Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 23:44:28 (1972)

1997-12-09 23:44:28# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:44]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hér hefur farið fram ágæt umræða um frv. til fjáraukalaga og ég vil bæta örfáum orðum í hana í tengslum við það sem komið hefur fram.

Hv. 8. þm. Reykv. ræddi nokkuð um forgang í ríkisútgjöldum og nauðsyn þess að gera fjárlög til lengri tíma heldur en eins árs í senn. Ég er honum að mörgu leyti sammála í þessu og sammála um að gera þyrfti áætlanir til lengri tíma, bæði í fjárlögum og eins sæi ég það fyrir mér að t.d. heilbrigðisstofnanirnar í landinu hefðu samninga til lengri tíma um ákveðinn grunn og ákveðnar rekstraráætlanir. Hlutverk þeirra væri skilgreint, þannig að þær vissu að hverju þær gengju og það er nauðsynlegt að vinna að því markmiði. Ég vona það að sá farvegur sem málið er sett í nú liggi inn í þá framtíð.

[23:45]

Ég ætla ekkert að fullyrða um niðurstöðuna og ég kem að því síðar. Það verður einnig rætt um þróunina frá 1988 og þróunina frá 1990 í útgjöldum til heilbrigðismála og annarra mála.

Ef litið er á útgjöld til hinna ýmsu málaflokka á þessu tímabili þá kemur í ljós að það eru einkum tveir málaflokkar sem útgjöld hafa lækkað verulega til á þessu sex ára tímabili. Það eru landbúnaðarmál og það eru útgjöld til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Útgjöld til heilbrigðiskerfisins, ef maður tekur það sérstaklega, hafa ekki hækkað verulega. Þó hafa þau heldur farið upp á við og það er viðurkennt að síðan 1996 hafa þau heldur farið upp á við. Hins vegar er annar þáttur sem heyrir undir heilbr.- og trn., tryggingakerfið. Þar hafa útgjöld hækkað verulega á þessu tímabili.

Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki að segja með því að bótaþegar séu ofhaldnir af sínum bótum, það er langt í frá. Hins vegar hefur þeim fjölgað og þess vegna hefur þessi málaflokkur þanist verulega út. Þannig eru þessar stóru línur í þessu. En hins vegar sæi ég það fyrir mér og það tengist breytingu á þingsköpum, að tekin væri rammaumræða á vorin um fjárlög. Þá væru átök um það án þess að negla sig niður í einhverjar upphæðir í smáatriðum, hvað við eigum að verja miklu, t.d. í hlutfalli við þjóðarframleiðslu eða í hlutfalli við aðrar þjóðir, til hinna ýmsu málaflokka eins og hv. 8. þm. Reykv. minntist á áðan í ágætri ræðu. Ég get tekið undir margt af því sem hann sagði um þessa hluti.

Eins og kom fram í máli meirihlutamanna í fjárln. fyrr í kvöld, og reyndar kom það fram í ræðu hv. 5. þm. Vesturl., þá hafa komið miklar upplýsingar inn til fjárln. um útgjaldaþróun sjúkrahúsa bæði á landsbyggð og í Reykjavík síðustu árin. Og það er alveg rétt og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um það mál sem hefur verið dreift í fjárln. að það hefur hallað á Sjúkrahús Reykjavíkur samanborið við Ríkisspíalana síðustu árin þó að varið sé ívið meira fjármagni til þess en fyrir sex árum þannig að ljóst er að það þarf að skoða þau mál gaumgæfilega.

Þegar tölurnar eru brotnar upp í launakostnað og annan rekstrarkostnað þá koma í ljós athyglisverðar tölur t.d. á landsbyggðinni. Launakostnaður hefur yfirleitt vaxið á þessu tímabili en annar rekstrarkostnaður dregist saman í langflestum tilfellum. Þetta segir að menn hafa verið að reyna að spara. Í öðrum rekstrarkostnaði er reynt að halda fólkinu og sama munstrið er í sjúkrahúsunum í Reykjavík. Það eru og liggja fyrir mjög mikið af upplýsingum um heilbrigðiskerfið. Ég held að það sé góður grunnur til að byggja á. En ég get tekið undir að nauðsynlegt er að eyða óvissu í þessum efnum. Ég skal engu spá um hvað þessar 300 millj. sem lagt er til að verði á fjárlögum næsta árs duga til þess að ganga frá samningum við öll sjúkrahúsin í landinu. Niðurstaða af því verður að koma í ljós þegar þeirri nefnd sem fer í það mál hefur miðað áfram í störfum sínum.

Eins og ég sagði áðan í andsvari hefur fjárln. lagt áherslu á, og ég held að meiri og minni hluti fjárln. séu sammála um það, að eiga aðkomu að þessu máli. Ekki það að ég sé þeirrar skoðunar að fulltrúi fjárln. eigi að sitja í þessum stýrihópi. Það hefur verið tekin sú stefna að hann eigi að vera faglegur og byggður upp af fagmönnum, en fjárln. þarf að hafa fullan rétt til þess að koma að þessu máli og fá upplýsingar hvenær sem vera skal og fá upplýsingar um niðurstöður þessarar vinnu og tillögur þegar þær liggja fyrir.

