Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 10:35:20 (1992)

1997-12-12 10:35:20# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[10:35]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 er nú komið til 2. umr. og mæli ég fyrir áliti meiri hluta fjárln. sem fyrir liggur á þskj. 435.

Uppsetning fjárlagafrv. og frágangur er nú með öðrum hætti en áður var og kem ég nánar að því síðar.

Ríkisfjármál gegna miklu hagstjórnarhlutverki. Í meginatriðum felst það í að sporna við þenslu á uppgangstímum og örva efnahagslífið í lægð. Þannig getur stjórnun ríkisfjármála stuðlað að jafnvægi og stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Enginn vafi er á því að slík jafnvægisstefna er besta leiðin til að efla hagvöxt og bæta lífskjör þegar til langs tíma er litið. Um þetta eru menn sammála.

Að undanförnu hefur ríkt góðæri í íslenskum þjóðarbúskap og horfur eru á að svo verði áfram enn um sinn. Hagvöxtur hefur verið örari en í grannlöndunum og lífskjör hafa batnað meira. Þessi hagfellda þróun hefur leitt til þess að þenslumerki hafa komið fram eins og gerist að jafnaði við svona aðstæður. Í ljósi þessa fer ekki á milli mála í hvaða átt er rétt að stefna í ríkisfjármálum þó menn geti greint á um hversu langt eigi að ganga. Aðhald er einfaldlega nauðsynlegt til að tryggja stöðugleikann í þjóðarbúskapnum og þar með hagstæð vaxtarskilyrði fyrir atvinnu og kaupmátt.

En fleira leggst til á sömu sveif. Miðað við þjóðhagshorfur eins og þær eru nú metnar er brýnt að efla þjóðhagslegan sparnað og draga úr skuldum þjóðarinnar við útlönd. Eina örugga leið stjórnvalda í þessum efnum er að bæta afkomu hins opinbera. Þannig má auka þjóðhagslegan sparnað og jafnframt eyða hallanum á viðskiptajöfnuði. Ég tel æskilegt að stefna að því að þjóðhagslegur sparnaður aukist í áföngum úr 16,5% af landsframleiðslu eins og hann er í nú í um 20%. Í því fælist að jafnaði afgangur af viðskiptajöfnuði og minnkun erlendra skulda. Slík langtímastefna er einnig knýjandi vegna þess að efnahags- og atvinnulíf hvarvetna í heiminum er stöðugt að taka á sig alþjóðlegri blæ. Alþjóðavæðing og gjaldmiðlasamruninn í Evrópu munu sem dæmi gera aukna kröfu til hagstjórnar hér á landi á næstu árum. Þetta mun einkum beinast að stjórn ríkisfjármála því svigrúmið til sjálfstæðrar peningastefnu er smám saman að minnka.

Í þessu sambandi má minna á að frændur okkar Norðmenn leggja mikla áherslu á að efla hagstjórnarhlutverk ríkisfjármálanna og búa þannig í haginn fyrir myntsamrunann og framhald alþjóðavæðingar á næstu árum. Svipaða braut þurfa Íslendingar að feta. Því afar brýnt að treysta stöðu ríkisfjármála í góðærinu og mynda svigrúm svo hægt sé að takast á við þá erfiðleika sem fylgja lakari þjóðhagslegum skilyrðum en nú eru. Augljóst er hversu mikilvægt er að afgreiða fjárlög fyrir 1998 með afgangi og stefna að vaxandi afgangi á næstu árum þar á eftir, a.m.k. ef spár um áframhaldandi góðæri ganga eftir. Þessi stefna ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna er skýrð í fjárlagafrv. og þjóðhagsáætlun. Þar er jafnframt tekið fram að leita þurfi leiða til að ná jafnvel betri árangri í opinberum fjármálum á næstu árum en þar eru lögð drög að. Stjórnarflokkarnir eru staðráðnir í að vinna að þessu markmiði og tefla ekki hagvexti og batnandi lífskjörum í tvísýnu.

Eitt af brýnustu verkefnum stjórnvalda um þessar mundir er að ráðast gegn viðskiptahallanum. Með þeim hætti verða erlendar skuldir þjóðarbúsins lækkaðar og grundvöllur skapaður fyrir batnandi efnahag. Það leikur ekki nokkur vafi á því að þeir peningar sem varið er í vaxtagreiðslur til erlendra fjármálastofnana væri betur komnir í uppbyggingu atvinnulífsins hér heima fyrir.

Tekjuafgangur ríkissjóðs er þáttur í því að minnka þjóðarútgjöldin og minnka viðskiptahallann. Með því er atvinnulífinu veitt meira svigrúm og útflutningstekjurnar auknar. Á því verður velferðarkerfið að byggjast.

Frv. það til fjárlaga sem hér liggur fyrir er hið fyrsta sem byggt er á nýjum lögum um fjárreiður ríkisins. Með þeim lögum varð til heildstæð löggjöf sem nær til flestra þátta er snerta fjármál ríkissjóðs, þ.e. gerðar á framkvæmd fjárlaga, ríkisreiknings og lánsfjáröflun ríkissjóðs. Fjárreiðulögin komu í stað eldri löggjafar sem orðin var úrelt vegna aukinna og breyttra krafna varðandi upplýsingagjöf um ríkisfjármálin. Á sama tíma og reikningsskil fyrirtækja tóku margháttuðum breytingum voru ákvæðin um reikningsskil ríkisins óbreytt í grundvallaratriðum.

Í seinni tíð hefur það sjónarmið átt vaxandi fylgi að fagna að samræma beri opinber reikningsskil þeim almennu viðurkenndu reikningsskilareglum sem gilda um rekstur atvinnufyrirtækja. Hins vegar hefur verið litið svo á að ólíkt hlutverk og markmið þessara aðila útiloki fullt samræmi. Segja má að tilgangurinn með breytingum á framsetningu fjárlaga og ríkisreiknings hafi verið sá að gefa gleggri mynd af umsvifum ríkissjóðs og innleiða sömu reikningsskilareglur og almennt gilda um uppgjör fyrirtækja. Sem dæmi má nefna að framsetning fjárlaga á rekstrargrunni leiðir til þess að þegar er tekið fullt tillit til kostnaðar vegna ýmissa fjárskuldbindinga en svo var ekki samkvæmt eldri framsetningu. Með því móti tekst mun betur að sýna samhengið á milli ákvarðana um ríkisfjármál og þess kostnaðar sem þeim er samfara. Einnig fæst með þessu raunhæfari samanburður á milli fjárlaga og ríkisreiknings.

Í nýjum reikningsskilareglum ríkissjóðs felast breytingar á uppgjörsaðferðum, á flokkun tekna og gjalda og á skilgreiningu ríkisaðila. Fjárlögin eru nú sett fram á rekstrargrunni á sama hátt og ríkisreikningur í stað þess að sýna einungis greiðsluhreyfingar. Horfið er frá því að leggja fram sérstök lánsfjárlög en þess í stað eru lántökuábyrgðarheimildir ríkissjóðs felldar inn í fjárlögin. Slíkt er mjög eðlilegt í ljósi þess að lánsfjáröflun ríkissjóðs verður ekki með góðu móti skilin frá öðrum þáttum ríkisbúskaparins. Samkvæmt eldri lögum var stofnunum ríkisins skipt í A og B-hluta en nú bætist við C-hluti sem tekur til fjárreiðna sjóða í ríkiseign.

