Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 17:02:45 (2052)

1997-12-12 17:02:45# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[17:02]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggja fyrir til 2. umr. fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 1998. Eins og önnur fjárlagafrumvörp bera þau vitni um raunverulega stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem í hlut á. Þessi fjárlög eru mikil um sig og munu hafa víðtæk áhrif á efnahagslífið í landinu og þar með allt þjóðlífið, ekki síst afkomu almennings. Það sem mér finnst helst á skorta í sambandi við þetta frv. er heildarsýn. Mér finnst ekki alveg rökrétt hvaða liðir fá betri undirtektir en aðrir og frv. bera þess nokkur merki.

Samkvæmt þjóðhagsáætlun fyrir 1998 er reiknað með að hagvöxtur verði um 3,5% á árinu 1998 eða nokkru minni en gert hafði verið ráð fyrir. Samkvæmt sömu áætlun eru ýmis teikn á lofti um að þensla sé að myndast í efnahagslífinu eða a.m.k. sé vöxtur efnahagsstarfseminnar á ystu mörkum þess sem samrýmist viðunandi verðlagsþróun.

Eitt alvarlegasta merkið sem nú er sýnilegt er að verðbólgan virðist hafa farið af stað á nýjan leik og hækkun vísitölu neysluverðs verði um það bil 1% meiri milli ára nú en verið hefur undanfarin ár. Við slíkar aðstæður segja fræðin að nú þurfi að gæta aðhalds í ríkisútgjöldum. En þá verður að athuga hvar beri að gæta aðhalds og jafnframt varast að það komi niður á veiku fólki eða menntastefnu þjóðarinnar. Menntun þjóðarinnar er okkar mikilvægasta fjárfesting til framtíðar og þar megum við síst beita tillitslausum sparnaði þó auðvitað þurfum við þar sem annars staðar að gæta aðhalds og viðhafa gott eftirlit. Ég tel einnig að sama eigi að gilda um heilbrigðismál. Þar eigum við að veita sjúkum og þurfandi þá bestu hjálp sem völ er á og berjast fyrir því að ávallt séu úrræði fyrir veikt fólk og það þurfi ekki að vera í langan tíma á biðlistum meðan heilu sjúkradeildirnar eru lokaðar vegna rekstrarfjárskorts. Ég tel, herra forseti, að af slíku sé vafasamur sparnaður fyrir þjóðfélagið.

Á sama tíma og við blasir að ráðstöfunartekjur heimilanna eru taldar aukast um 8% á næsta ári veldur það miklum áhyggjum að skuldir heimilanna virðast jafnframt aukast. Það virðist ætla að verða eitt stærsta efnahagsvandamál sem Íslendingar hafa átt við að glíma undanfarin ár. Þannig hafa skuldir heimilanna aukist í það að vera 132% í hlutfalli við ráðstöfunartekjur á þessu ári. Ekki þarf mikinn hagspeking til að sjá að slíkt getur ekki gengið, enda eiga fjölmörg heimili við mikil vandræði að etja. Erfiðast er að fólk er í mörgum tilfellum að reyna að bjarga sér frá mánuði til mánaðar á fokdýrum neyslulánum til að endar nái saman því afborganir af lánum taka mestallar útborgaðar tekjur. Þetta er allt uppáskrifað af nánustu ættingjum og vinum og fólk er í stöðugri andlegri nauð að draga fram lífið með þessi ósköp á bakinu.

Mér finnst undarlega hljótt um það af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, til hvaða ráða hún ætlar að grípa í þessu sambandi. Sérstaklega er það sérkennilegt í ljósi þeirrar staðreyndar að annar stjórnarflokkurinn rakaði að sér atkvæðum í síðustu kosningabaráttu vegna þess að hann lofaði aðgerðum í málefnum þessa hóps. Fyrir þeim úrræðum hefur heldur lítið farið svo ekki sé meira sagt.

Þegar verið er að greiða út vaxtabætur hef ég stundum hugsað um hvort ekki ætti að vera í boði hvetjandi úrræði til að fá fólk til að leggja bæturnar inn á móti skuldunum í stað þess að greiða þær út í hönd sem verkar mjög neysluhvetjandi.

