Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 14:09:12 (2016)

1997-12-12 14:09:12# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[14:09]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Störf fjárln. hafa verið með nokkuð öðrum hætti en verið hefur undanfarin ár að þessu sinni. Er það í eðlilegu framhaldi af nýrri löggjöf um fjárreiður ríkisins sem færa fleiri verkefni til fjárln. Fagnefndir hafa komið meira að vinnu með frv. með því að þeim var falið að skipta safnliðum og taka viðtöl vegna þeirra.

Erindi til fjárln. og viðtöl voru engu að síður mun fleiri en verið hefur. Ástæður þess eru vafalaust margar en mitt mat er að þar megi annars vegar sjá merki þeirrar grósku sem er í þjóðfélaginu, ekki síst í menningarmálum sem þá leiðir til aukinnar fjárþarfar og hins vegar margræddan vanda heilbrigðisstofnana, en fultrúar þeirra hafa gert fjárln. rækilega grein fyrir stöðu mála. Innan nefndar og ekki síst hjá meiri hlutanum hefur farið mikil vinna í að greina þá stöðu.

Það hefur viljað loða við okkur Íslendinga að vilja lítt úr þeim ráðum gera sem koma að utan. Með auknum samskiptum við aðrar þjóðir, ekki síst í tengslum við alþjóðastofnanir, er þessi hugsun að breytast. Engu að síður mætti ætla að styrkur okkar sem þjóðar liggi í geiglausri framgöngu gagnvart hinum stóru og vissunni fyrir því að möguleikar okkar liggi fyrst og fremst hjá traustum og öflugum einstaklingum sem búa við ysta haf og herðast í nálægð við náttúruöflin.

Því segi ég þetta hér við 2. umr. um fjárlög að umræður um ríkisfjármál okkar hafa verið að færast inn á nýtt og e.t.v. bætt og betra svið. Í umræðum um efnahagsmál er farið að bera árangur okkar saman við árangur annarra þjóða og það er viðurkennt að við getum þrátt fyrir smæðina borið okkur saman við nágranna okkar í Evrópu kinnroðalaust. Við höfum tileinkað okkur og tekið mark á þeim lærdómi sem aðrar þjóðir hafa dregið af viðureign við vaxandi ríkisútgjöld, flókna skattheimtu og takmarkaðan vilja til þess að gjalda þá skatta sem þarf að leggja á til þess að standa undir ríkisrekstrinum.

Gangverk efnahagslífsins er flókið samspil áhrifa frá atvinnulífinu og ríkisrekstrinum. Það er því mikilvægt að stjórn ríkisfjármála taki mið af stöðu og horfum í efnahagsumhverfinu. Gagnrýni á verk okkar stjórnmálamanna er æðioft á þann veg að við látum lítt með ytri aðstæður en tökum meira tillit til vilja kjósenda og væntinga þeirra. Eflaust er eitthvað til í þessu en samt má benda á mikinn og góðan árangur þrátt fyrir að einhver feilspor kunni að vera stigin hvað þetta varðar. Ég tel tvímælalaust að ábyrg afstaða stjórnarflokkanna í ríkisfjármálum hafi ekki síst leitt okkur á braut hagvaxtar og betri stöðu í þjóðarbúskapnum.

Árlega eiga fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins viðræður við fulltrúa íslenskra stjórnvalda til þess að meta stöðu efnahagsmála eftir sjálfstæða athugun þeirra hér á landi. Í skýrslu sem dreift hefur verið til þingmanna kemur fram álit fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Árangur Íslands í efnahagsmálum á undanförnum árum hefur verið mjög góður. Uppgangur er í efnahagslífinu fimmta árið í röð, hagvöxtur er enn mikill og á sama tíma helst verðbólgan lág. Þessi árangur sker sig með áberandi hætti frá tíðum sveiflum undanfarandi áratuga og ber að miklu leyti að þakka stefnu stöðugs gengis og úrbótum í ríkisfjármálum ásamt skipulagsumbótum sem hafa leitt til aukinnar hagkvæmni og skilvirkni gagnvart markaðsöflunum.``

Þetta mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er mikilvæg viðurkenning á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og því umbótastarfi í ríkisrekstrinum sem unnið hefur verið að, bæði á vegum fjmrh. og Alþingis. Það skiptir okkur Íslendinga höfuðmáli að áfram verði unnið á sömu braut og hvergi slakað á þeirri viðleitni okkar að styrkja efnahaginn og nýta fjármuni vel á grundvelli vel skilgreindra markmiða um ríkisreksturinn. Þar gegna þjónustusamningar mikilvægu hlutverki í því að skilgreina og skapa yfirsýn um þau viðfangsefni sem ríkinu er ætlað að sinna.

