Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 22:01:37 (1949)

1997-12-09 22:01:37# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[22:01]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan minnast á þessa ágætu ráðherraskipuðu nefnd um m.a. héraðsstjórnir og gera hvert orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að mínum í þeim efnum og þarf ekki að ræða það frekar. Ég frábið mér að ég hafi ekki haft áhuga á því að starfa að þeim málum.

Ég vil ekki gera lítið úr störfum eða þekkingu hins ágæta fyrirtækis VSÓ sem er alíslenskt eins og hæstv. heilbrrh. komst að orði. Hins vegar vil ég benda á það að út frá samtölum við þá starfsmenn VSÓ sem kynntu mér skýrsluna varð mér kunnugt um að þeir höfðu ekki unnið að heilbrigðismálum áður en þeir tóku verkefnið að sér. Því voru fengnir erlendir ráðgjafar. Ég tel hins vegar að það þurfi íslenskan aðila sem vinnur svona starf til að skýra séríslenskar aðstæður.

Ég vil líka benda á aðgerðir gagnvart sjúkrahúsunum í Reykjavík undanfarin ár sem leiða til þeirra breytinga sem ég ræddi um áður í tengslum við aðgerðir gegn Landakoti á sínum tíma. Ég vil ítreka að í raun og veru var það ekki fyrr en allt var komið um kring og torfan kyssti brotthvörfin, horfna þjónustu, að sameining Landakotsspítala varð pro forma að lögum.