Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 23:32:02 (1967)

1997-12-09 23:32:02# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:32]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka traust hæstv. forseta og vona að ég standi undir hans væntingum. Hér hafa hins vegar talað tveir höfuðsnillingar stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon og þá stendur maður náttúrlega með hattinn í hendinni og undrast mælsku þeirra og þekkingu. Eigi að síður tel ég ástæðu til að fara nokkrum orðum um fjáraukalagafrv. og þá einkum um heilbrigðismálin eins og svo margir hafa gert hér á þessu kvöldi.

Hv. síðasti ræðumaður talaði reyndar um að Akureyringar hefðu þurft að ganga milli Pontíusar og Pílatusar. Líklega var hann að gera grín að mismæli einhvern tíma fyrr á öldinni, en þeir hefðu betur gert þetta fyrr, Akureyringar, t.d. áður en Pontíus Pílatus krossfesti Krist en það er nú annað mál. Þetta var að sjálfsögðu einn og sami maðurinn og ég held að fleira þessu skylt hafi verið í máli hv. þm. en hann vildi vera láta, að upplausnin væri ekki svo mikil í heilbrigðismálunum og hann vildi meina.

Satt að segja er stefna í heilbrigðismálum fyrir hendi og hún er nokkuð skýr. Hún er sú að lækna sjúka og halda uppi öflugri heilsugæslu í landinu. Markmiðin hafa oft verið skýrð, síðast í prýðilegri skýrslu svonefndrar nefndar um forgangsröðun. Það er afar merkilegt plagg sem ég hvet menn til þess að kynna sér. Stefnan er skýr en útfærslan er kannski ekki klár í öllum atriðum, áherslur, umfang starfseminnar í hverri einingu, verkaskipting milli stofnana og fleira og fleira. Auðvitað eru þetta atriði sem taka breytingum svo sem eðlilegt er en stefnan sjálf og markmiðin hljóta að vera skýr og við skulum ekki gleyma þeim.

Heilbrigðismálin eru afar mikilvægt svið í þjónustu hins opinbera, eins og hv. þm. Svavar Gestsson sagði, og einn af undirstöðuþáttunum í þjónustu ríkisins og í þjóðfélagskerfinu.

Margir hafa minnst á að verja þurfi meira fé til heilbrigðismála á fjáraukalögum. Það er rétt. Það er gert og það er boðað áfram. Vissulega má alltaf deila um upphæðina og hversu stór skref sé hægt að taka. Ég hef sjálfur áhyggjur af því, herra forseti, að vanta muni meira fé en til er lagt á fjáraukalögum núna og boðað er að verði á fjárlögum þegar þau verða lögð fram til 2. umr. með brtt. meiri hluta fjárln.

Á hinu vil ég vekja athygli að um er að ræða þáttaskil gagnvart sjúkrastofnunum í landinu, bæði í Reykavík og á landsbyggðinni og sú umbreyting var sannarlega orðin tímabær. Hún er skýr í fjáraukalagafrv. og eins og ég segi, meira er boðað. Niðurskurðartalið hjá fjölmiðlum og manna á meðal undanfarin missiri hefur vissulega haft slæm áhrif. Umræðan hefur líka haft slæm áhrif á heilsufarið í landinu, á einstaklingana og einnig á byggðarlögin vítt og breitt um landið. Niðurskurðarumræðan hefur valdið öryggisleysi sem ég vona að sé hér með lokið.

Það er nefnilega þannig að enda þótt hækkaðar séu fjárveitingar milli ára, nokkuð nú og mun meira í fjárlögum næsta árs, þá er búið að innprenta fólki að stofnanirnar séu sífellt skornar niður, meira og meira. Sannleikurinn er samt sá að framlög hafa hækkað og frekari hækkun er boðuð.

Fram kom í ræðu hv. varaformanns fjárln. að framlög hafa hækkað en ekki lækkað til heilbrigðismála og það vil ég undirstrika hér og árétta. Vissulega er rétt að í öllum ríkisrekstri þarf að spara og nýta fjármuni svo sem framast er kostur. En það hefur hins vegar verið þrengt um of að rekstri landsbyggðarsjúkrahúsanna. Ekkert vinnst við að þvinga sjúkrahúsin á landsbyggðinni til að láta af þjónustu sem þau hafa sinnt og geta með góðu móti sinnt til þess að auka strauminn á stóru hátæknihúsin. Ýmsar aðgerðir eru gerðar á landsbyggðarsjúkrahúsunum án þess að verið sé að taka frá hinum stóru eða ganga inn á þeirra verksvið. Um það hlýtur að geta ríkt sátt milli stofnana í heilbrigðiskerfinu, lítilla og stórra eininga, milli sjúkrahúsa í Reykjavík og sjúkrahúsa á landsbyggðinni, að verkaskipting sé slík að litlu húsin á landsbyggðinni sinni því sem þau með góðu móti geta sinnt en verkefnum sé ekki beint frá þeim og þau jafnvel skilin eftir verkminni. Á meðan sé fólk jafnvel lagt inn á skolin hér á sjúkrahúsunum eins og einn hv. þm. orðaði það fyrr í umræðunni.

Herra forseti. Margt hefur verið vel gert í heilbrigðismálum. Hæstv. heilbrrh. minntist á kjördæmi mitt í umræðunni fyrr í kvöld. Hún nefndi sjúkrahúsið á Hvammstanga, Blönduósi og Sauðárkróki þar sem staðið hafa yfir framkvæmdir eða eru að fara í gang. Ég er ánægður með það að sem betur fer hefur margt lánast vel þó margt og fleira raunar sé ógert. En það sem vel er gert hefur horfið í skuggann af því að víðast hvar vantar svolítið upp á að endar nái saman í rekstri sjúkrahúsanna, jafnvel þó stjórnendur og starfslið allt sé allt af vilja gert til að ná settu marki. Nú vona ég, herra forseti, að betri tímar séu fram undan í þessum efnum, að rekstur heilbrigðisstofnananna í landinu geti náð jafnvægi. Fátt skiptir meira máli nú um stundir. Við skulum heldur ekki gleyma því, herra forseti, að við eigum vel menntaðar heilbrigðisstéttir og það ætti að vera okkur til hróss sem þjóð. Mikilvægt er að búa þessum stéttum viðunandi starfsaðstöðu þannig að þjónusta þeirra við fólkið í landinu skili sem bestum árangri. En að sjálfsögðu þarf fyrst og fremst þjónustan við fólkið, aðbúnaðurinn gagnvart sjúklingunum að vera eins og best verður á kosið.

Herra forseti. Við tökum nú gott skref til bóta á heilbrigðiskerfinu og útlit er fyrir að heilbrigðisþjónustan verði traustari á næstu missirum.