Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 21:11:06 (1929)

1997-12-09 21:11:06# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:11]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka þátt í umræðunum í kvöld en ég gat ekki orða bundist þegar ég fyrr á þessu kvöldi hlýddi á ræðu hæstv. heilbrrh. Hæstv. heilbrrh. talaði eins og flest væri í góðu lagi í heilbrigðiskerfinu þegar staðreyndin er sú að heilbrigðiskerfið hefur sennilega aldrei verið í jafnlöku ástandi eins og núna. Því miður er staðreyndin sú að undir stjórn hæstv. heilbrrh. hefur mjög margt farið úr lagi.

Þetta er vandamál sem við stöndum öll frammi fyrir. Það er fjarri mér að ætla að það sé endilega vandi núv. ríkisstjórnar einnar að taka á málinu. Mér finnst hins vegar lítill mannsbragur á því að koma eins og hæstv. heilbrrh. gerir aftur og aftur og tína upp einhver smáatriði sem hún er að vinna hér og hvar þegar við blasir að ástandið er orðið verulega alvarlegt á stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík. Ég tek þess vegna alveg undir það sem hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir sagði áðan að menn þurfa auðvitað að gera eitthvað annað en setja stöðugt nýjar og nýjar nefndir í málið. Menn verða að fara að ræða þetta með tilliti til framtíðarinnar. Hvað ætla menn að gera? Hvað ætla menn t.d. að gera varðandi stóru sjúkrahúsin í Reykjavík? Aftur og aftur kemur fram að menn telja að verulegt hagræði væri að því að sameina þessi sjúkrahús.

Ég sjálfur hef í æ ríkari mæli hallast að því, bæði af fjárhagslegum orsökum og einnig faglegum sé rétt að íhuga hvort ekki eigi að steypa þessum tveimur stóru sjúkrahúsum saman. Það er nauðsynlegt að menn geri það af einhverju viti. Til þess að það sé hægt þarf málefnalega umræðu um kosti og galla þess. Sú umræða hefur t.d. aldrei farið fram á hinu háa Alþingi. Hæstv. heilbrrh. hefur ekki gert það síðustu árin svo ég viti til. Ég minnist þess ekki að hér hafi farið fram málefnaleg umræða um hvaða kostir fylgi því og hvaða gallar kunni að tengjast því að sameina stóru sjúkrahúsin. Hæstv. heilbrrh., sem á að hafa frumkvæði að umræðunni, hefur lítið lagt til þess. Ég bendi á að hæstv. ráðherra hefur til skamms tíma verið með tvær stefnur í því máli. Annars vegar heilsukjördæmin sem hún bar mjög fyrir brjósti og ræddi um í ein tvö ár að væri það sem hún ætlaði að koma í gegn á þessu kjörtímabili. Hún virðist nú hafa fallið frá því og ætlar í staðinn að freista þess að reyna að sameina spítalana á grundvelli skýrslu VSÓ. Ég tel að skýrslan, sem kom fram hjá VSÓ, verðskuldi fyllilega að menn ræði sameiningu spítalanna á þeim grundvelli. Ég er algjörlega klár á því að hægt er að finna að mörgu í henni. Bæði hafa læknar og aðrir sem tengjast sjúkrahúsunum fundið margt að skýrslunni. En ég hef lesið skýrsluna og ég get sagt að það er ýmislegt sem ég á erfitt með að trúa. En þegar virt ráðgjafafyrirtæki eins og þetta kemur og segir bókstaflega að hægt væri að hagræða sem nemur 520 ársverkum tel ég að það þurfi að fara fram umræða um það. Ég tel að sú umræða eigi vel heima innan þessara veggja. Hins vegar er líka alveg klárt að til þess að hægt sé að feta eða hnika því verki áfram þarf að ríkja sæmileg sátt um það mál. Það þarf að kveðja til það fólk sem vinnur á þessum spítölum sem þegar er í auknum mæli að vinna saman á ýmsum sviðum, það hefur komið aftur og aftur fram. En í staðinn eru vinnubrögðin þannig að þau eru alls ekki til þess fallin að hvetja þennan samruna, miklu fremur letja þau hann.

