Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 16:39:40 (2038)

1997-12-12 16:39:40# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[16:39]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að þessi yfirlýsing hv. þm. Jóns Kristjánssonar um Sjúkrahús Reykjavíkur sé mjög mikilvæg. Hann ítrekar það hér sem hann mun hafa sagt í sinni ræðu í morgun, þó það hafi farið fram hjá mér, að hann gerir sér grein fyrir því að vandi sjúkrahússins sé mikill. Hann segir jafnframt að nauðsynlegt sé að fara skjóta yfirferð yfir málefni sjúkrahússins til þess að hægt sé að reyna með einhverju móti að ráða niðurlögum þessa vanda.

Auðvitað er ég dálítið undrandi á að heyra þetta vegna þess að hv. fjárln. hefur unnið sitt starf mjög vel. Hún hefur kvatt til alla þá sem m.a. þetta mál varðar og hún veit nákvæmlega hvernig staðan er. Ég held ekki að enn ein yfirferðin skili nokkru um það. Hv. þm. Jón Kristjánsson og allir hinir í fjárln. vita hver vandinn er. Það getur vel verið að menn geti deilt um einhverjar 100 eða 150 millj. þar en það er ljóst að vandinn er svo gígantískur að það verður að loka deildum og það verður væntanlega að ráðast í það tiltölulega fjótlega og þar með að segja upp nokkrum fjölda fólks ef ekki verður gripið til einhvers konar ráðstafana mjög snemma. Ég velti því fyrir mér af hverju hv. fjárln. ætli þá að skoða þetta mál í janúar eða febrúar þegar það er ljóst hver vandinn er núna. Hvers vegna taka menn ekki á þessu við þessa fjárlagagerð og aflétta þar með óvissunni um framtíð spítalans?

Að því er varðar síðan það sem ég sagði um landsbyggðarsjúkrahúsin, þá var það þannig eins og hv. þm. mun sjá ef hann les ræðu mína síðar að ég sagðist telja að flest landsbyggðarsjúkrahúsanna 12 hefðu verið inni í þessu. Ég veit að þetta náði ekki til allra. Ég veit t.d. að Sjúkrahúsið á Akranesi með talsverðan halla er ekki þar inni. Sjúkrahúsið á Selfossi sem skyndilega dúkkar upp með talsverðan halla er ekki inni og ég held ekki heldur sjúkrahúsið í Keflavík þannig að líkast til er heildartalan meiri en 386 millj. Það skiptir ekki máli í þessu í sjálfu sér.