Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 23:27:16 (1965)

1997-12-09 23:27:16# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:27]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins, vegna þess hluta ræðu hv. þm. þar sem hann fjallaði um kostnað við sendiráð, koma inn á nokkur atriði.

Hv. fjárln. fór að sjálfsögðu rækilega yfir öll þau erindi sem fyrir nefndina voru lögð varðandi kostnað vegna sendiráða. Ég lít nú svo til að það hafi gerst sem virðist hafa orðið í mjög mörgum tilvikum hjá okkur Íslendingum að viðhald bygginga hefur setið á hakanum og það er ekkert einsdæmi að það gerist hvað varðar byggingar sem eru sendiráðsbyggingar. Það hefur komið í ljós. Sérstaklega á það nú við um sendiráðið í Washington sem kostar mjög mikið að gera við. En síðan hittist þannig á að það hellast yfir viðfangsefni úr mjög mörgum áttum frá mörgum sendiráðum á sama tíma þannig að allt verður þetta nú æðistórkarlalegt vissulega og get ég tekið undir það. Hins vegar er á það að líta að þarna er um miklar eignir að ræða því að verðgildi þeirra helst að því er virðist allbærilega þar sem er um húseignir að ræða í þessum stórborgum. Því þarf að halda til haga. Hins vegar, varðandi sendiráðið í London, er þarna um mjög langan leigusamning að ræða og það var mat þeirra sem um þetta fjölluðu að vegna þess hversu mikið þyrfti að gera við sendiráðsbygginguna í London til þess að skila henni af sér og uppfylla þannig leigusamninga, að hagstæðast væri að endurnýja leigusamninginn og nýta þær viðgerðir sem þyrfti að vinna á húsinu.