Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 16:01:26 (2034)

1997-12-12 16:01:26# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[16:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hjálmar Jónsson velti hér vöngum yfir áfengisvandanum og mér fundust þessar vangaveltur hans vera athyglisverðar og eiga fullkomlega rétt á sér. Hann velti því t.d. upp hvort það gæti verið að of greiður aðgangur að meðferðarstofnunum yki áfengisbölið. Mér finnst að umræður af þessu tagi eigi rétt á sér en ég er þó ósammála þessari skoðun hv. þm. Ég hef sjálfur svolitla nasasjón af starfsemi þessara meðferðarstofnana og ég hef séð þær gera kraftaverk á fólki, jafnvel ungu fólki í nánasta nágrenni mínu. Ég held að það sé ekki hægt að gera því skóna, eins og mér fannst hv. þm. gera, að greiður aðgangur að þessum stofnunum yrði til þess að menn yrðu frekar kærulausir í meðferð áfengis- og vímuefna.

Ég held þvert á móti að það sem við erum að horfa fram á í þessum efnum sé að samfélagið er að trosna á saumunum. Ég held að vandi þeirrar aldar sem við munum nú senn byrja verði fyrst og fremst fíkniefnavandinn. Sú svakalega þróun sem við sjáum í ofneyslu vímuefna birtist í því að ofneyslan er alltaf að færast neðar og neðar í aldursflokkana. Við sjáum það á aldursdreifingunni í þessum meðferðarstofnunum sem hv. þm. gat um að því miður er það staðreynd að meðalaldurinn er alltaf að lækka og við, foreldrar og aðrir stöndum ráðþrota gagnvart þessu. Þó að þessi umræða eigi rétt á sér þá tek ég vara fyrir því að beinlínis halda því fram að of greiður aðgangur að þessum stofnunum geti aukið þetta böl. Ég held þvert á móti að þessi greiði aðgangur hafi bjargað fjölmörgum fjölskyldna.