 1998 eins og vísað er til í nefndaráliti um frv. eða till. sem lagðar eru fram í dag þar sem áætlað er að leysa vanda allra sjúkrahúsa á landinu, eins og stendur í textanum. Þetta verður gert með því að leggja fjármagn í einn sjóð og þessi sjóður á að leysa vanda allra. Þá er spurt hvernig verði ráðstafað úr þessum sjóði. Fjármunum verður ráðstafað pólitískt með ákvörðun stjórnvalda, ekki formlegum vilja Alþingis, að því er virðist, hvað þá heldur þjóðarinnar. Nú skal stofna enn eina nefnd um nánustu framtíð heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Ekki framtíðarmótun, nei, um nánustu framtíð. Hversu margar slíkar nefndir hafa starfað í einu eða öðru formi að slíkum málum? Hversu margar nefndir hafa fjallað um þau mál? Um sparnað, um heilbrigðisþjónustu í framtíðinni og svo framvegis? Forvitnilegt væri að fá svar heilbrrh. um fjölda þeirra nefnda sem starfað hafa, ekki í stjórnartíð hennar heldur fyrri stjórnar, og á undanförnum rúmum áratug. Forvitnilegt væri að fá svar heilbrrh. um fjölda nefndanna. Nefndin sem ætlast er til að fari í gang núna fær nafnið stýrinefnd. Kannski mætti nefna hana miðstýrinefnd? Varla, segir þá í áliti því þar eiga að koma fulltrúar með sérþekkingu á málefnum stærri og smærri sjúkrahúsa og skilgreina starfsvið einstakra heilbrigðisstofnana og semja um sérhverja þá þjónustu sem skal veita, styrkja stjórnun þeirra og bæta eftirlit. Hér ætlar hv. Alþingi enn að opna dyrnar upp á gátt og gefa embættismönnum og sérfræðingum sem fram að þessu hafa mest og flest haft að segja um málaflokkinn, ekki bara tæknilegt heldur einnig pólitískt vald.

Hvað liggur svo bak við þá aðferð sem verið er að beita við úthlutun fjármagns? Ég spyr ekki eingöngu út frá hagsmunum Reykvíkinga heldur allra landsmanna en um helmingur sjúklinga á stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík er ekki frá höfuðborgarsvæðinu heldur utan af landi eins og kallað er.

Ég vil halda því fram að stóru sjúkrahúsin í Reykjavík séu þær stofnanir sem eru helst í skotmarki embættismanna. Embættismennirnir eru væntanlega líka sérfræðingarnir sem vísað er til enda eru þeir búnir að vinna dyggilega að þessum málum á undanförnum árum í Reykjavík og utan Reykjavíkur.

Ég hef oft á undanförnum árum, eins og flestir þekkja til, bent á nauðsyn þess að Alþingi hefði frumkvæði að umræðum um heilbrigðismál og mótaði stefnu þar um en umræðan hefur ekki farið lengra en í hástemmdar yfirlýsingar þegar allt er komið um kring og torfa fer að kyssa brott horfna heilbrigðisþjónustu, eins þegar Landakot og Borgarspítali voru orðnir nánast að veruleika.

Alþingi hefur í þeim umræðum sem fram hafa farið um starfsemi sjúkrahúsanna í Reykjavík stuðst við upplýsingar úr skýrslum ráðgjafa og sérfræðinga sem ráðnir hafa verið af stjórnvöldum og embættismönnum. Maður spyr í hvaða tilgangi. Er raunverulega verið að sýna fram á betri rekstrarmöguleika, þjónustugæði og afköst? Höfum við ekki sýnt fram á að afköst og gæði í íslenskri heilbrigðisþjónustu eru sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum?

Ég óska eftir því að Alþingi fái aðrar og nákvæmari tölur en þær sem við höfum verið með á undanförnum árum sem sýni okkur þá samsetningu sjúklinga sem er inni á sjúkrahúsunum, þá vinnu sem er í kringum hvern sjúkling fyrir sig, svo við getum farið að vinna vitrænna í þessum málum en verið hefur á undanförnum árum, og þegar ég segi vitrænna, er það að sjálfsögðu vitrænna að mínu mati.

Ég hvet til þess þegar við ræðum öðru sinni um fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu og stefnumótun í heilbrigðisþjónustu að þá ræðum við ekki um sjóði eða potta sem við ætlum að nýta til að skammta úr í tóma sjóði sjúkrahúsanna --- ef við nánast skömmtum ekki sjálf eða höfum ekki stefnu um á hinu háa Alþingi heldur viljum við og við munum ekki skammta frekara olnbogarými á þeim tíma til stjórnvalda eða embættismanna eða sérfræðinga ef við viljum hafa það svo --- heldur að við tökum umræðuna upp með heildarsýn á þeim málum sem fram undan eru í heilbrigðismálum og við skoðum hlutina út frá því hvað þeir sem kusu okkur á þetta háa Alþingi vilja og við viljum gera sem fulltrúar almennings, við og bakhjarlar okkar, almenningur, viljum með þessi mál gera.