Ýmsar endurbætur hafa verið gerðar á tekjuhugtakinu, sérstaklega í því skyni að tryggja að allar skatttekjur séu tilgreindar sem slíkar og taldar fram til tekna hjá A-hluta ríkissjóðs. Ýmiss konar bótagreiðslur eru ekki lengur dregnar frá tekjum heldur færðar á gjaldahlið fjárlaga. Þess má geta að ný hugtök hafa verið innleidd til að mæla afkomu ríkissjóðs, tekjujöfnuður sem er mismunur tekna og gjalda og breyting á handbæru fé frá rekstri. Efnahagsreikningur ríkissjóðs breytist við að eignarhluti ríkissjóðs í ríkisfyrirtækjum er nú ávallt færður þar til eignar á raunvirði. Fram að þessu hefur nokkuð skort á samræmi við eignafærslu á stofnframlögum. Eignarhlutar hafa í mörgum tilfellum verið stórlega vanmetnir.

Eins og sjá má á fjárlagafrv. hafa ýmsar breytingar átt sér stað á efnisskipun þess. Frv. skiptist nú í sjö tölusettar greinar auk sundurliðana og séryfirlita. Í 1. gr. er rekstraryfirlit A-hluta ríkissjóðs, í 2. gr. sjóðstreymi A-hluta, í 3. gr. yfirlit um fjárreiður ríkisfyrirtækja í B-hluta. Í 4. gr. er yfirlit um rekstur, fjárfestingar og lánahreyfingar lánastofnana í C-hluta. Í 5. gr. er að finna ákvæði um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir sem áður voru í lánsfjárlögum. Í 6. gr. eru skerðingarákvæði sem varða ákvæði annarra laga og loks geymir 7. gr. ýmis heimildarákvæði til handa fjmrh.

Frv. fylgja ýmsar sundurliðanir og séryfirlit. Það er m.a. gerð sundurliðuð grein fyrir fjárveitingum A-hluta ríkissjóðs til einstakra aðila. Þess má geta að sundurliðun eftir gjaldategundum er ekki lengur sýnd heldur er skiptingin nú alfarið eftir viðfangsefnum. Í öðrum sundurliðunum er að finna rekstraráætlun og sjóðstreymi fyrir ríkisfyrirtæki í B-hluta fjárlaga og lánastofnanir í C-hluta.

Í séryfirlitum er útgjöldum A-hluta ríkissjóðs skipt með ýmsum hætti, sérstaklega eftir málaflokkum og hagrænu eðli þeirra.

Breytingar þær sem hér hafa verið reifaðar eru mjög umfangsmiklar og ber að hafa í huga að ýmsar fjárhæðir í frv. eru þar af leiðandi ekki samanburðarhæfar við tölur fyrri ára.

[10:45]

Oft hefur viljað brenna við að umræðan um fjárlög og ríkisfjármálin í heild hafi ekki verið eins markviss og vönduð og æskilegt væri. Árangursrík skoðanaskipti um þessi mál hljóta hins vegar ævinlega að byggja á því að til staðar séu nákvæmar upplýsingar um stöðu ríkissjóðs og horfur í rekstri hans. Þess er að vænta að með nýrri framsetningu fjárlaga þokist þau mál til betri vegar og alþingismenn, fjölmiðlar og allur almenningur eigi auðveldara með að glöggva sig á hvert stefnir í ríkisbúskapnum.

Fyrir 2. umr. fjárlaga hefur fjárln. einbeitt sér að því að fara yfir þau erindi sem henni hafa borist með viðtölum og skriflegum erindum ríkisstofnana, sveitarfélaga, og annarra samtaka í þjóðfélaginu. Tekin var afstaða til þorra þeirra erinda er nefndinni bárust og snerta útgjaldahliðina. Nokkur þeirra bíða þó 3. umr. auk umfjöllunar um B- og C-hluta fjárlaga, 5. gr. sem fjallar um lántöku, 6. gr. um skerðingarákvæði og markaða tekjustofna og 7. gr. sem áður var 6. gr. og geymir heimildarákvæðin.

Sú nýjung var nú tekin upp á svokölluðum safnliðum að úthlutun fjármagns til ýmiss konar félagasamtaka og ákveðinna verkefna var falin fagnefndum auk hefðbundinna umsagna fagnefnda um þætti sem tilheyrðu málefnasviði þeirra í frv. Þessi nýbreytni gafst í heildina vel og ég þakka nefndarmönnum í fagnefndum fyrir þá vinnu sem í þessa skiptingu var lögð, einkum formönnum þeirra sem stýrðu þeirri vinnu.

Hér er ekki um miklar fjárhæðir að ræða miðað við heildina en margir umsækjendur eru um hituna. Heyrst hefur sú skoðun að Alþingi ætti að framselja þessa úthlutun til ráðherra viðkomandi málaflokka. Ég tel hins vegar ekkert að því að þingmenn hafi þessi tengsl við hin ýmsu samtök á sviði menntunar, menningar, líknar- og heilbrigðismála, sem sækja m.a. um fé undir þessum málaflokki. Ljóst er þegar svo árar sem nú að það eru miklar væntingar í þjóðfélaginu um aukin ríkisútgjöld og að þær stofnanir og einstaklingar sem fá framlög úr ríkissjóði fái sinn hlut í góðærinu eins og það er orðað. Samneyslan er mælikvarði um það hvort velferðarkerfið er að veikjast eða styrkjast. Samneysluútgjöld ríkis og sveitarfélaga mun aukast um 2,2% á yfirstandandi ári en um 3% næsta ár. Launaútgjöld eru stærsti þátturinn í þessu en einnig vaxa útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála og menntamála hlutfallslega meira en önnur gjöld hins opinbera. Það er eðlileg þróun að svo sé.

Tekjur ríkissjóðs eru sá rammi sem afmarkar möguleika fjárln. og ríkisstjórnar á hverjum tíma til útgjalda. Stjórnarflokkarnir settu það takmark varðandi fjárlögin 1998 á síðasta vori að þau yrðu hallalaus og sú stefnumörkun hefur verið ítrekuð á síðari stigum. Þetta takmark er brýn nauðsyn vegna þess að ef skuldir verða ekki greiddar niður nú þegar tekjur eru í uppsveiflu, m.a. vegna aukinnar veltu og vaxandi fjárfestingar í þjóðfélaginu, er borin von að það takist þegar öðruvísi stendur á. Reglan er í fullu gildi eins og ég kom að í upphafi að ríkissjóður á að halda að sér höndum á tímum uppsveiflu en koma inn með aukin útgjöld í niðursveiflu. Til að ná þessu er nauðsynlegt að missa ekki sjónar af markmiðinu um að styrkja afkomuna þegar betur árar. Það þýðir að ekki er hægt að verða við öllum óskum sem fjárln. berast jafnvel þó þær séu vel rökstuddar og um hin þörfustu málefni.

