Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 21:28:42 (1930)

1997-12-09 21:28:42# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:28]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. 6. þm. Reykv. að það þarf málefnalega umræðu um heilbrigðismál. Mér finnst satt að segja örlítið skorta á það hjá hv. formanni heilbr.- og trn. og fleirum því umræðan um heilbrigðismál, þegar ljóst er að framlag hefur verið aukið til þeirra síðustu sex árin og verið er að auka framlag um 600 milljónir á þessum fjáraukalögum og tillögur um 300 milljónir á næsta ári, snýst um niðurskurð. Mér er alveg ljóst að fjárþörfin er mikil enda stendur það í nál. meiri hluta fjáln. Hins vegar verð ég að leiðrétta það sem kom fram í máli hv. formanns heilbr.- og trn. og ég vona að það hafi nú verið missögn að ekki væri króna í fjáraukalögunum til sjúkrahúsanna í Reykjavík því það eru 320 milljónir samkvæmt sérstökum samningi sem var gerður af rekstraraðilum þessa húss og undirskrifaður af borgarstjóranum í Reykjavík, fjmrh. og heilbrrh. þar var málið sett í þennan farveg.

[21:30]

Ég vildi nú ekki láta langt líða frá ræðu hv. formanns heilbr.- og trn. án þess að taka þetta fram, því ég vona að hann hafi mistalað sig um þetta eins og títt er í þessum ræðustól að hv. þingmenn mistala sig.

Varðandi heilsugæslulæknana, því það mál brennur nú auðvitað á Austurlandi, á mér til dæmis, þá eru mál þeirra í kjaranefnd eins og samið var um. Það hefur því miður dregist allt of lengi, óþolandi lengi, að hún skili áliti. En það er verið að byggja upp heilsugæslu hér í Reykjavík eins og var gert ráð fyrir í samningum við þá.