Engu að síður er í mörg horn að líta og sitt hvað má betur gera. Þess verðum við vör í fjárln. hjá þeim fjölmörgu sem ganga á fund nefndarinnar og frá þeim sem nefndin kallar fyrir sig.

Fjárln. hefur haft fjárlagafrv. til meðferðar og meiri hluti nefndarinnar leggur fyrir þingið breytingartillögur ásamt nefndaráliti sem ég vil gera hér nokkuð að umtalsefni. Ekki liggja fyrir áætlanir um tekjur næsta árs. Um þær verður fjallað í 3. umr. En lauslegar áætlanir benda til þess að tekjur muni aukast nokkuð frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.

Brtt. meiri hluta fjárln. fela í sér hækkun á gjaldahlið fjárlaga um um það bil 1,6 milljarða kr. og fyrir 3. umr. þarf að meta einhver erindi sem ekki eru afgreidd fyrir þessa umræðu eða munu koma fram við umfjöllun og skoðun eftir þessa umræðu.

[14:15]

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 521 millj. í afgang á rekstrargrunni sem jafngildir því að afgangur verði um 3,5 milljarðar á greiðslugrunni. Þannig megi greiða niður skuldir um tæpa 5 milljarða kr. Þrátt fyrir mikla þörf fyrir útgjöld megum við ekki hvika frá því markmiði að skila ríkissjóði með afgangi.

Mér er það ljóst að mörgum mun þykja knappt skorinn stakkurinn. Aðrir munu telja að lækka ætti útgjöld. Þær raddir hafa m.a. heyrst frá Vinnuveitendasambandinu sem varar við auknum ríkisútgjöldum og tekur undir tillögur um að ríkissjóður verði rekinn með 5 milljarða afgangi á næsta ári. Vinnuveitendasambandið hefur ekki gert tillögur um niðurskurð svo að hönd sé á festandi. Hugmyndir um niðurskurð í ríkisrekstrinum um 5 milljarða kr. jafngilda því að hætta allri starfsemi á Sjúkrahúsi Reykjavíkur eða fella allar framkvæmdir í vegagerð og viðhaldi vega niður á næsta ári á öllum þjóðvegum landsins. Það má því ljóst vera að þær stærðir sem hér um ræðir eru þvílíkar að það verður að gefa sér enn nokkurn tíma til þess að auka afgang ríkissjóðs svo að skuldir ríkissjóðs lækki í jöfnum og ákveðnum áföngum eftir því sem hagur batnar en ekki eins og ýtrustu kröfur eru settar fram um. En ég get ekki fallist á þá kröfu vinnuveitenda að skera svo ótæpilega niður, tel það hvorki skynsamlegt né vera þörf á því eins og sakir standa.

Við þurfum áfram að vinna að arðbærum verkefnum sem bæta hag okkar til lengri og skemmri tíma. Engu að síður þarf að huga að varnaðarorðum þeirra sem hvetja til þess að haldið verði uppi öflugum vörnum gegn þenslu sem gæti leitt til verðbólgu. En ekkert bendir til þess að afgreiðsla fjárlaga leiði til óróleika eða muni valda spennu á vinnumarkaði.

Eins og jafnan hefur fjárln. tekið fjölmörg erindi til meðferðar. Nefndin leggur ríka áherslu á að fá tækifæri til þess að greina vel þau erindi sem berast og fara rækilega yfir stöðu ríkisstofnana. Ef gerð er tilraun til þess að meta stöðu ríkisrekstrarins í heild má segja að þrennt sé einkennandi:

Í fyrsta lagi er áberandi meiri agi í rekstri stofnana og metnaður og í raun samkeppni um að gott orðspor fari af starfseminni. Stjórnendur eru að mínu mati meira meðvitaðir um skyldur sínar og hlutverk.