Af og til kemur upp sú umræða hvort ekki sé svigrúm til að auka tekjur til að mæta útgjaldaþörfinni. Því er til að svara að skattalækkanir voru hluti af því ferli sem leiddi til víðtækari kjarasamninga til lengri tíma en áður og skemmst er að minnast þess að hugleiðingar um hvernig við ætti að bregðast þegar sveitarfélögin voru ekki tilbúin til að taka þátt í skattalækkunum leiddu til mjög harðra viðbragða launþegasamtakanna. Það er því tómt mál að tala um almennar skattahækkanir á almenning í landinu eða hækkun óbeinna skatta sem mundu setja markmið kjarasamninga úr skorðum.

Það er einnig ljóst að skattalegt umhverfi fyrirtækja hefur orðið til þess að efla hagvöxt og auka sóknarhug í atvinnulífinu og það er brýn nauðsyn. Skattahækkanir á fyrirtæki eru því heldur ekki upplagður kostur. Þessar staðreyndir hefur fjárln. horfst í augu við í starfi sínu og tekið mið af þeim ramma sem settur hefur verið. Tekjuhliðin mun verða til nánari umræðu við 3. umr. fjárlaganna þegar endanlegur uppreikningur hefur átt sér stað en samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin hefur þegar aflað sér, eða meiri hluti hennar, er varlegt að gera ráð fyrir stórkostlegum tekjuauka fram yfir áætlanir.

Við þessar aðstæður er ekki mikið svigrúm til breytinga á útgjöldum enda voru þau útgjöld sem ákveðin voru af fjárln. um 350 millj. kr. auk 300 millj. kr. til heilbrigðismála og annarra útgjaldatilefna sem ákveðin voru í samráði við ríkisstjórn, samtals liðlega 1,5 milljarðar kr.

Í þessari þröngu stöðu markaði meiri hluti fjárln. þá stefnu að líta einkum til þriggja málaflokka auk heilbrigðismálanna. Í fyrsta lagi að efla rannsóknanám í háskólum og veita fjármagn í ritakaupasjóð Háskóla Íslands og koma til móts við beiðnir um aukna tæknivæðingu ýmissa skólastofnana. Í öðru lagi að hækka framlög til jöfnunar á námskostnaði og í þriðja lagi að hækka framlög til jöfnunar húshitunar en það var nýverið gert í fjáraukalögum við 2. umr.

Í fjáraukalögum fyrir árið 1997 og fjárlögum fyrir árið 1998 var ákveðið að veita viðbótarfjármagn til heilbrigðismála, þ.e. sjúkrahúsanna í landinu, sem nemur um 900 millj. kr. Af því er 500 millj. kr. óskipt, 200 millj. kr. á árinu 1997 og 300 millj. á árinu 1998. Ætlunin er að skipta upp þessu fé milli sjúkrahúsanna með því að stýrinefnd fagaðila vinni að því máli eins og ég gerði grein fyrir í ræðu minni við 2. umr. fjáraukalaga.

Skipun nefndarinnar er þáttur í því að setja það verkefni í forgang á næsta ári að fara yfir rekstur sjúkrahúsanna og rekstraráætlanir og semja um umfang rekstrarins og gera tillögur um fjárframlög til hans. Aðild fulltrúa sjúkrahúsanna að nefndinni á að tryggja að sjónarmið þeirra komi fram í vinnu hennar auk þess sem heilbrrn. og fjmrn. munu eiga fulltrúa sína í henni. Rétt er að undirstrika að þessi vinna er á vegum heilbrrn. svo sem lög mæla fyrir um. Staðhæfingar um að verið sé að draga úr valdi ráðherra og ráðuneytis eiga sér ekki stoð. Samningagerð við sjúkrahúsin er mikil nauðsyn bæði fyrir ríkissjóð og sjúkrahúsin sjálf. Nauðsyn ber til þess að fyrir liggi hvaða þjónustu á að veita og það sé viðurkennt og mat sé lagt á kostnað við hana og fjármagn veitt til að standa undir henni. Engin áform eru um það af hálfu stjórnvalda að brjóta niður heilbrigðiskerfið. Þjónusta þess þarf að vera trygg í því velferðarþjóðfélagi sem við viljum hafa hérlendis. Hins vegar verður ekki komist hjá aðhaldi í þessum stóra málaflokki til þess að geta mætt auknum kostnaði og bættum kjörum heilbrigðisstarfsfólks, nýjungum í heilbrigðisþjónustu og lyfjum, viðhaldi stofnana og kaupum á hátæknibúnaði. Framlög til heilbrigðismála munu vart lækka á næstu árum og allt bendir til að þau fari vaxandi. Ef ekkert væri aðgert og aldrei litið á skipulag eða verkaskiptingu og allar beiðnir afgreiddar til fulls án skoðunar mundi fjárþörfin verða enn meiri. Þá fjármuni sem eru í þessum stóra málaflokki þarf að nýta sem best til að tryggja sem besta þjónustu til frambúðar.

Mjög miklar upplýsingar liggja fyrir um heilbrigðiskerfið, m.a. fyrir fjárln. að byggja á. Fjárln. hefur eftir föngum viðað að sér upplýsingum um sjúkrahúsin. Samkvæmt tölum frá Ríkisendurskoðun kemur í ljós að frá árinu 1990 hefur launakostnaður vaxið í heilbrigðiskerfinu en dregið úr öðrum kostnaði. Þetta á t.d. við um landsbyggðarsjúkrahúsin en sömu þróun má einnig greina í stóru sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu.

Rekstur ýmissa félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem veita landsmönnum margvíslega þjónustu, sérstaklega á sviði heilbrigðismála, er kostaður af ríkissjóði. Ekki hafa gilt neinar ákveðnar reglur um starfsemi þessara aðila og greiðslur til þeirra úr ríkissjóði. Reyndar hefur staða þeirra gangvart ríkinu verið með ýmsu móti. Sumar hafa fengið fastar fjárveitingar samkvæmt fjárlögum á meðan aðrar hafa fengið greidd daggjöld frá Tryggingastofnun ríkisins eða aðra rekstrarstyrki. Til þess að koma samskiptum ríkisins við þessa aðila í fastari skorður var fyrir um tveimur árum hafist handa við gerð svokallaðra þjónustusamninga. Í slíkum samningum er kveðið á um að viðkomandi aðili sinni ákveðnum verkefnum eða þjónustu og fái til þess tiltekna fjárveitingu úr ríkissjóði. Enda þótt slíkir samningar hafi ef til vill aðallega þýðingu gagnvart sjálfseignarstofnunum og öðrum sjálfstæðum aðilum er fátt því til fyrirstöðu að gera einnig þjónustusamninga við ríkisstofnanir. Hugtakið samningsstjórnun hefur reyndar skotið upp kollinum í þessu samhengi. Með þjónustusamningum er leitast við að tengja fjárveitingar betur við verkefni og árangur stofnana. Jafnframt tryggja samningarnir stofnununum meiri vissu hvað varðar fjárveitingar sem þó eru reyndar háðar fyrirvara um samþykki Alþingis. Gera verður þá kröfu um þjónustusamninga að þeir tryggi að sá sem greiðir fyrir þjónustuna geti haft mótandi áhrif á hvernig hún er innt af hendi og um leið að þeir varðveiti eins og frekast má verða sjálfstæði og frumkvæði viðkomandi stofnana um atriði sem lúta að rekstrinum. Það kann í einhverjum tilvikum að reynast torvelt í framkvæmd að samræma þessi sjónarmið og hætt við að sitt sýnist hverjum í því efni.

