Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 21:07:57 (1927)

1997-12-09 21:07:57# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:07]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir talar jafnan af talsverðri þekkingu um þessi mál sem hér liggja undir sem lúta að verulegu leyti að heilbrigðismálum. Ég tók eftir því að hv. þm. kvartaði undan því að það skorti stefnu um málefni sjúkrahúsanna og ég er henni sammála um það. Hún benti jafnframt á að gríðarlegar upphæðir standa út af, gríðarlegar upphæðir vantar til þess að sjúkrahúsin geti haldi uppi eðlilegri starfsemi. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur: Treystir hún sér til að standa að fjáraukalögum eins og þau líta út núna þegar fyrir liggur að ekki er gert ráð fyrir einni einustu krónu til sjúkrahúsanna í Reykjavík --- sjúkrahúsanna sem hún hefur borið mjög fyrir brjósti, sjúkrahúsanna sem hún hefur haldið fjöldamargar ræður um nákvæmlega í þessum sal? Hv. þm. var reyndar með ákveðna tölu og sagði: Þetta er það sem vantar upp á. Ætlar þá hv. þm. að standa að samþykkt þessa frv.?