Í öðru lagi er óróleiki innan sjúkrastofnana mjög mikill og það er alið á honum í pólitískum tilgangi, oft af mikilli ósanngirni og kröfuhörku. Það er mikið vandamál og auðveldar ekki það vandasama verkefni að ná tökum á rekstri í heilbrigðisgeiranum þannig að þekking læknisfræðinnar og hjúkrunarfræðinnar nýtist sem best.

Í þriðja lagi ríkir þrátt fyrir allt bjartsýni og fólkið í landinu treystir stjórnarflokkunum til þess að fara með þau mál sem varða velferð þess, menntun og framkvæmdir á öllum sviðum sem horfa til framfara. Það sýna skoðanakannanir svo ekki verður um villst. Það virðist ríkja góður skilningur á gangverki efnahagslífsins og að við höfum ekki annað til skiptanna en það sem við öflum. Og við stjórnmálamenn vitum og finnum að okkur er ætlað að vinna gegn hvers konar misrétti í þjóðfélaginu og er það vissulega vilji okkar.

Formaður fjárln. hefur farið yfir breytingartillögur þær sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt hér fram. Mun ég því ekki skýra þær en vil þess í stað vekja athygli á nokkrum þáttum sem meiri hlutinn hefur viljað leggja áherslu við afgreiðslu fjárlaga og mér heyrist að í sumum tilvikum muni minni hlutinn einnig styðja þær hugmyndir og tillögur.

Forseti Alþingis og forsætisnefnd hafa unnið að ýmsum umbótum í starfi þingsins. Því starfi hefur fylgt endurskipulagning á húsakosti og aðstöðu sem var og er vart boðleg. Aukin áhersla er lögð á störf nefnda hér í þinginu og leitast er við að skapa þeim skilyrði til þess að geta rækt hið mikilvæga hlutverk sitt. Með stofnun alþjóðasviðs og með því að styrkja nefndasviðið með fjölgun starfandi lögfræðinga sem nefndaritara hefur vinnuumhverfi þingmanna verið bætt. Með því eru þingmönnum sköpuð betri skilyrði til þess að vanda lagasetningu og taka þátt í flóknum verkefnum í þinginu og á alþjóðavettvangi. Þessar aðgerðir voru nauðsynlegar en hlutu hins vegar að leiða til einhverrar hækkunar á útgjöldum þingsins eins og kemur fram í tillögum meiri hluta fjárln. sem eru byggðar á umsögn forsætisnefndarinnar sem hefur leitað samráðs og samvinnu við formenn þingflokka varðandi rekstur þingsins.

Auðvitað verður í rekstri Alþingis að sýna aðhald og sparsemi og ber embættismönnum að gæta vel að öllum rekstri. Forseti þingsins og embættismenn hafa lagt fyrir fjárln. greinargerð sem skýrir þær hækkanir sem lagðar eru til. Er mikilvægt að um þær fari fram umræður í fjárln. og í þinginu líkt og með aðra þætti sem varða fjárlög.

Það hefur verið feimnismál þingmanna að ræða þá takmörkuðu aðstöðu sem hér er í þinginu. Að mínu mati er hún fullkomlega óboðleg, ekki síst hér í þinghúsinu, einkum hvað varðar vinnuaðstöðu utan þingsalar. Snýr það bæði að þingmönnum, ráðherrum og öðru starfsfólki sem má sæta því að vera hér vinnandi á göngunum svo ekki sé talað um þá sem kallaðir eru til fundar við þingmenn og ráðherra hér í þinghúsinu. Úrbætur í húsnæðismálum og bætt aðgengi að þinghúsinu eru verkefni sem verður að takast á við af festu og í ljósi þess að Alþingishúsið er og á að vera tákn íslenska lýðveldisins. Herra forseti. Um þetta mun ég ekki hafa fleiri orð að þessu sinni. Úr þessu verður að bæta. Það varðar sóma Alþingis.