Mikilvægt er að í þjónustusamningum séu fullnægjandi ákvæði um hvernig taka beri á ágreiningsmálum er upp kunna að koma milli samningsaðila. Réttarstaða málsaðila verður að vera ljós og þá ekki síður þeirra aðila sem njóta þjónustunnar. Í því sambandi er áríðandi að gerðar séu kröfur um að þjónustan uppfylli tilteknar gæðakröfur og allt eftirlit með framkvæmdinni sé eins og best verður á kosið. Það hlýtur jafnframt að vera grundvallaratriði þegar að því kemur að semja um tiltekna þjónustu að skýrt sé kveðið á um umfang hennar í samningum jafnframt þeim fjárveitingum sem renna eiga til stofnunarinnar. Það getur þess vegna ekki talist í samræmi við þá hugsun sem liggur til grundvallar þjónustusamningum að stofnanir leiti til fjárveitingavaldsins um auknar fjárheimildir vegna verkefna sem þegar var búið að veita fjármuni til. Hins vegar má vel hugsa sér að samið sé um breytilegt þjónustumagn og tiltekið einingarverð. Nefna má sem dæmi að ýmsar heilbrigðisstofnanir búa við þær aðstæður að geta ekki með góðu móti takmarkað eftirspurn eftir þjónustu sinni. Hætt er við að samningar sem kveða á um fast þjónustumagn og greiðslur henti slíkum stofnunum illa. Þess í stað væri komið til móts við þarfir þeirra með sveigjanlegum ákvæðum um magn þjónustu.

Ef rétt er að málum staðið við gerð þjónustusamninga eiga þeir að geta leitt til meiri stöðugleika og festu í rekstri stofnana sem fjármagnaðar eru af almannafé jafnframt því að tryggja betri nýtingu á þeim fjármunum sem renna til stofnananna. Síðast en ekki síst ættu slíkir samningar að stuðla að betur skilgreindum markmiðum og þjónustu til hagsbóta fyrir þá sem hennar njóta.

Ég mun hér á eftir gera grein fyrir brtt. þeim sem meiri hluti fjárln. flytur við frv. Áður en ég hefst handa við það vil ég sérstaklega geta um þá byltingu sem nýtt fjárlagakerfi fjmrn., sem er samtengt Alþingi, hefur í störfum nefndarinnar. Það auðveldar alla vinnu nefndarinnar og mun valda byltingu í upplýsingagjöf hennar þegar fram í sækir. Starfsmaður fjmrn., Nökkvi Bragason, hefur forritað þetta kerfi og unnið frábært starf sem ég færi honum bestu þakkir fyrir.

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1998 er sett fram á grundvelli laga um fjárreiður ríkissjóðs sem Alþingi afgreiddi sl. vor eins og áður hefur verið vikið að. Lögin kveða á um verulegar breytingar á framsetningu fjárlaga sem hefur haft áhrif á vinnu fjárlaganefndar. Þannig er frumvarpið sett fram á rekstrargrunni sem kveður m.a. á um fjárhagslegar skuldbindingar ríkissjóðs á fjárlagaárinu en jafnframt er sýnd fjármögnun þeirra skuldbindinga. Þegar gerðar eru breytingartillögur við frumvarpið þarf því bæði að taka afstöðu til umfangs tiltekins verkefnis og fjármögnunar þess. Þá nær frumvarpið yfir fleiri þætti í ríkisfjármálum en áður þar sem lántökuheimildir verða hluti af fjárlögum í stað ákvæða í sérstökum lánsfjárlögum eins og verið hefur til þessa.

Fjármálaráðuneytið hefur í ljósi breyttrar framsetningar fjárlagafrumvarps smíðað nýtt fjárlagakerfi sem heldur utan um alla þætti fjárlagafrumvarps og allar breytingar sem gerðar eru við vinnslu fjárlagafrumvarpsins í ráðuneytum og ríkisstjórn. Fjárlagakerfið er það hönduglega sniðið að það nýtist fjárlaganefnd afar vel við að halda utan um öll erindi sem henni berast og þá afgreiðslu sem þau fá hjá nefndinni. Breytingartillögur, nefndarálit og efnisatriði í ræðuskrif er hægt að vinna jafnóðum. Afraksturinn er að finna á þingskjölum meiri hluta fjárlaganefndar.

[11:00]

Þetta nýja fyrirkomulag hefur auðveldað verulega alla frágangsvinnu meiri hlutans og létt undir með störfin.

Forsætisnefnd gerði tillögur um fjárveitingu á fjárlögum 1998 fyrir Alþingi og stofnanir þess við undirbúning fjárlaga og sendi þær forsrh. í samræmi við ný lög um fjárreiður ríkisins. Samkvæmt fjárlagafrv. eru tillögur um fjárveitingar til Alþingis lægri en forsn. lagði til. Fjárhæðir þessar hafa verið teknar til endurskoðunar og er lagt til að framlag til Alþingis hækki alls um rúmlega 27 millj. kr. og er fjárhæðin að meginhluta ætluð til rekstrar. Einstakar tillögur eru skýrðar nánar í nefndaráliti.

Ráðgert er að á árinu 2000 verði þess minnst að 1000 ár eru liðin frá því Leifur Eiríksson fann Vínland. Í því skyni hefur verið ákveðið að skipa sérstaka landafundanefnd til að undirbúa þetta mál. Henni er ætlað að hefja störf á næsta ári og starfa til ársins 2000. Lagt er til að nefndinni verði veittar 14 millj. kr. til starfsemi sinnar á næsta ári. Nefndinni verður ráðinn framkvæmdastjóri og einn starfsmaður og stefnt er að því að starfrækja sérstaka skrifstofu fyrir nefndina frá byrjun næsta árs.

Lagt er til að framlag til Byggðastofnunar hækki um 12 milljónir og er hækkunin ætluð til stuðnings við atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni, og með skiptingu á fjárlagalið stofnunarinnar er þessu verkefni markaður rammi upp á 65 millj. króna.

Lagt er til að framlög til rannsókna og endurmenntunar kennara í háskólum aukist samtals um 15 millj. kr. og skiptist fjárhæðin jafnt milli Háskólans á Akureyri, Tækniskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Þetta er gert í þeim tilgangi að efla starf skólanna á þessum sviði og bæta gæði kennslunnar. Menntmrn. áformar að gera á næsta ári samninga við skólana um verkefni þeirra, m.a. á sviði rannsókna.

