Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 12:43:15 (2007)

1997-12-12 12:43:15# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. minni hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[12:43]

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Af því hér hefur nokkuð verið fundið að því að minni hluti fjárln. leggur fram brtt. um ný útgjöld (Gripið fram í: Hógværar.) þá vil ég benda á að það þær eru ákaflega hógværar. Þær eru upp á rétt liðlega 1% af niðurstöðutölum fjárlaga. Það er nú ekki mikil útgjaldakrafa af hálfu minni hlutans að leggja fram tillögur um að hækka þau um rétt 1% og leggur auk þess fram tillögu til að afla tekna fyrir þeim. Það verður því ekki borið á minni hluta fjárln. að hann sýni ábyrgðarleysi að þessu leyti til. Ég vil hins vegar benda formanni fjárln. á að þenslan sem er hér í gangi, þessi mikli hagvöxtur, er ekki allur borinn uppi af verðmætasköpun, hann er að mestu leyti borinn uppi af því að fólk eyðir peningum og ríkissjóður eyðir peningum --- svokallaður eyðsluhagvöxtur --- og ríkissjóður fær miklar tekjur af því vegna skatta, bæði beinna og óbeinna. Það er þekkt að jafnvel í mikilli þenslu geti ríkissjóður staðið nokkuð sæmilega af því hann fær miklar tekjur. En þegar ríkissjóður eyðir öllum nýju tekjunum sínum í ný útgjöld, jafnharðan og þau falla til, þá hefur hann ekkert svigrúm þegar bakslag kemur í seglin. Og það mun auðvitað hægja á þessari þenslu fyrr eða síðar og þá munu tekjur ríkissjóðs hrapa niður um nokkra milljarða áður en menn vita af. Það verður ekki létt verk að taka útgjöldin niður um sömu fjárhæð á skömmum tíma eins og hv. formaður fjárln. veit mætavel af reynslu sinni frá fyrri tíð í þessum efnum.