[21:15]

Ég tek sem dæmi Sjúkrahús Reykjavíkur sem auðvitað er nátengt Reykjavíkurborg og borgarstjórn Reykjavíkur. Þegar ríkisstjórnin féllst á samþykkt heilbrrh. um að fara í vinnuna á grundvelli ákveðinna niðurstaðna úr skýrslu VSÓ þá var það gert án þess að haft væri samband við Reykjavíkurborg. Þetta finnst mér vera ámælisverð vinnubrögð og mér finnst þess vegna þegar við höfum þetta gagn í höndunum sem getur hnikað þessu verki talsvert fram á við, að þá beri hæstv. ráðherra skylda til þess að vinna þannig að líklegt sé að einhver sátt náist um það. Ég tel hins vegar, eins og það verk fór af stað, að litlar líkur séu á því að nokkur niðurstaða komi í því máli. Og því miður er það þannig að við stöndum núna frammi fyrir sveitarstjórnarkosningum sem gera það að verkum að málið er viðkvæmt og enginn þorir að gera neitt. Og ári síðar er komið að þingkosningum og þá er það erfitt fyrir ýmsa aðra. Ég hefði talið æskilegt að reyna að fá miklu breiðari hóp til að vinna að þessu máli og fólk sem vinnur á báðum spítölunum.

Ég átti því láni að fagna að vera um daginn á fundi hjá Læknafélagi Íslands þar sem mér fannst koma fram miklu ríkari vilji til þess að kanna þessa leið heldur en ég hafði áður orðið var við og ég tel að ef hæstv. ráðherra hefði reynt að notfæra sér það þá hefði hún a.m.k. getað hnikað málinu betur áfram en núna. Mér sýnist það vera komið í strand.

Þegar hæstv. ráðherra kemur hér og talar eins og allt sé í lagi í heilbrigðisþjónustunni þá verðum við að gera okkur grein fyrir ákveðnum staðreyndum. Þessar staðreyndir eru eftirfarandi: Stóru spítalarnir hafa verið sveltir árum saman. Það er líka alveg ljóst í mínum huga og væri hægt að sýna fram á það að Sjúkrahús Reykjavíkur hefur borið skarðari hlut frá borði heldur en Ríkisspítalarnir. Það er mín skoðun. Mér finnst þetta allt saman lykta af því að verið sé að reyna svelta Sjúkrahús Reykjavíkur til sameiningar. Það finnst mér einfaldlega vera röng aðferð. Þessi stöðugi niðurskurður hefur staðið yfir núna allar götur frá því í tíð fyrri ríkisstjórnar og ég dreg enga dul á það heldur. En við stöndum hins vegar frammi fyrir því núna að það er vaxandi góðæri í landinu og þá hefðu menn talið að hægt væri að snúa frá þessari braut. En í staðinn virðist skrúfan frekar vera hert. Við búum við það ástand núna á spítölunum að það er gríðarlegt álag á starfsfólki. Við erum í vaxandi mæli að missa frá okkur starfsfólk sem hefur mikla þjálfun, hefur mikla reynslu og er vel menntað vegna þess að menn hafa ekki lengur sálrænt úthald til þess að starfa við þessar aðstæður. Við vitum að það vantar á annan milljarð bara til þess að hægt sé að reka stóru spítalana í Reykjavík bærilega á næsta ári. Það kemur til að mynda fram í nál. frá meiri hluta fjárln. að þar gera menn sér grein fyrir því að fjárhagsvandi sjúkrahúsanna er mikill og það er lofsvert að meiri hlutinn segir það bókstaflega í sínu áliti, með leyfi forseta:

,,Fjárhagsvandi sjúkrahúsa er mikill, hvort heldur eiga í hlut stærri sjúkrahús í Reykjavík og á Akureyri eða smærri sjúkrahús ...``

Síðan kemur að því undir öðrum lið að þar gægist fram hver vilji hv. fjárln. er. Þar segir einfaldlega að jafnframt verði í fjárlögunum 1998 ætlað fjármagn til þess að auðvelda lausn á vanda allra sjúkrahúsa í landinu. Þetta eru fögur orð. Þetta er góður vilji, en við höfum séð fjárlagafrv. og samkvæmt því vantar u.þ.b. 500 milljónir á annan spítalann og 400 á hinn. Andspænis þessu hlýtur maður að velta fyrir sér hvort það eigi virkilega að verða hlutskipti spítalanna enn eitt árið að vera ýtt út í enn frekari niðurskurð, enn frekari lokanir deilda og enn meira álag á starfsfólk sem hlýtur að leiða til þess fyrr en seinna að það verði að draga úr bráðnauðsynlegri þjónustu á þessum spítölum. Ég verð að segja það, herra forseti, að ég sé þess þegar merki að kerfið er farið að trosna svo á saumunum að það er farið að leka.