Byggðamálin hafa mjög verið í umræðunni að undanförnu og ég gerði þau nokkuð að umræðuefni við 1. umr. fjárlaga. Við afgreiðslu fjárlaga þessa árs var framlag til Byggðastofnunar hækkað vegna atvinnuráðgjafar í landshlutum. Sama er uppi á teningnum núna. Meiri hluti fjárln. vill áfram leggja áherslu á atvinnuráðgjöfina í landshlutunum. Með því vilja stjórnarflokkarnir undirstrika vilja sinn til þess að vinna skipulega að því að efla atvinnulífið í landsbyggðinni.

Háskóli Íslands, það flaggskip mennta og menningar í landinu, hefur verið nokkuð til umræðu fyrir þessa fjárlagagerð líkt og oft hefur gerst áður. Innan fjárln. kom fram ríkur skilningur á mikilvægi þess að bæta stöðu háskólans. Meiri hluti fjárln. gerir tillögur um 50 millj. kr. hækkun á framlögum til háskólans auk þess sem gerð er tillaga um hækkun til annarra háskólastofnana. Eru þessar tillögur í fullu samræmi við þær áherslur sem hæstv. menntmrh. hefur lagt gagnvart háskólanum. Í þeirri þröngu stöðu sem við erum í verður ekki gengið lengra að sinni, en unnið er að samningi milli Háskóla Íslands og menntmrn. sem mun auðvelda mat á fjárþörf og mun móta það starfsumhverfi sem háskólanum er ætlað.

Jöfnun námskostnaðar framhaldsskólanemenda er mikilvægur þáttur í því að skapa jafnrétti til náms í landinu. Í ljósi hættumerkja um byggðaröskun er gerð tillaga um verulega hækkun á dreifbýlisstyrk til nemenda í framhaldsskólum sem þurfa að sækja nám fjarri heimili og þurfa að greiða háar upphæðir bæði vegna dvalar- og ferðakostnaðar. Hækkunin er ríflega 50% eða 50 millj. kr.

Breytt verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er liður í því að færa valdið og ábyrgðina nær vettvangi. Nokkurt skref er stigið í þeim efnum við þessa fjárlagagerð með því að húsaleigubótakerfið er fært til sveitarfélaganna og öllum sveitarfélögum er gert að sinna því verkefni. Áfram er gert ráð fyrir frekari viðræðum samkvæmt samkomulagi sem gert hefur verið við sveitarfélögin. Að mínu mati verður að huga vel að næstu skrefum. Gæta verður þess að færsla verkefna mismuni ekki sveitarfélögum eða halli á þau svæði þar sem uppbygging er skammt á veg komin. Staða sveitarfélaganna er ærið misjöfn til þess að takast á við aukin verkefnin. Á það verður að líta og það má greina það vel þegar skoðuð er þróun staðgreiðslustofnsins milli áranna 1996 og 1997 sem gefur aðaltekjur sveitarfélaganna.

Rekstur sjúkrahúsa og daggjaldastofnana er trúlega erfiðasta viðfangsefni við afgreiðslu þessara fjárlaga eins og oft hefur áður verið. Daggjaldastofnanir hafa vakið athygli fjárln. á erfiðri stöðu sem m.a. stafar af mismunandi daggjöldum til þeirra. Gerð er tillaga af meiri hluta fjárln. um nokkrar úrbætur með því að hækka safnlið sem tilheyrir þessari starfsemi og gert er ráð fyrir því að auðvelda gerð þjónustusamninga við daggjaldastofnanir til þess að koma til móts við þær. Og ég vil undirstrika af þessu tilefni, herra forseti, að sérstaklega liggur það fyrir að Reykjalundur, sem er daggjaldastofnun, hefur átt við nokkurn rekstrarvanda að etja og ekki síst vegna þess rekstrar er þessi tillaga flutt.

Að öðru leyti, herra forseti, vísa ég til þess sem kom svo mjög rækilega fram í ræðu hv. formanns fjárln. um þær aðgerðir sem lúta að sjúkrahúsum. Gert er ráð fyrir því að mynda einn pott sem í verða 300 millj. til þess að vinna úr þegar fyrirhuguð stýrinefnd hefur störf og leggur út í það erfiða viðfangsefni að greina vanda sjúkrastofnananna og gert er ráð fyrir því að gerðar verði tillögur um útdeilingu úr þessum potti. Það mun síðan koma til endanlegrar afgreiðslu í fjáraukalögum og varðar þá bæði pottinn sem er í fjáraukalögunum og hefur áður verið hér til umræðu og síðan þennan 300 millj. kr. pott sem varðar fjárlögin 1998. Fjárln. mun koma að því þegar þar að kemur og mun ég ekki hafa fleiri orð um það að þessu sinni.

