Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 21:42:29 (1938)

1997-12-09 21:42:29# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:42]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hefur margt verið rætt. Ræðum um stefnuna. Ræðum um héraðsstjórnirnar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður heilbr.- og trn., minntist á áðan. Er hann á móti eða með héraðsstjórnum? Ég hef lagt til að fækka stjórnum í heilbrigðisþjónustu og gera þær skilvirkari. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson var í þeirri nefnd. Hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir var í þeirri nefnd. Hvað lögðu þau til í þeirri nefnd? Því svara þau sjálf. Staðreyndin er sú að við höfum verið að fækka stjórnum og gera þær skilvirkari. Við byrjuðum í Reykjavík. Hér er ein stjórn yfir heilsugæslunni. Síðan fórum við yfir til Vestfjarða og fækkuðum þar stjórnarmönnum í samvinnu við heimamenn og næsta stig er, í samvinnu við heimamenn á Austfjörðum, að fækka stjórnum og gera þær skilvirkari. Í dag eru einir 42 stjórnarmenn yfir heilbrigðisþjónustunni þar. Við erum að tala um að þeir verði sjö, og í samvinnu við það heimamenn leggja til. En ég hef ekki fengið aðstoð þessara hv. þm. sem hér töluðu um stefnuleysi áðan. Tölum um VSÓ-skýrsluna sem hér hefur verið til umræðu. Tölum um samhæfingu sjúkrahúsanna á Reykjavíkursvæðinu. Ég er þeirrar skoðunar að við getum náð verulegum árangri með samhæfingu sjúkrahúsanna. (Gripið fram í.) Það höfum við sýnt t.d. með því að opna eina öldrunarlækningasjúkrahúsið á Landakoti fyrir bæði þessi stóru sjúkrahús. Þar höfum við sýnt árangur. Ég tel að við getum sýnt árangur varðandi fleiri einingar. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði áðan að þessi ríkisstjórn væri að loka deildum. Er það rétt, hv. þm.? Við erum að opna deildir sem Alþýðuflokkurinn stóð fyrir að loka á sínum tíma. Ég nefni lýtalækningadeildina á Ríkisspítölum þessu til staðfestingar. Það hafa aldrei verið minni lokanir á sumartíma en á yfirstandandi ári. Þetta held ég að hv. formaður heilbr.- og trn. ætti að vita.