Mestu vonbrigðin við frv. hljóta þó að vera með úrlausn heilbrigðismála en í þeim málaflokki hefur ástandið verið að versna með ári hverju nokkur undanfarin ár og ávallt borið við slæmu ástandi efnahagsmála. Ýmsir töldu að nú yrði neytt færis í góðærinu, þeir veiku og hrjáðu látnir njóta efnahagsbatans og hagur þeirra réttur á ný. Því miður er það ekki reyndin samkvæmt þessu frv. Ég sé ekki betur en vinna fjárln. á þessu ári hafi gert vandann í heilbrigðiskerfinu umtalsvert meiri. Þær sparnaðarhugmyndir sem útfæra átti á landsbyggðinni hafa aðeins leitt til þess að vandinn magnaðist og þurfti á fjáraukalögum að setja 200 millj. í pott. Úr honum er sérstökum spekingum ætlað að útdeila en þessar 200 millj. og 300 millj. til viðbótar á árinu 1998 í sama úrlausnapottinum eru aðeins dropi í hafið á móti þeim vanda sem við blasir. Nú í árslok er t.d. halli FSA eins 84 millj. og fjárvöntun stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík um 400 millj. og þann bagga blýþungan virðist þeim vera ætlað að bera inn í framtíðina. Inni í þessum tölum er ekki reiknað viðhaldsfé sem víða er þó brýn þörf fyrir. Húsakosturinn t.d. á deildum þar sem bráðveikt fólk liggur í gjörgæslu er ekki boðlegur. Þar að auki vil ég vara sérstaklega við slíkum pottalausnum. Þær hafa það í för með sér að pottverjar sem að stærstum hluta eru valdir af heilbrrn. hafa í hendi sér líf og framtíð þeirra stofnana er keyrt hafa fram úr og geta þvingað þá inn í hvers konar skipulagsbreytingar en eins og dæmin sanna hafa þær ekki allar verið jafndjúphugsaðar. Í sumum tilfellum hafa þær verið andstæðar vilja forráðamanna og starfsfólks viðkomandi stofnana og veikt þann starfsanda sem þarf að vera góður þegar staðan er erfið.

Forsjármenn sjúkrahúsanna meta það svo að inn í rekstur sjúkrahúsanna í landinu vanti um það bil einn milljarð til viðbótar því sem er í frv. Þá er einungis miðað við að hægt sé að halda starfseminni óbreyttri frá því sem nú er. Við bætist að vandi landlæknisembættisins sem lítið hefur verið ræddur í þessari umræðu er umtalsverður. Þeir komu á fund hv. fjárln. með mikil vandræði sem safnast hafa fyrir á undanförnum árum. Fjárveitingar til stofnunarinnar hafa alls ekki nægt og enn hefur úrlausn þeirra mála ekki litið dagsins ljós . Ég er hissa á stöðunni og spyr sjálfa mig: Gæti það verið vegna þess að landlæknir hefur stundum lýst ástandinu í heilbrigðiskerfinu þannig að óþægilegt sé fyrir ráðandi öfl í landinu?

Það verður að segjast eins og er að stefna ríkisstjórnarinnar í fjáraukalögum virðist vera sú að skerða þjónustuna. Verði ekki brugðist við í þessu máli milli umræðna þá blasa við mikil vandræði.

Nú fara nokkrum orðum um þann kafla frv. sem fjallar um menntamál.

Þeir sem héldu að hæstv. ríkisstjórn ætlaði að framkvæma þá yfirlýstu stefnu beggja ríkisstjórnarflokkanna í góðærinu að bæta ástandið í menntamálunum hljóta að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með það fjárlagafrv. sem lagt var fram á haustdögum. Það hefur lengi verið áhyggjuefni þeirra sem bera menntun þjóðarinnar fyrir brjósti að fjárveitingar til menntamála eru mjög naumar hér á landi miðað við það sem tíðkast í nágrannalöndum. Minni hluti menntmn. Alþingis ítrekar í umsögn sinni til fjárln. að verið sé að reyna að halda úti skólakerfi fyrir allt of lítið fé miðað sambærileg lönd. Staðan í skólum hvort sem litið er til þjónustu við nemendur, atvinnulífsins eða launakjara kennara stenst engan veginn samanburð við þau lönd sem við berum okkur saman við samkvæmt t.d. síðustu matsskýrslu OECD. Ef íslensk stjórnvöld bregðst ekki við með því að stórauka fjármagn til menntamála er ástæða til að óttast alvarlega um samkeppnishæfni Íslands á komandi árum. Fjárveitingar til háskólastigsins koma verst út borið saman við önnur lönd í skýrslu OECD.

Bent skal á að þegar frv. til laga um háskóla hefur verið samþykkt hér á hinu háa Alþingi eins og margt bendir til að verði á næstu dögum má búast við vaxandi kröfum um fjárveitingar til allra skóla háskólastigi. Sams konar þróun erlendis bendir til að þeir háskólar sem verst eru settir hvað snertir rannsóknir og aðstöðu geri smám saman svipaðar kröfur og þeir sem besta aðstöðu hafa.

Háskóli Íslands hefur mikla sérstöðu meðal íslenskra skóla og fer ekki vel út úr fjárveitingum í fyrirliggjandi fjárlagafrv. Forsjármenn skólans hafa lagt fyrir fjárln. vel rökstuddar óskir um að fjárveitingar til stofnunarinnar verði hækkaðar um 230 millj. kr. frá því sem frv. til fjárlaga gerir ráð fyrir. Þar af verði launaliður einn sér hækkaður um 100 millj. vegna vanreiknaðra áhrifa launahækkana. Hækkun á launaliðnum hefur verið alfarið hafnað af ráðuneytinu. Telja þeir að áhrif launahækkana séu þegar reiknuð inn í fjárveitingar. En af þeim 131 millj. sem beðið var um voru 15 millj. til rannsóknarstarfsemi, til reksturs fasteigna 4 millj., til rannsóknarnáms 43 millj. og ritakaupasjóðs 20 millj. Þess í stað er aðeins lagt til að veittar verði 35 millj. í rannsóknarnám og 15 millj. til ritakaupasjóðs. Háskólinn á Akureyri fer fram á 70 millj. í viðbótarfjárveitingu en fær samtals 9 millj.