Á vegum Rannsóknarráðs Íslands var farið til Bandaríkjanna í október sl. Í skýrslu um ferðina er fjallað um nauðsyn þess að efla samskipti við Bandaríkin á sviði rannsókna og vísinda og bent á jákvæða reynslu af samskiptum við Evrópu á þessu sviði. Ætlunin er að undirbúa samskiptin m.a. með því að efna til alþjóðlegrar ráðstefnu hér á landi, með þátttakendum frá Bandaríkjunum og Evrópu, til að ræða Norður-Atlantshafið með hliðsjón af loftslagsbreytingum.

Lagt er til að framlag til rannsóknanáms við Háskóla Íslands verði hækkað um 35 millj. kr. enda var áhersla lögð á þennan þátt í viðtölum háskólarekstors og forustu háskólans við fjárln. Sömuleiðis er varið 15 millj. kr. til eflingar ritakaupasjóðs, til þess að hann geti betur sinnt sínu mikilvæga hlutverki

Við Háskóla Íslands hefur verið unnið að þróun reiknilíkans sem að hluta til byggir á erlendri fyrirmynd. Líkanið á að sýna heildarfjárþörf Háskóla Íslands til rekstrar að gefnum ákveðnum forsendum um stærð nemendahópa, samsetningu náms o.s.frv. Þróunarvinnan hefur verið kynnt fyrir fjárln. og hyggst hún kynna sér líkanið nánar þegar það er fullgert.

Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um hækkun rekstrarframlags til Háskólans á Akureyri vegna nýs námsframboðs og gert ráð fyrir 3 millj. kr. til að hefja námið næsta haust. Samkvæmt áætlun skólans er gert ráð fyrir að rekstur þessarar nýju námsbrautar muni kosta um 10 millj. kr. á ársgrundvelli þegar öll þrjú námsárin eru komin í rekstur. Gert er ráð fyrir að endurnýja tæki og búnað fyrir um 2 millj. kr. á ári en í upphafi er talið að kaup á búnaði muni nema um 6 millj. kr.

Í erindi og málflutningi forsvarsmanna háskólans var lögð rík áhersla á nýbyggingu við skólann. Fjárln. telur ekki efni til að koma að því máli á þessu stigi en gerir ráð fyrir að taka málið til frekari umfjöllunar þegar menntmrn., Akureyrarbær og skólinn hafa náð samningum þar um.

Fjárln. leggur til að veita fé til uppbyggingar háskólanáms á Austurlandi. Háskólanefnd Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi óskaði alls eftir rúmlega 16 millj. kr. fjárveitingu en fjárln. leggur til að veita um helming þess fjár til undirbúnings málsins. Rétt er að taka fram að ekki er fyrirhugað að koma á fót háskólastofnun heldur verði hér um að ræða miðstöð háskóla- og endurmenntunar á vegum Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og í tengslum við þá eða aðrar háskólastofnanir.

Liðurinn Framhaldsskólar, stofnkostnaður hækkar um 9 millj. kr. vegna undirbúnings að byggingu heimavistar við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, á Sauðárkróki, undirbúnings að byggingu bóknámsálmu við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum og fjárveiting til Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu. Sundurliðun er sýnd á sérstöku yfirliti.

Liðurinn Jöfnun á námskostnaði hækkar um 50 millj. kr. Hækkunin er einkum ætluð þeim sem sækja nám fjarri heimabyggð og þurfa að leggja í umtalsverðan dvalar- og ferðakostnað. Mörgum heimilum er þetta um megn og hefur það leitt til þess að fjölskyldur hafa þurft flytja sig um set frá heimkynnum sínum. Hækkun dreifbýlisstyrkja er því liður í því að sporna gegn flótta af landsbyggðinni.

Meiri hluti fjárln. leggur til að hækka framlag til Þjóðminjasafns um 10 millj. kr. til þriggja verkefna eins og fram kemur í nefndaráliti. Á Stóruborg undir Eyjafjöllum er fjárveiting ætluð til annast úrvinnslu umfangsmestu fornleifarannsóknar sem farið hefur fram hér á landi en þær fóru fram á árunum 1978--1990. Í Reykholti í Borgarfirði er gert ráð fyrir áframhaldandi fornleifarannsóknum en einnig viðgerð á Snorragöngum. Þess er vænst að rannsóknir á bæjarstæðinu gamla í Reykholti geti skilað okkur nýrri þekkingu á sögu staðarins sem er samofin afdrifaríkum atburðum í örlögum þjóðarinnar. Þá eru stundaðar fornleifarannsóknir að Neðra-Ási vegna kirkjurústa sem eru elstu kirkjuminjar sem fundist hafa á Íslandi og heimildir eru um í fornsögunum. Ekki er gerð tillaga um hvernig fénu skuli skipt á þessi þrjú verkefni heldur gert ráð fyrir að Þjóðminjaráð ráðstafi þeim eftir því hvernig verkunum miðar.

Fjárln. leggur til að veittar verði 7 millj. kr. til fornleifarannsókna og að endurgera bæ Eiríks rauða ásamt aðstöðu fyrir ferðamenn. Að auki er fyrirhugað að gera deiliskipulag á svæðinu í kringum Eiríksstaði og reisa minnisvarða um Leif heppna.

Til Ólympíunefndar Íslands eru veittar 3 millj. kr. vegna þátttöku í vetrarólympíuleikunum í Japan.

Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að heildartekjur Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli mundu nema 363,3 millj. kr. Hins vegar var talið að Flugmálastjórn þyrfti ekki nema 279,7 millj. kr. til reksturs og stofnkostnaðar. Því var áformað að umframtekjurnar, 83,3 millj. kr., rynnu í ríkissjóð. Í grg. með fjárlfrv. var skýrt frá því að unnið væri að því á vegum utanrrn. og fjmrn. að endurskipuleggja fjármál Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Fríhafnarinnar. Á grundvelli þeirrar athugunar er horfið frá því að tekjuafgangur Flugmálastjórnar renni í ríkissjóð og þess í stað lagt til að 28,8 millj. kr. verði varið til að greiða niður skuldir Flugmálastjórnar við lífeyrissjóði en þær skuldir losa hálfan milljarð króna. Því til viðbótar er áformað að verja allt að 54,5 millj. kr. eða 15% af áætluðum tekjum af lendingargjöldum til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í B-hluta, og er sú fjárhæð m.a. ætluð til greiðslu fyrir afnot af flughlöðum, tengivegum og til almenns reksturs stöðvarinnar. Á móti þykir rétt að fella niður sérstakt 15 millj. kr. framlag til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem lagt var til í fjárlagafrv.

