Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 21:36:08 (1934)

1997-12-09 21:36:08# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:36]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að mér þótti hv. 15. þm. Reykv., formaður heilbr.- og trn., alveg ótrúlega kokhraustur í þessari umræðu þegar við lítum til þess að hann sagði að sjúkrahúsin væru svelt, að verið væri að svelta þau til sameiningar. Ef hægt er að tala um að einhvern tímann hafi verið gerð tilraun til að svelta sjúkrahús þá held ég það hafi nú verið í tíð hv. þingmanna Alþýðuflokksins í stóli heilbrrh. og við minnumst þess alveg sérstaklega frá árunum 1992 og 1993. Það var mjög erfitt að vera í ríkisstjórnarsamstarfi á þeirri tíð þegar verið var að draga saman seglin og breyta áherslum í sjúkrahúsarekstrinum, færa Landakot og Borgarspítalann saman. Þetta voru mjög erfiðar aðgerðir. Ég verð að viðurkenna að ég tel að það hafi komið fullharkalega og sennilega allt of harkalega niður á Borgarspítalanum. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. hvað það varðar. Hins vegar, þegar við lítum á sjúkrahúsin í heild, þá hefur verið um aukningu að ræða. Það hefur hallast verulega á og ég tel að líta þurfi til þess. Hins vegar má ekki gleyma einu. Hv. þm. nefnir það ekki. Við höfum verið að byggja upp hjúkrunarheimilakerfi um allt land, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum látið heilmikla fjármuni í hjúkrunarheimili og það skiptir mjög miklu máli. Aðalatriðið í þessari umræðu, herra forseti, er að meiri hluti fjárln. er að leggja fram brtt. sem byggja á því að við ætlum að stokka spilin upp á nýtt.