Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 16:57:53 (2049)

1997-12-12 16:57:53# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[16:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég reiknaði sem betur fer ekki sjálfur þær tölur sem ég fór með áðan heldur eru þær teknar úr úttekt Þjóðhagsstofnunar. Þær komu sem sagt frá Þjóðhagsstofnun en ekki frá þingflokki jafnaðarmanna eða öðrum. Opinberir sérfræðingar hafa reiknað þetta.

Hv. þm. gat þess að hann ræki í rogastans yfir því að það kynni að þurfa að grípa til stórfelldra uppsagna hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur vegna þess að fyrir lægi samkomulag frá 12. september. En lykilorðið í því samkomulagi sagði hann sjálfur. Að samkomulagið næði til áramóta. Ég er að tala um fjárlagafrv. fyrir næsta ár og ef þessi mikli halli verður staðfestur með fjárlagafrv., þá er nauðsynlegt fyrir sjúkrahúsið að grípa til ráðstöfunar fyrir næsta ár. Ég get ekki ímyndað mér að fólki verði sagt upp til þess að það hætti fyrir áramót, enda er það ómögulegt. Að því er talsverður aðdragandi en ég fullyrði hins vegar að ef það verður ekki undinn bráður bugur að því að leysa þennan vanda, þá verður sennilega nauðsynlegt að segja upp 200 manns. Þetta er ekki aðeins mínar eigin skoðanir. Þetta kom fram í máli forsvarsmanna sjúkrahússins á fundi heilbrn. fyrir skömmu.