Meiri hluti fjárln. leggur til 20 millj. kr. hækkun framlags til embættis ríkislögreglustjóra til að efla efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Embættið fer með rannsókn flókinna efnahagsbrota fyrir landið allt þar sem hagkvæmt er að slíkar sérhæfðar rannsóknir séu á einni hendi. Heildarfjöldi mála hefur meira en tvöfaldast síðustu árin og kærum frá skattrannsóknarstjóra hefur einnig fjölgað verulega. Í skattamálum sem nú eru til meðferðar er talið að vangreiddir skattar nemi um 200 millj. kr. Margvíslegum öðrum málum hefur fjölgað, t.d. tollsvikum og skjalafalsi. Þá hafa komið inn nýir málaflokkar sem snúast um brot á sviði fiskveiða og fiskvinnslu, brot á löggjöf um verðbréfaviðskipti, ýmis afbrot tengd tölvum, mál tengd peningaþvætti o.fl. Framlagið verður nýtt til að ráða fjóra sérhæfða starfsmenn auk þess sem kaupa þarf sérfræðiþjónustu, sækja erlenda fundi vegna alþjóðaskuldbindinga o.fl.

Í fjárlögum þessa árs eru heimildir til að kaupa húsnæði fyrir lögreglustöðvar á Blönduósi, á Hólmavík og í Ólafsvík en þær hafa ekki verið nýttar. Heimildir þessar eru einnig í frv. til fjárlaga. Fjárln. leggur til að stofnaður verði nýr liður á safnlið löggæslustofnana þar sem færðar verði 10 millj. kr. og eru þær ætlaðar til að hefja framkvæmdir við þessar stöðvar eða til greiðslu á hluta kaupverðs ef samningar nást þar um.

Lagt er til að fjölga um eina stöðu löggæslumanns við sýslumannsembættið á Seyðisfirði og verður lögreglumaðurinn staðsettur á Fljótsdalshéraði en dómsmálaráðuneytið hefur upplýst að fjölgun þar sé forgangsmál vegna fjölda fólks á bak við hverja stöðu lögreglu og víðáttu umdæmis lögreglunnar.

Frekari breytingar í skipulagi lögreglumála og áætlanir um fjölda lögreglumanna eru til meðferðar hjá ríkislögreglustjóra og dómsmrn. og tekur fjárln. afstöðu til þeirrar niðurstöðu þegar hún liggur fyrir.

Fjárln. leggur til að veitt verði fé til viðgerða á Dómkirkjunni en söfnuður hennar telur sig vanbúinn til að kosta þessar framkvæmdir. Dómkirkjan er ein af höfuðkirkjum landsins og hefur verið fordæmi fyrir slíkum fjárveitingum, t.d. til Hallgrímskirkju og Hóladómkirkju.

Við gerð frv. til fjárlaga hafði ekki verið unnin endanleg útfærsla á framlagi til byggingar nýrra sambýla fyrir fatlaða og voru þeir fjármunir sem til þess voru ætlaðir því færðir undir 07-700, Ný sambýli. Frá því að frumvarpið var lagt fram hefur tvennt gerst. Annars vegar hefur verið tekin ákvörðun um hvernig hagað verður uppbyggingu sambýla á næsta ári. Áformað er að af ofangreindri fjárhæð verði 24,9 millj. kr. varið til tveggja nýrra sambýla hjá svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi. Þá verði 10,4 millj. kr. varið til nýs sambýlis á Akranesi. Loks verði 3,1 millj. kr. varið til reksturs nýs sambýlis á Sauðárkróki. Hins vegar hefur ríkisstjórnin ákveðið að leggja til við Alþingi að veitt verði 20 millj. kr. framlag til þess að leysa brýnan vanda fjögurra tiltekinna einstaklinga með mikla sérhæfða þjónustuþörf sem ekki fellur að fullu beint undir almenna uppbyggingu í málaflokknum.

Fyrr í vikunni undirrituðu fulltrúar ríkis og sveitarfélaga sameiginlega yfirlýsingu vegna breytingar á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Í samkomulaginu felast þrjú atriði sem hafa bein áhrif á kostnað. Í fyrsta lagi að sveitarfélögin taka alfarið að sér framkvæmd húsaleigubótakerfisins og að það verði fjármagnað af þeim og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Með verkefninu færast 305 millj. kr. frá ríkinu. Í öðru lagi taka sveitarfélögin að sér að greiða allan kostnað vegna fatlaðra barna í leikskólum frá 1. jan. 1998 samtals að fjárhæð 95 millj. kr. Loks tekur ríkið yfir kostnað við vinnumiðlun í landinu samtals að fjárhæð 120 millj. kr. Til sveitarfélaga fara því verkefni sem kosta alls 400 millj. kr. en ríkið tekur yfir verkefni fyrir 120 millj. kr. Því þarf að bæta sveitarfélögunum upp 280 millj. kr. og er lagt til að það verði gert með því að setja þá fjárhæð á þennan nýja lið. Hreinn útgjaldaauki ríkissjóðs verður þó ekki nema 70 millj. kr. eftir að tekið hefur verið tillit til þess að 75 millj. kr., sem veitt hefur verið til fatlaðra forskólabarna hjá menntmrn., og 80 millj. kr., sem átti að veita til verkaskipta, eru felldar niður og að skatttekjur ríkisins aukast um 55 millj. kr. vegna þess að heimilt verður að greiða húsaleigubætur til þeirra sem leigja húsnæði í eigu sveitarfélaga og ríkis. Í samkomulaginu felst einnig að endurskoða ber fyrirkomulag húsnæðismála námsmanna í framhaldsskólum og skal henni vera lokið fyrir 1. júní 1998. Þá er frestað til næsta árs mati á beinum og óbeinum fjárhagslegum áhrifum sem sveitarfélögin verða fyrir vegna skattlagningar fjármagnstekna. Ganga skal frá endanlegu samkomulagi milli aðila og nauðsynlegum lagabreytingum fyrir 1. nóv. 1998. Loks var ákveðið að fram fari viðræður um þátttöku sveitarfélaga í skattalækkunum í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

[11:15]

Undir liðnum Félagsmál og ýmis starfsemi er um ýmsar millifærslur að ræða á milli viðfangsefna, samanber tillögur frá félagsmálanefnd Alþingis. Liðurinn Sjómannaheimili er lækkaður um 600 þús. kr. og liðurinn Ýmis framlög er lækkaður um 9,5 millj. kr. sem er millifært á liðinn Félagasamtök, styrkir, alls 10,1 millj. kr.

Í byrjun vikunnar var lagt fram lagafrv. ríkisstjórnarinnar sem felur í sér þá breytingu að feður öðlist sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í tvær vikur og fái hlutfallslega sömu greiðslur og mæður í fæðingarorlofi. Rétturinn gildir fyrstu átta vikurnar eftir fæðingu eða heimkomu barns. Talið er að árlegur kostnaður lífeyristrygginga samfara þessu geti orðið allt að 100 millj. kr. ef allir sem rétt eiga nýta sér orlofið. Fyrstu árin má þó búast við eitthvað lægri fjárhæð. Gert er ráð fyrir að kostnaðinum verði mætt með hækkun á tryggingagjaldi.

