Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 12:40:58 (2006)

1997-12-12 12:40:58# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[12:40]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. ræðumaður minntist á launamál Háskóla Íslands og ég vil í því sambandi aðeins endurtaka það sem ég sagði í framsöguræðu minni um þau að gert er ráð fyrir að háskólinn leggi fram útreikninga sína varðandi það hvað hann telur að vanti upp á í þeim efnum, að þeir verði lagðir fyrir og farið yfir þær tölur.

Varðandi þá stefnumörkun sem kemur fram í nál. minni hluta fjárln. þá er ljós munur á stefnu meiri hlutans og minni hlutans. Það er alveg rétt að aukinn hagvöxtur og það að hjólin eru farin að snúast í þjóðfélaginu og mikil atvinnuuppbygging og aukin velta mun væntanlega skila einhverjum umframtekjum. Hins vegar er alveg rétt að þversögnin er mikil þegar byrjað er á því að tala um slaka fjármálastjórn, öllu sé útdeilt, og síðan er lagt til að afla meiri tekna til að þenja út ríkisgeirann. Það finnst mér ekki bera vott um meiri ábyrga fjármálastjórn hjá minni hlutanum en hún er að ásaka meiri hlutann fyrir. Það þýðir náttúrlega þenslu í ríkisgeiranum, jafnvel þó tekna sé aflað. Síðan er lagt til að þær tekjur séu lagðar á atvinnulífið sem getur leitt til bakslags í atvinnulífinu og það skili ekki eins miklu inn í hagkerfið og það gerir núna. (Gripið fram í.)