Við höfum auðvitað úr takmörkuðu fjármagni að spila og þrátt fyrir hið margumrædda góðæri eiga menn fullt í fangi miðað við þá útgjaldaþörf sem er víða, að halda það markmið að skila hallalausum fjárlögum fyrir árið 1998. Við höfum ekki viljað taka upp ný þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu og viljað forðast að fara þá leið. Ég held að það verði að reyna að nýta þá peninga sem þar eru inni sem best. Ég hef ekki látið þau orð falla að heilbrigðiskerfið í landinu sé ónýtt og vil ekki tala með lítilsvirðingu um það. Ég veit að það er unnið gott starf á þeim vettvangi. Við fjárlagavinnuna hefur fjárln. heimsótt bæði Borgarspítalann og Ríkisspítalana og séð með eigin augum, reyndar í stuttri heimsókn með viðræðum við fólk þar, hvaða verk þar er unnið. Þar er vissulega við mikinn vanda að etja og það þarf að fara yfir þau mál mjög grannt. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem þær staðhæfingar hafa verið sagðar við fjáraukaalaga- og fjárlagaumræðu hér í gegnum tíðina. Satt að segja er þessi bardagi búinn að standa nokkuð lengi og hann stóð ekki eingöngu í tíð núverandi ríkisstjórnar eins og réttilega hefur verið tekið fram hér. Við gerum okkur auðvitað grein fyrir því í fjárln. að ástandið er alvarlegt og það þarf að komast að niðurstöðu um málefni sjúkrahúsanna í Reykjavík, gera þar rekstraráætlanir einnig á grundvelli þeirra samninga sem hafa verið gerðir og reyna að gera rekstraráætlanir sem líkur eru á að standist og leggja til þeirra fé.

Eitt af vandamálunum í sjúkrahúsunum í Reykjavík er að svokallað fráflæði, eins og sagt er á fagmáli, er ekki nógu mikið og kenningar eru um það hjá fagmönnum að sjúklingar liggi á dýrari stöðum í kerfinu en æskilegt væri og að fjölga þurfi hjúkrunarrýmum hér í borginni og sá samningur sem hefur verið gerður er einn þáttur í því. Það hefur verið gert í því verulegt átak en það þarf að gera betur.

Það hefur verið aukið mjög við aðgerðir. Ný tækni hefur verið tekin í notkun o.s.frv. Allt þetta kostar mikla fjármuni og allt þetta verður til þess að það þarf að nýta fjármuni sem allra best, hafa verkaskiptinguna þannig að þeir nýtist sem best. Þess vegna hafa yfirvöld heilbrigðismála leitast við að líta sameiginlega á málefni sjúkrahúsanna í Reykjavík. Ég held að það verði vinna í framhaldi af VSÓ-skýrslunni og það verði að skoða til hlítar hvort skynsamlegt sé að sameina þessi stóru sjúkrahús. Ég held að við getum ekki leyft okkur annað en að skoða til hlítar hvort hægt er að bæta heilbrigðisþjónustuna með því frá því sem nú er. Þessi mál verður að ræða málefnalega enda veit ég að þingmenn eru tilbúnir til þess að gera það. Allir viljum við að heilbrigðisþjónustan sé öflug og viljum setja okkur markmið um það. En fjárhagsramminn setur okkur takmörk því að það er nú einu sinni svo að þó að ég sé eindregið þeirrar skoðunar að heilbrigðisþjónustan sé grundvallarþáttur velferðarkerfisins og opinberrar þjónustu, er svo margt fleira aðkallandi. Fjárþörfin er gríðarleg einnig í öðrum þáttum velferðarkerfisins eins og ég var að segja áðan um tryggingaþáttinn, þó ég taki það enn og aftur fram að það er langt frá því að ég sé að segja að lífið sé dans á rósum fyrir bótaþega. Því fer víðs fjarri. Þeim hefur fjölgað. Þess vegna vex útgjaldaþörfin þar hröðum skrefum.

Ég vonast til að sú skipan í heilbrigðismálum sem stefnan er sett á nú leiði til góðs, hún leiði til þess að verkefni verði skilgreind og samningar verði gerðir við sjúkrahúsin um grunn í þeirra starfsemi og helst til lengri tíma en eins árs þannig að forsvarsmenn þeirra stofnana viti að hverju þeir ganga. Mig dreymir um að komast áleiðis til þeirrar skipunar mála.

Ég vil að lokum þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil þakka samstarfsmönnum mínum í fjárln., minni hluta fjárln. og meiri hlutanum, fyrir ágætt samstarf við vinnu að þessum málum það sem af er. Við eigum mikið starf fram undan en samstarf í nefndinni hefur verið málefnalegt og með ágætum og ber að þakka það.