Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 22:47:44 (1959)

1997-12-09 22:47:44# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[22:47]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson spurði áðan hvort heilbrigðsiþjónustan væri orðin hornreka á Íslandi. Það má kalla hlutina ýmsum nöfnum en ég er ekki sammála því að við getum tekið svo djúpt í árinni. Hins vegar verðum við að minnast þess, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að heilbrigðismálin hafa ekki verið til heildarumfjöllunar sem slík að því marki sem ég tel að þau hefðu átt að vera á undanförnum árum.

Við verðum líka að minnast þess, eins og ég sagði áðan, að þetta er ekki vandamál þessarar ríkisstjórnar eða ríkisstjórnarinnar þar á undan heldur vandamál margra ríkisstjórna fyrri ára ef við horfum aftur til sl. áratugar eða jafnvel áratuga.

Við skulum líka minnast þess að þau lög sem við í raun byggjum á í heilbrigðisþjónustunni í dag voru byggð á hugmyndum sem voru mest í umræðunni fyrir um 30 árum, 1967, 1968 og 1969. Þau lög og þær hugmyndir tóku gildi 1974. Umræður byrjuðu á Alþingi að mig minnir 1973. Við erum að kalla á stefnu í heilbrigðisþjónustunni miðað við það sem blasir við okkur í dag, það sem sjúklingar og faglegar framfarir kalla á í dag, hvað það er sem við viljum gera í heilbrigðisþjónustu og hvað það er sem við viljum ekki gera.

Ég furða mig líka á þeirri umræðu sem fram hefur farið í kvöld þar sem ítrekað hefur verið varpað fram af hæstv. heilbrrh. þeirri spurningu hvort hv. þm. Össur Skarphéðinsson og ég séum sammála sameiningu á yfirstjórn í heilsugæsluþjónustu á Vestfjörðum og í Reykjavík. Ég get eiginlega ekki skilið hvað hæstv. heilbrrh. er að fara með því að bera saman epli og appelsínu nánast hvað snertir mannfjölda og þjónustumöguleika á þessum mismunandi svæðum sem annars vegar er fámennt og mjög fjöllótt og dreifbýlt og (Forseti hringir.) hins vegar mjög þéttbýlt svæði með margfalt fleiri íbúafjölda heldur en nokkurn tíma sá fjöldi sem er á Vestfjörðum svo ég frábið mér málflutning eins og þennan.