Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 16:44:14 (2041)

1997-12-12 16:44:14# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[16:44]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur nú verið talsverð lífsreynsla að hlusta á ræðu hv. 15. þm. Reykv. Ég sat á skrifstofu minni hérna örskammt frá þegar hv. þm. hóf mál sitt og ég verð að játa að það rifjuðust upp svona gamlir og góðir dagar þegar við hv. þm. vorum að verjast spjótalögum þáv. stjórnarandstöðu sem réðist að þáv. ríkisstjórn fyrir allt of mikinn niðurskurð í ríkisfjármálum og velferðarmálum. Hv. þm. hóf mál sitt þannig að mér fannst eins og hann stæði í þeim gömlu og góðu sporum. Hann talaði af mikilli ábyrgð, hvatti til þess að menn færu gætilega með ríkisins fé, hafði helst áhyggjur af því að í góðæriskastinu hefðu menn einna helst beitt ríkisfjármálin fullmiklum lausatökum og ekki gætt sín í útgjöldunum og þess háttar.

Þegar ég var hins vegar kominn hingað út í þinghúsið sem er ekkert mjög löng leið, þá var hv. þm. farinn að flytja aðra ræðu. Mér er hins vegar tjáð að þetta sé hin sama ræða. Hv. þm. talaði þá að vísu ágætlega fyrir því að aukin yrðu útgjöld til stærsta og útgjaldafrekasta málaflokksins, þ.e. heilbrigðismála og flutti fyrir því býsna sannfærandi rök sem ég ætla út af fyrir sig ekkert að fara yfir. Hv. þm. opnaði hins vegar ekki munninn í röksemdafærslunni fyrir minna en svona nokkur hundruð millj. kr. í hvert skipti, þ.e. 400 millj. þarna og 300 þarna og 500 þarna og eitthvað svoleiðis. (Gripið fram í.) Án þess að ég legði það nú saman nákvæmlega, hv. þm., þá sýndist mér að talan væri a.m.k. ekki langt frá milljarðinum, svona kannski milli 1 og 2 milljarðar þannig að ég verð að játa það, virðulegi forseti, að það var dálítið mikil lífsreynsla að hlusta á svona tvær ræður hvor í sína áttina frá einum og sama hv. þm. og í einni og sömu ræðunni.

Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þess að ég tel að það sé mjög mikilvægt að þungavigtarmaður eins og hv. 15. þm. Reykv. og formaður heilbr.- og trmn. tali þannig að ábyrgt megi teljast, ekki síst þegar við erum að fjalla um svona mikilvægt mál eins og útgjöld eru til heilbrigðismála.