Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 21:41:03 (1937)

1997-12-09 21:41:03# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég stend nú ekki hér í gervi Sáls sem var lostinn eldingunni og vissunni á leiðinni til Damaskus. Ég er enginn ofsatrúarmaður á þessa sameiningu. En ég ég sagði hins vegar að nauðsynlegt væri í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafa fram, eins og í skýrslu VSÓ, að fara í þessa umræðu. Það getur nefnilega vel verið að hv. þm. hafi rétt fyrir sér, að gera eigi þetta svona. En þingið þarf að geta komist að þessari umræðu einhvers staðar og það þarf að skapa vettvang fyrir hana. En það er ekki skapaður vettvangur fyrir hana. Hvers vegna? Vegna þess að hæstv. heilbrrh. heldur þessu máli frá þinginu. Hvers vegna? Vegna þess að hún er hrædd við kosningar, fyrst í sveitarstjórn og síðan í þinginu. Það er þess vegna sem þingið fær ekki að koma að þessu. En, herra forseti, lykilsetningin í máli hv. þm. var sú að það eru svo miklar breytingar núna, segir hann, í heilbrigðisgeiranum, að við erum í dag að hætta við það sem var ákveðið í gær. Staðfestir það ekki það sem ég er að segja um stefnuleysið? Ég ætla ekkert að ,,blammera`` hæstv. heilbrrh. sérstaklega fyrir það, varaformaður fjárln. segir að verið er að hætta við það í dag sem var ákveðið í gær. Ég gæti ekki verið meira sammála honum. (StB.: Ég átti við það sem var ákveðið í Alþýðuflokknum.)