Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 21:49:43 (1942)

1997-12-09 21:49:43# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:49]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um frágang ákveðinnar nefndar þar sem komu m.a. fram hugmyndir um héraðsstjórnir í héruðum landsins. Þessi nefnd lauk aldrei störfum. Hins vegar var gefið út plagg sem kom fram með samsuðu ýmissra hugmynda nefndarmanna til að skoða hug þeirra sem vinna í heilbrigðisþjónustunni og annarra sem tengdir eru heilbrigðisþjónustu. Þetta var hreinlega gert til þess að fara í eins konar hugarflug um það hvernig við viljum best koma að heilbrigðisþjónustunni. Hins vegar vil ég gjarnan beina máli mínu að ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ég vil spyrja hvort skipulagsvandi sjúkrahúsanna í Reykjavík sé að verða að faglegu vandamáli og þá hvers konar faglegu. Er þetta ekki líka spurning um þjónustu við almenning, um aðstöðu og afstöðu almennings? Ég vil einnig spyrja hvort menn treysti því fyllilega að allt hafi komið fram í svokallaðri VSÓ-skýrslu sem erlendir ráðgjafar unnu að með VSÓ-mönnum --- það voru erlendir sérfræðingar í heilbrigðismálum --- hvort þessir sérfræðingar hafi haft nægilega þekkingu á íslenskum aðstæðum til að við gætum fyllilega komið fram með þá skýrslu og talað í nafni þeirrar skýrslu um þá stefnu sem við viljum hafa hérlendis í málefnum heilbrigðisþjónustunnar. Ég vil ítreka og benda á að við höfum staðist samanburð á flestum ef ekki öllum sviðum í heilbrigðismálum. Við höfum gert mjög góða hluti og aðhald og metnaður hefur verið okkar aðalsmerki, með samanburði að vissum hluta og samvinnu milli sjúkrahúsa. Þetta hefur hvatt fólk áfram gegnum tíðina og þess vegna hika ég þegar á að skella allri heilbrigðisþjónustu saman í eina heild.