Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 17:00:53 (2051)

1997-12-12 17:00:53# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[17:00]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Tölur þær sem hv. þm. fór með um þróun launa á stöðugildi helgast auðvitað af því að stöðurnar eru ekki fullmannaðar og þarna er um að ræða mikla yfirvinnu. Í ræðu minni var ég að tala um og bera saman hlutfall launakostnaðar innan heilbrigðiskerfisins hér á landi og erlendis. Ég sagði að sú breyting væri nú á að vinnumarkaður þessara starfsstétta væri að verða alþjóðlegur og þá mun launakostnaður vegna þeirra mun aukast. Á allra síðustu mánuðum höfum við séð að þessi þróun er þegar farin af stað.

Að öðru leyti, herra forseti, talar hv. þm. hér talsvert um Sjúkrahús Reykjavíkur og vanda þess og af ræðu hans mætti halda að hann teldi ekki um verulega mikinn vanda að ræða. (StB: Það kom fram í ræðu minni...) Já, ég hlustaði á hana líka. En ég hef þá bara eina spurningu til hv. þm. Getur hann fullyrt úr þessum ræðustól að það muni ekki koma til neinna lokana á Sjúkrahúsi Reykjavíkur á næsta ári? Getur hann fullyrt að ef sýnt yrði fram á þann vanda sem ég hef talað um hérna, þá mundi fjárln. hlutast til um að úr honum yrði bætt?