Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 23:20:31 (1962)

1997-12-09 23:20:31# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:20]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þá er uppsafnaður vandi þess á síðasta ári og á þessu ári 84 millj. kr. Fjórðungssjúkrahúsið hefur lagt fyrir fjárln. greinargóða skýrslu um mat sitt á því hvernig á þessu standi og ég tel að það sé góður grunnur til þess að gera samning við sjúkrahúsið þó þeir geti ekki sagt um endanlega tölu á þessu stigi. Hallinn er til kominn, eins og ég sagði, á síðasta ári og þessu en þetta sjúkrahús hefur verið vel rekið og innan fjárheimilda. Ég hygg að einhver skýring geti verið í því að það er rétt að veittar hafi verið heimildir fyrir nýjum stöðum lækna og aukið umfang í aðgerðum og það hafi verið vanmetið. Hins vegar er þetta mál sett í þann farveg sem ákveðinn var um sjúkrahúsin öll. Ég tel að það liggi fyrir góður grunnur til þess að taka þetta skjótt fyrir. Ég vil taka það fram að forráðamenn Sjúkrahússins á Akureyri hafa lagt á það mikla áherslu að vera innan fjárheimilda þannig að ég tel að það eigi að ganga í það að gera samning um umfang starfseminnar og meta hve miklar fjárhæðir þarf í ár og hvað starfsemin þarf til sín á næstu árum.

Ég vildi láta þetta koma fram í andsvari og skýri á eftir önnur atriði þegar ég tek til máls í lokin.