Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 16:37:18 (2037)

1997-12-12 16:37:18# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[16:37]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 15. þm. Reykv. kom víða við í ræðu sinni en það er eitt atriði sem ég vildi koma til skila í andsvari svo að það misskiljist ekki. Halli þeirra 12 landsbyggðarsjúkrahúsa sem voru til meðferðar varðandi minnkun útgjalda upp á 160 millj. á sínum tíma og 80 millj. síðar, er ekki 384 millj. Þar var um 12 sjúkrahús að ræða og til viðbótar er halli á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri nýtilkominn upp á 84 millj. og hallatölur fyrir sjúkrahúsin hér í nágrenni höfuðborgarinnar sem voru ekki inn í þessari úttekt.

Hv. þm. lýsti því að allt það starf hefði verið unnið fyrir gýg. (ÖS: Það sagði ég ekki.) Ég biðst afsökunar á því ef ég hef misskilið það. Það er langt frá því að svo sé. Það hafa verið gerðir margir góðir hlutir á þessum sjúkrahúsum og farið þar yfir málin. Hins vegar er ætlunin að framhaldið sé í höndum þeirrar stýrinefndar sem er ætlunin að skipa og sú úttekt sem verður gerð og þeir samningar sem verða gerðir við sjúkrahúsin, ráði framhaldinu.

Varðandi Sjúkrahús Reykjavíkur, þá vil ég endurtaka það sem reyndar kom fram í ræðu varaformanns fjárln. að áríðandi er að strax verði hafist handa við að yfirfara mál þess af stýrihópnum vegna þess að það er ljóst og ég hef sagt það áður við umræðuna um fjáraukalögin að þar er verulegur vandi. Það þarf að bregðast við því og fara yfir þau mál sem allra fyrst.