Eins og ég nefndi í framsöguræðu minni við 2. umr. fjáraukalaga 1997 hafa fjárhagsvandræði sjúkrahúsa verið mikil að undanförnu. Ástæður vandans eru af ýmsum toga; ónákvæmar rekstraráætlanir, mismunandi traust stjórnun, starfsemi umfram fjárveitingar og uppsafnaðir fjárhagserfiðleikar. Fram hefur komið sú afstaða ríkisstjórnarinnar að þessi málaflokkur njóti forgangs og sérstakrar umfjöllunar árið 1998. Í því skyni er lagt til að 600 millj. kr. viðbótarfé komi til þessarar starfsemi í fjáraukalögum 1997 og 300 millj. kr. til viðbótar í fjárlögum 1998 og er hér gerð tillaga um þá viðbót. Hér er um verulegt fé að ræða sem ætti að auðvelda stjórnendum sjúkrahúsanna að ná böndum á reksturinn.

Einnig kom fram hjá mér í áðurnefndri framsögu að heilbrrn. hefur lagt til við ríkisstjórn að stýrinefnd með víðtækt umboð fjalli um málefni sjúkrahúsanna allra. Verkefni nefndarinnar er að skilgreina starfssvið heilbrigðis- og sjúkrastofnana, semja um þá þjónustu sem skal veita og fjárframlög til hennar, treysta stjórnun þeirra og bæta eftirlit og aðhald. Fjárln. hafa verið kynntar þessar hugmyndir og byggir meiri hluti nefndarinnar fjárlagatillögur sínar á þeim. Heilbrrn. mun kynna fjárlaganefnd stöðu mála á hverjum tíma og tillögur og niðurstöður nefndarinnar þegar þær liggja fyrir.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til 12 millj. kr. hækkun til óskipts liðar daggjaldastofnana. Mörg hjúkrunarheimili sem fá greiðslur samkvæmt daggjöldum eiga við rekstrarerfiðleika að etja. Það er vilji meiri hluta fjárln. að þetta fé verði nýtt til að ná þjónustusamningum við þessar stofnanir sem m.a. tryggi rekstrargrundvöll þeirra.

Forsvarsmenn Krýsuvíkursamtakanna komu á fund fjárln. og óskuðu eftir auknum fjárstuðningi við samtökin. Framlag til þeirra var áður sérgreint á fjárlögum en í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár hefur liðurinn breytt um heiti og er nú ekki sérmerktur samtökunum. Fjárln. gerir það að tillögu að liðurinn breyti aftur um heiti og fjárveitingin verði þar með sérmerkt Krýsuvíkurskólanum. Með þessu verður framlag til samtakanna það sama og í ár. Fjárln. hyggst skoða málefni samtakanna þegar fjárhagsleg endurskipulagning þeirra hefur farið fram. Við 2. umr. fjáraukalaga var samþykkt fjárveiting sem heimilar heilbrrn. til að greiða allt að 2 millj. kr. fyrir slíka endurskipulagningu.

Gert er ráð fyrir að heimild til liðarins Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum, atvinnuþróun og nýsköpun hækki um 80 millj. kr. sem ráðstafað verði til verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu á svæðum sem njóta ekki góðs af uppbyggingu stóriðju. Auglýst verði eftir umsóknum. Jafnframt verði skipaður starfshópur er vinni tillögur til ráðherra. Leitað verði umsagnar frá Atvinnuráðgjöf í landshlutum, Fjárfestingarskrifstofu Íslands og Átaki til atvinnusköpunar. Úthlutað skal til verkefna sem best eru til fallin að stuðla að atvinnuuppbyggingu og nýsköpun. Megináhersla er lögð á að veita styrki í samstarfi við stofnanir, sveitarstjórnir, fyrirtæki og frumkvöðla til verkefna sem eru talin líkleg til þess að skapa atvinnu og virðisauka á landsbyggðinni. Verkefnin geta tengst erlendri fjárfestingu þar sem leitast er í samvinnu við heimamenn að skapa fjárfestingarverkefni í vel afmörkuðum greinum sem hæfa aðstæðum á hverjum stað. Einnig má veita vöruþróunar- og markaðssetningarstyrki til fyrirtækja og einstaklinga á landsbyggðinni sem vinna að þróun hugmynda og framleiðslu á vegum atvinnufyrirtækja. Í fjárlögum ársins 1997 er heimild til að ráðstafa allt að 80 millj. kr. til sambærilegra verkefna.

Gerð er tillaga um 50 millj. kr. framlag til tveggja verkefna á vegum Fasteigna ríkisins. Í 6. gr. fjárlaga 1997 er heimild til þess að selja húsnæði skattstofu Suðurlands á Hellu og kaupa annað hentugra húsnæði í staðinn. Nú liggur fyrir að keypt verði nýbygging fyrir skattstofuna sem lokið verður á næsta ári. Þörf er á 35 millj. kr. til þess að hægt verði að festa kaup á húsnæðinu. Hitt verkefnið snýr að brunavörnum og öryggismálum Arnarhvols. Gerð hefur verið úttekt á þessum þáttum og talið er að þörf sé á 70--80 millj. kr. til að koma þeim í viðunandi horf. Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdir fari fram á þremur árum og mun rekstrarfélag Arnarhvols leggja til verksins 7 millj. kr. á ári. Afgangurinn verður fjármagnaður úr ríkissjóði, þar af 15 millj. kr. á árinu 1998.

Til stendur að byggja upp og reka þjálfunar- og fræðslumiðstöð í björgunarmálum að Gufuskálum og munu Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg sjá um þann rekstur. Slysavarnafélagið og Landsbjörg munu nýta sér aðstöðuna að Gufuskálum fyrir æfingar björgunarsveitarmanna og til þjálfunar í einstökum greinum. Einnig mun aðstaðan verða nýtt til árlegra funda. Þá er fyrirhugað að nýta svæðið til reksturs þjálfunarbúða fyrir 14--18 ára unglinga yfir sumartímann. Í fjárlögum ársins 1997 er veitt 5 millj. kr. til verkefnisins og í frv. til fjárlaga 1998 er gert ráð fyrir 5 millj. kr. framlagi. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að leggja til að verkefnið verði eflt frekar og eykst fjárþörfin því á næsta ári. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður 65 millj. kr. á næstu fimm árum sem skiptist þannig að 15 millj. kr. fara til uppbyggingar á næstu tveimur árum og árlegur rekstrarkostnaður verður 10 millj. kr. Húseignirnar að Gufuskálum verða áfram í eigu utanríkisráðuneytis og landið í eigu Pósts og síma hf. Gerður verður samningur til fimm ára um réttindi og skyldur samningsaðila á samningstímanum.

Gerð er tillaga um 151 millj. kr. hækkun á framlagi til Vegagerðarinnar. Samkvæmt tillögu til þingsáætlunar um vegáætlun sem lögð hefur verið fyrir ríkisstjórn er gert ráð fyrir 3,5% hækkun á mörkuðum tekjustofnum vegáætlunar þann 1. júní 1998 sem talin er skila 151 millj. kr. auknum tekjum á því ári.