Ég vil bara undirstrika það að vandi sjúkrastofnananna er mjög mikill. Það þarf að ganga til þess verks að semja við sjúkrahúsin og skoða þann rekstur mjög rækilega. Ég hef áður undirstrikað það að ég tel að það eigi ekki að ganga til þess verks gagnvart stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík með fyrir fram mótaðar skoðanir um sameiningu og eitt allsherjar risasjúkrahús heldur eigi að líta til verksins þannig að fremur eigi að sameina rekstrareiningar, sameina viðfangsefni og leyfa stofnunum, ef það þykir hagkvæmt, að starfa áfram í sitt hvoru lagi. Aðalatriðið er að ganga til þessa verks að endurskipuleggja sjúkrahúsakerfið án nokkurrar fyrir fram gefinnar niðurstöðu eða gera það á grundvelli einhverra fordóma og hef ég ekki fleiri orð um það. Vafalaust gefst gott tækifæri til að ræða þessi mál síðar.

Til þess að við getum, herra forseti, staðið undir heilbrigðis- og velferðarkerfinu og menntakerfinu og öllu því sem varðar ríkisstarfsemina, þá þurfum við að efla atvinnulífið. Þess vegna er það að meiri hluti fjárl. gerir tillögu um að á sérstakri heimildargrein verði gert ráð fyrir því að nýta 80 millj. kr. eins og gert er á þessu ári, en í heimildargrein fjárlaga ársins 1997 var gert ráð fyrir því að úthluta 80 millj. kr. til uppbyggingar atvinnulífs og atvinnusköpunar á þeim svæðum sem ekki njóta afraksturs stóriðjuuppbyggingar. Það er því lagt upp að nýju með þessa sömu hugmynd. Formaður fjárln. gerði ítarlega grein fyrir því hvernig framkvæmdin er hugsuð en gert er ráð fyrir því að á vegum iðnrn. verði settur upp starfshópur sem geri tillögur og vinni þær í samráði að fengnum tillögum frá atvinnuþróunarfélögum í landshlutunum og fleiri aðilum sem tengjast iðnrn. og úthlutunin verði byggð á slíkri faglegri umfjöllun. Á það vil ég leggja sérstaka áherslu.

Herra forseti. Ekki er hækkun á framlögum til vegagerðar frá því sem frv. gerir ráð fyrir. Til meðferðar hjá stjórnarflokkunum er tillaga um vegáætlun til langs tíma. Ekki er færi eða aðstæður til þess að ræða þá tillögu hér enda er hún ekki komin á dagskrá þingsins. Engu að síður er mikilvægt að þjóðin og þingið geri sér grein fyrir þeim miklu breytingum sem eru að verða á kröfum um bættar samgöngur á landinu. Flutningar aukast stöðugt á landi og fjölgun ferðamanna kallar á betri vegi. Ef við ætlum að hagræða í sjúkrahúsakerfinu þá þurfum við bættar samgöngur. Ef við ætlum að nýta betur atvinnufyrirtækin og nýta betur auðlindir við ströndina, þá verðum við að bæta vegina. Ef við ætlum að styrkja vaxtarsvæðin og byggðakjarna sem vörn gegn byggðaröskun þá verðum við að bæta vegakerfið í landinu. Hvað sem öllum vandamálum líður í heilbrigðiskerfinu og öðrum þáttum þjóðfélagsins þá verða mestu framfarirnar hjá okkur ef við getum fært byggðina saman með því að stytta vegalengdir með bættum samgöngum.

Aukin og bætt menntun, öflugir háskólar, auknar rannsóknir á auðlindum lands og sjávar og bættar samgöngur á landi eru lyklar okkar Íslendinga að nýrri öld. Þá lykla verðum við að nota og megum ekki láta vanda einstakra viðfangsefna bera okkur af þeirri leið sem við höfum markað okkur. Bættur efnahagur þjóðarinnar og aukinn sparnaður er grundvöllur þess að bæta hag eintaklinga og fjölskyldnanna í landinu.