Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 16:47:49 (2043)

1997-12-12 16:47:49# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[16:47]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó rétt sé hjá hv. þm. að ég sé nokkuð að hníga að miðjum aldri þá held ég að vegalengdin úr Blöndalshúsi yfir í þinghúsið sé ekki lengri en svo að jafnvel þó ég færi hægt yfir gæti það talist nokkuð afrek að hv. þm. skipti svona algerlega um skoðun á ekki lengri leið, frá því að vera rétt eins og hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson á góðum degi í það að vera venjulegur kröfupólitíkus eins og hv. þm. var orðinn í seinni ræðu sinni.

Ég var ekkert út af fyrir sig að deila við hv. þm. um efnisatriði málsins. Ég vakti athygli á því að hans kröfur hefðu hlaupið á 500--600 millj. kr. og helst ekki lægra í hvert skipti sem hv. þm. nefndi eitthvað sem vantaði. Ég taldi ástæðu til þess að vekja athygli á því vegna þess að hv. þm. er formaður heilbr.- og trn. og má glöggt vita um þessi mál. Það er fremur langur vegur frá því að tala eins og hæstv. fjmrh. á góðum degi og hvetja til aukins niðurskurðar á flestum sviðum og snúast svo í það á tveimur mínútum að vera talsmaður stóraukinna útgjalda, helst upp á marga milljarða kr. umfram það sem fjárlögin gera ráð fyrir.