Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 15:58:54 (2032)

1997-12-12 15:58:54# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[15:58]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. um að full ástæða væri til að stytta biðtíma og ég er á þeirri skoðun að það þurfi að setja hámarksbið eftir aðgerðum hér á landi eins og hefur verið gert í nágrannalöndum. En vegna ummæla hv. þm. í upphafi ræðu sinnar um orðaskipti mín og hv. 4. þm. Suðurl. hér áðan þar sem síðasti ræðumaður vitnaði í skýrslur um árangur Íslendinga við fjárlagagerð, og er gleðilegt að mönnum skuli ganga vel við fjárlagagerðina hér á landi, þá gagnrýndi ég að þar skuli árangrinum náð vegna þess að það er alltaf verið að höggva og vega að velferðarkerfinu. Vegna þess að hv. þm. var að vitna í skýrslur, herra forseti, langar mig til að vitna í aðra skýrslu sem er skýrsla landlæknis til fjárl.- og heilbrn. Alþingis en þar segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt úttekt Þjóðhagsstofnunar hafa útgjöld okkar til heilbrigðismála metin sem hlutfall af vergri landsframleiðslu farið lækkandi á árunum 1988--1997 miðað við fjárlögin sem við erum nú að afgreiða og er áætlað að Ísland sé í 14.--16. sæti meðal Evrópuþjóða ef tekið er tillit til þess að útgjöld vegna elli- og hjúkrunarheimila falla undir heilbrigðismál á Íslandi en undir félagsmál meðal flestra annarra þjóða.``

Við erum sem sagt í 14.--16. sæti í framlögum til heilbrigðismála.