Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 14:33:15 (2017)

1997-12-12 14:33:15# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[14:33]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vek sérstaka athygli á síðustu orðum hv. þm. Sturlu Böðvarssonar hvað varðar vegamál og samgöngumál. Þar erum við sammála eins og svo mjög margir landsbyggðarmenn og sennilega flestir þingmenn. Þess vegna gerum við tillögu um að áform um að skera frá markaða tekjustofna vegafjár séu látin falla niður. Ég vona að við fáum undirtektir við að þær 1.064 millj., sem ætlað er af mörkuðum tekjustofnum vegafjár, renni þá til vegagerðar. Þá mun sjást verulegur árangur í því máli sem hv. þm. gerði að umræðuefni.

Ég kom einnig upp til þess að taka undir með hv. þm. 2. þm. Vesturl. um vinnuaðstöðu þingmanna og starfsfólks. Það hefur reyndar verið tekið á þessum málum eins og okkur er öllum kunnugt þannig að á síðustu sex árum hefur aðstaða batnað og ber að þakka það. En þinginu er ætlað að ákvarða um þessi mál og við verðum að sjálfsögðu að meta þann hraða sem heppilegur er. Mig langar að það komi fram að ég tel forgangsverkefni að lagfæra vinnuaðstöðu nokkurra starfsmanna þingsins og ég vona að það verði fremst í forgangi og mun leggja mitt af mörkum til að svo megi verða.

Varðandi 300 millj. kr. pottinn í heilbrigðiskerfinu vil ég aðeins nefna það að tel að sú tillaga hefði átt að vera komin fram miklu fyrr og lá alltaf fyrir að það vantaði meira og en þessar 300 millj. Ég veit að hv. þm. Sturla Böðvarsson gerir sér grein fyrir því. Það vantar miklu meira fé. Ég er ekki að vanþakka þessa gjörð en ég hefði viljað sjá hana á borðum fjárln. því að það er einu sinni fjárln. sem á að gera tillögur en ekki að vera stimplunarstofnun fyrir einhverjar tillögur sem við fáum síðan inn eins og reiknað er með að verði.