Ég vek athygli á því að þegar við í heilbr.- og trn. fengum fulltrúa spítalanna til að ræða þessi mál þá bentu t.d. fulltrúar Ríkisspítalanna á það sem hæstv. heilbrrh. hefur alltaf neitað, að biðlistarnir hafa verið að lengjast. Þetta er ekki staðhæfing mín. Þetta er haft eftir fulltrúum Ríkisspítalanna í áliti sem meiri og minni hluti heilbrn. standa saman að. Þetta er ekki skoðun nefndarinnar. Þetta er sú skoðun sem kom fram hjá fulltrúum Ríkisspítalanna. Hvað þýðir það þegar biðlistarnir eru að lengjast eins og gerst hefur á allra síðustu árum? Það þýðir að menn eru teknir veikari en áður inn á spítalanna. Það þýðir að hlutfall bráðveikra sjúklinga eykst. Og það kemur einmitt fram að á síðustu árum hefur hlutfall bráðveikra sjúklinga aukist upp í 70%. Hvað þýðir það hins vegar? Hvað þýðir þetta álag á sjúkrahúsunum? Það þýðir að veltan í gegnum sjúkrahúsin er svo mikil, krafan um það að nýta sjúkrahúsplássin er svo mikil, að sjúklingarnir eru skemur á sjúkrahúsunum en áður og þeir fara út áður en þeir hafa náð fullri heilsu. Og hver er afleiðingin? Afleiðingin er sú að endurinnkomum stórfjölgar.

Í bréfi sem Ólafur Ólafsson landlæknir skrifaði hv. fjárln. kemur t.d. fram að á árunum 1986--1992 voru fjórir til tíu sjúklingar endurinnlagðir á hjartadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur á ári hverju áður en átta dagar voru liðnir frá útskrift. Nú eru þeir tæplega 80. Þetta hefur áttfaldast á nokkrum árum. Ef við lítum t.d. á lyflækningadeildina þá hefur þeim fjölgað á þessum sama tíma úr rúmum 60 á ári í 200 á ári.

Þetta eru mjög alvarlegar upplýsingar og þær ættu að gefa okkur öllum a.m.k. tilefni til að staldra við og spyrja hvort við séum ekki komin fulllangt í þessum niðurskurði. Ég segi þetta vegna þess að við erum að ræða hér m.a. um heilbrigðismál og ég vil nota þetta tækifæri til þess að segja að mér finnst að tími sé kominn til þess að stjórnarliðið og stjórnarandstaðan reyni einhvern veginn að vinna sig niður á stefnu til framtíðar um það hvað sé hægt að gera til að taka á þessum vanda vegna þess að ég geri mér alveg grein fyrir því að vandinn er svo mikill að jafnvel þó að ég kæmist skyndilega í ríkisstjórn á morgun þá mundi mér ekki takast að leysa hann. Ég held að höfum hérna frammi fyrir okkur einhvers konar skipulagsvanda innan heilbrigðiskerfisins sem er að verða að stóru faglegu vandamáli. Sú þróun sem við höfum séð á allra síðustu árum er í rauninni að búa til fleiri sjúklinga. Eftir því sem niðurskurðurinn er meiri á sjúkrahúsunum þá verða biðlistarnir lengri og þar af leiðir að þeir sem koma inn á spítalana eru í auknum mæli bráðveikt fólk og spítölunum liggur svo á að koma því út í samfélagið aftur að menn eru útskrifaðir áður en þeir hafa náð heilsu og það þýðir að þeir eru einfaldlega lagðir inn aftur. Þetta er eitthvað sem við hljótum að þurfa að skoða rækilega, herra forseti. Ég nota tækifærið til þess að vekja máls á þessu hérna vegna þess að mér finnst það ekki hægt af hæstv. heilbrrh. að koma hér aftur og aftur og tala eins og hún sé að vinna einhver stórkostleg afrek í heilbrigðisþjónustunni. Svo er einfaldlega ekki. Vitaskuld hefur hún góðan vilja og hún gerir sitt besta til þess að spila úr þeim fjármunum sem hún fær, en við stöndum bara frammi fyrir þeirri staðreynd að fjármunirnir sem eru reiddir fram til málaflokksins eru alls ekki nægir.

Hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir spyr um stefnu. Ég spyr um stefnu. Og það er auðvitað eitt af því sem hæstv. heilbrrh. sætir gagnrýni fyrir, að hún hefur ekki lagt fram heildstæða stefnu í heilbrigðismálunum. Ég held að það sé partur af þessum vanda sem við erum alltaf að sjá aftur og aftur. Þetta er sama vandamálið. Við munum standa hérna á næsta ári að ræða nákvæmlega þessa sömu hluti vegna þess að stjórnvöld eru að ýta vandanum yfir á næsta ár. Þannig hefur þetta verið undanfarin ár. En það er ekki bara ég og það er ekki bara hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir sem tala um skort á stefnu.

Hverjir eru það sem ættu að þekkja þetta gerst? Það eru auðvitað læknarnir. Og menn ættu að hlusta á þá og dómur þeirra er alveg skýr. Ég þarf ekki að rifja upp fyrir þingheimi þær ályktanir sem bæði Læknafélag Íslands og Félag heimilislækna hafa sent frá sér fyrir tiltölulega skömmu. Það er ekki lengra síðan en í fyrri hluta september sem heilsugæslulæknar inntu hæstv. ráðherra eftir því hvort hún ætlaði sér að framkvæma þá stefnu sem hún hafði lagt fram til lausnar á mjög erfiðu verkfalli þeirra fyrir ári. Þegar þeir komu saman á fund í Borgarnesi 6. september þá var liðið liðlega ár frá því deilan var leyst, ekki síst á grundvelli ákveðinnar stefnu sem þar var lögð fram. En aðalfundur heimilislækna spurði: ,,Hvenær ætlar hæstv. ráðherra að framkvæma stefnuna?`` Og þeir bættu um betur og sögðu að ef það yrði ekki ráðist í að hrinda henni í framkvæmd innan skamms þá mundi heilsugæslan á landsbyggðinni hrynja. Þetta er ekki dómur minn. Þetta er dómur heilsugæslulæknanna.

Aðalfundur Læknafélags Íslands, sem yfirleitt hefur nú ekki verið stóryrt, samþykkti líka ályktun þar sem hann óskaði eftir stefnu vegna þess að það stappaði nærri upplausn innan heilbrigðiskerfisins. Ég held að við séum komin á þann punkt núna að við verðum að fá einhverja stefnu um þetta. Ætlum við enn eitt árið að ýta þessum vanda fram á næsta ár og vita ekki hvernig við ætlum að taka á honum þá, vitandi að hann mun stækka og stækka alveg eins og þessar upphæðir sem við sjáum núna að vantar? Þær eru talsvert stærri en í fyrra og í fyrra voru þær stærri heldur en hitt árið. Svona vindur þetta upp á sig. Þess vegna segi ég að þetta er vandi okkar allra og einhvern veginn þurfa menn að ná samráði um það hvernig á að fara í að leysa þetta. Er ein lausnin sú til að mynda að reyna að sameina stóru spítalana á Reykjavíkursvæðinu? Ég held að það sé meira en einnar messu virði, alveg eins og París var forðum daga, að skoða það ofan í kjölinn. En hvar er vettvangurinn til þess að skoða það? Eru það ekki við þingmenn sem ættum að skoða það? Jú, við sitjum í fagnefndum en það er umhendis og jafnvel örðugt fyrir okkur vegna þess að við erum fyrst og fremst sett í nefndirnar til þess að véla um frv. og þáltill. sem koma frá þessu þingi og maður hefði vænst þess að fá e.t.v. þáltill. sem hefði að geyma stefnu í heilbrigðismálum til framtíðar til þess að Alþingi og fagnefndirnar, fjárln. og heilbr.- og trn., gætu fengið tækifæri til þess að fara í faglega umræðu um þetta mál. En það er það sem vantar. Og það mun vanta, herra forseti, meðan staðan er þannig að hæstv. heilbrrh. kemur hér í hverri umræðu sem um málaflokkinn er, og það liggur við að hún berji sér á brjóst, og segir að málið sé bara allt í góðu lagi af því hún er að gera alls konar sniðuga hluti úti um land og inni á spítölunum. Vandinn blasir samt sem áður við, ægistór, og stærri en áður og stefnuleysið verður stöðugt meira hrópandi.