Árið 1997 var nýtt gjald lagt á til að afla tekna fyrir staðlaráð, svokallað staðlaráðsgjald. Tekjur af því voru áætlaðar 15 millj. kr. á því ári og var bætt við í meðförum Alþingis á fjárlagafrumvarpi ofan á 3,8 millj. kr. fast framlag. Á árinu 1998 eru þær áætlaðar 18,8 millj. kr. og er það eina fjárveitingin til staðlaráðs í fjárlagafrumvarpi 1998. Því er lagt til að hin upprunalega fasta fjárveiting, 3,8 millj. kr. haldi sér og bætist við tekjur af staðlaráðsgjaldi, þannig að heildarfjárveiting nemi 22,6 millj. kr.

Gerð er tillaga um 10 millj. kr. hækkun á framlagi til Hagstofu Íslands sem snertir tvö verkefni. Hið fyrra er endurnýjun á tölvukerfi þjóðskrár, fyrirtækjaskrár og hlutafélagaskrár sem unnið er að. Áætlað er að kostnaður við endurnýjunina geti numið allt að 30 millj. kr. og mun hann dreifast á nokkur ár. Hagstofan mun sjálf kosta fjárfestinguna að hluta, og er hér lagt til að framlag til þessa verkefnis nú verði 5 millj. kr. Síðara verkefnið snýr að öflun tölulegra upplýsinga um skóla- og menningarmál og úrvinnslu þeirra. Menntmrn. hefur gert samning við Hagstofuna um framkvæmdina sem áætlað er að kosti um 5 millj. kr. á ári og er lagt til að veita þá fjárhæð til þessa verkefnis.

Háskóli Íslands og nokkrar aðrar ríkisstofnanir hafa í heimsóknum til fjárlaganefndar gert athugasemdir við launabætur í frumvarpi til fjárlaga 1998. Af því tilefni skal gerð stutt grein fyrir því hvernig bæturnar eru reiknaðar út.

Launahækkanir samkvæmt kjarasamningum sem gerðir voru fyrir miðjan september voru metnar af starfsmannaskrifstofu ráðuneytisins og þeim sem komu að samningagerðinni. Matið fór fram á grundvelli upplýsinga um röðun starfsmanna fyrir og eftir samning. Laun á hverjum fjárlagalið í drögum að fjárlagafrv. voru síðan hækkuð sem nam meðalhækkun stéttarfélaganna miðað við vægi þeirra í launaútgjöldunum á viðkomandi lið. Með því reiknilíkani sem notað er endurspeglar hækkunin hjá hverri stofnun því afar vel skiptingu starfsfólks eftir stéttarfélögum og kjarabreytingar þeirra. Þetta er sama aðferð og var notuð við að reikna út launabætur í fjárlögum 1996 vegna kjarasamninga á árinu 1995 og þótti gefa góða raun.

Hvað varðar Háskóla Íslands sérstaklega skal upplýst að mat samninganefndarinnar á launahækkun Félags háskólakennara var borin undir háskólaritara og var samkomulag um niðurstöðuna. Skólinn, eins og reyndar fleiri stofnanir, hefur hins vegar talið sig þurfa aukið svigrúm til að hækka laun umfram það sem samningurinn leiðir beinlínis til. Áætlað var að laun prófessora hækkuðu í samræmi við samning Félags háskólakennara. Þá telur háskólinn að skólinn hafi ekki fengið fullar bætur vegna kjarasamninga sem voru gerðir á árinu 1995 og komu til framkvæmda 1. mars og 1. ágúst 1996. Háskólanum hefur verið bent á að leggja fram útreikninga sína og munu menntamálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið fara yfir þá útreikninga.

Hækkanir stéttarfélaga vegna kjarasamninga og launa\-ákvarðana sem ekki lágu fyrir þegar fjárlagafrv. var lagt fram voru áætlaðar miðað við sambærileg félög. Síðan þá hafa verið gerðir kjarasamningar við nokkur félög. Helstu stéttarfélögin sem samið hefur verið við eru Landssamband lögreglumanna, Tollvarðafélag Íslands, Félag bókasafnsfræðinga, Félag íslenskra fræða, Félag þroskaþjálfa og Félag íslenskra leikskólakennarra. Kostnaðaráhrif vegna þessara samninga á næsta ári eru talin nema 117 millj. kr. umfram það sem þegar hefur verið áætlað í fjárlagafrv. Lagt er til að þeirri fjárhæð verði dreift á fjárlagaliði stofnana eins og nánar er sundurliðað á fylgiskjali sem fylgir brtt.

Áhrif kjarasamnings við lækna eru ekki meðtalin enda hefur félag þeirra ekki greitt atkvæði um samninginn.

Að lokum er rétt að geta þess að gerðar eru tillögur um breytingar á fjárreiðuframsetningu nokkurra fjárlagaliða sem ekki hafa áhrif á umsvif stofnana eða afkomu ríkissjóðs. Í nál. með brtt. meiri hluta fjárln. eru þessar breytingar skýrðar nánar. Fjárlagaliðirnir eru eftirfarandi: Myndlistarskóli Íslands, Forvarnasjóður, Tapaðar kröfur, Vegagerðin og Hagstofa Íslands.

Herra forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir brtt. sem fjárln. leggur fram við 2. umr. fjárlaga og þær liggja frammi á þskj. Heildarútgjaldaaukningin samkvæmt þeim nemur 1.559,4 millj. kr. Þegar frá er dreginn hagnaður upp á 551,3 millj. kr., sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv., er halli fjárlaganna nú eftir 2. umr. 1.038,1 millj. kr. Við 3. umr. þarf að gera upp dæmið og reikna upp áætlun um tekjuhliðina. Miðað við þær horfur sem nú eru um tekjuaukningu eru horfur á að það markmið náist að afgreiða hallalaus fjárlög annað árið í röð á rekstrargrunni. Það er betri afkoma en á fyrra ári en það er nauðsynlegt markmið að halda vel á málum milli 2. og 3. umr.

Fjárln. hefur í vinnu sinni nú tekist að ljúka afgreiðslu þorra erinda sem varða útgjaldatilefni fyrir 2. umr.

Ég vil að lokum þakka samstarfsfólki og félögum mínum í fjárln. fyrir gott samstarf. Minni hlutanum þakka ég sérstaklega málefnalega umræðu og góðan starfsanda sem er afar mikilvægur þegar lengi er verið að og reynir á í flóknu og erfiðu verki og málefnaágreiningi um ýmis efni.

Ég færi sérstaklega þakkir þeim sem aðstoðað hafa nefndina í vinnu hennar og ber þá fyrst að nefna ritara fjárln. Sigurð Rúnar Sigurjónsson. Ragnheiður Sumarliðadóttir og Bentína Haraldsdóttir hafa veitt nefndinni ómetanlega aðstoð að venju. Án þeirra væri erfiðara að lifa þegar annríkið er mest. Einnig þakka ég öðru starfsfólki þingsins sem veitt hefur margháttaða aðstoð. Þá ber að þakka starfsmönnum fjmrn. og annarra ráðuneyta margháttuð samskipti og aðstoð og nefni ég þá sérstaklega til í fjmrn. Ásdísi Sigurjónsdóttur, Halldór Árnason og Nökkva Bragason. Þá vil ég einnig þakka ríkisendurskoðanda og starfsfólki hans margháttaða aðstoð við nefndina.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.