Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 11:41:43 (1998)

1997-12-12 11:41:43# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[11:41]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 16. þm. Reykv. beindi þeirri spurningu til mín hvort ég telji það rétta þróun að löggjafarvaldið sé að blanda sér inn í verkefni framkvæmdarvaldsins. Ég vil minna á það að löggjafarvaldið hefur fjárveitingavaldið og ég tel það rétt að svo sé og það sem hann taldi upp í sinni ræðu er bara þjóðlífið í landinu. Ég tel rétt að löggjafarsamkundan hafi einhver tengsl við þjóðlífið í landinu. Ég tel rétt að svo sé og ég er ekki tilbúinn til þess að afsala fjárveitingavaldinu frá Alþingi. Ég hef aldrei litið á ríkisvaldið, hvorki framkvæmdarvald né löggjafarvald eins og amerískt hlutafélag og það er dálítið langt frá minni hugsun. Okkur hv. þm. greinir áreiðanlega á um torfbæ á Keldum o.s.frv. en það er þverskurður af þjóðlífinu í landinu sem löggjafarvaldið er að fást við með sínu fjárveitingavaldi. Það kemur auðvitað til greina að framselja hluta þess, einhverja þætti, til framkvæmdarvaldsins undir eftirliti Alþingis eins og oft hefur verið gert en ég er á móti því að Alþingi afsali sér fjárveitingavaldinu.