Kennaraháskólinn stendur nú á tímamótum. Til stendur að sameina hann þremur öðrum skólum sem færast þar með á háskólastig. Farið er fram á að fjárveiting til skólans verði hækkuð um 39,5 millj. kr. en hann fær 8 millj. Aðrir skólar fá svipaða afgreiðslu. Tækniskóli Íslands, sem lagði fram mjög vandað og rökstutt erindi þar sem farið er fram á að fjárveitingar til skólans verði hækkaðar um 66 millj. kr., fær 5 millj. frá því sem frv. gerir ráð fyrir. Auk þess er lagt til að skólans verði minnst við útdeilingu sérstaks stofnkostnaðarframlags upp á 15 millj. vegna fyrirhugaðra tækjakaupa.

[17:15]

Undanfarið hefur verið unnið að samningum við framhaldsskólana um nýtt kerfi til að beina fjárveitingum til skólanna. Ástæða er til að minna á að ef fjárveitingum til framhaldsskólanna er haldið niðri með þeim hætti sem fram kemur í þessu fjárlagafrv. þá vinnur tölvan aðeins úr því sem hún hefur úr að moða og vænkast hagur skólanna ekki við það eitt að taka upp nýjar úthlutunarreglur. Sá vandi verður heldur ekki leystur með því að taka upp fallskatt eða önnur skólagjöld. Ástæða er til að skoða fjárveitingu til framhaldsskólanna með tilliti til þess að nú er verið að framkvæma ný lög um framhaldsskóla í landinu.

Varðandi grunnskólastigið má minna á að fjölmörg sveitarfélög telja sig hafa borið skarðan hlut frá borði þegar grunnskólinn var færður yfir til sveitarfélaganna og er það álit minni hluta fjárln. að fara eigi yfir það dæmi upp á nýtt með tilliti til þess sem fram hefur komið um auknar kröfur til skólanna. En mesti vandinn sem blasir við grunnskólastiginu varðandi þann hluta sem ríkissjóður á að sjá um er hin alvarlega staða námsgagnagerðar fyrir þetta skólastig. Lengi hefur framlag ríkisins til námsgagnagerðar verið margfalt lægra en í nágrannalöndunum. En nú hefur það einnig farið hraðminnkandi miðað við hvern einstakan nemanda á grunnskólastigi eða frá því að vera 6.480 kr. á nemanda árið 1991 niður í 5.060 kr. á næsta ári. Á sama tíma eru gerðar kröfur um meira framboð og aukin gæði námsgagna og námsefnisformið tekur hröðum breytingum.

Námsgagnastofnun er ætlað lykilhlutverk á þessu sviði samkvæmt lögum og fór fram á mikla aukafjárveitingu til að geta betur sinnt endurnýjun námsefnis í náttúrufræðigreinum, undirbúningi og endurnýjun námsefnis vegna nýrrar námskrár og kynningar. Minni hlutinn ber fram tillögur um að komið verði til móts við þessa beiðni stofnunarinnar að hluta til.

Minni hlutinn telur einnig brýnt að Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála verði gert kleift að vinna úr gögnum sem liggja fyrir um rannsóknir á íslensku skólakerfi. Það er marklaust að vera með upphrópanir um gæði skólanna ef ekki fást fjármunir til að þær rannsóknaniðurstöður sem liggja fyrir nýtist við að bæta skólastarfið. Því miður er ekki gert ráð fyrir neinni viðbótarfjárveitingu hvorki til Námsgagnastofnunar né Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála nú við 2. umr. þótt þörfin sé brýn.

Breytingartillögur gera ráð fyrir 50 millj. kr. fjárframlagi til jöfnunar á námskostnaði og er það nokkur bót en dugir skammt fyrir þá nemendur sem bera mikinn aukakostnað vegna þess að þeir geta ekki stundað nám í sinni heimabyggð. Framlög til ýmissa menningarmála eru einnig skorin við nögl í frv. og það svo mjög að ástæða er til að hafa áhyggjur af að ýmsar stofnanir geti ekki sinnt því hlutverki sem gert er ráð fyrir. Má þar benda á Listasafn Íslands, Þjóðminjasafn Íslands og Þjóðskjalasafn. Slíkar stofnanir bera heldur skarðan hlut frá borði í fyrirliggjandi fjárlagafrv. Það ber að líta á fjárveitingar til menningarmála með það í huga að ýmislegt bendir til að fólk meti búsetuskilyrði ekki hvað síst með tilliti til þeirra möguleika sem gefast til þátttöku í menningu og listum.

Ég vil aðeins koma að Framkvæmdasjóði fatlaðra. Málefni fatlaðra á að flytja til sveitarfélaganna eftir rúmt ár og verður manni um og ó þegar litið er til þess hve gífurlega stór vandinn er og hversu ríkisvaldið dregur lappirnar í þessu máli í stað þess að leggja kapp á að skila af sér blómlegu búi í þessum málum til sveitarfélaganna. Enn á ný er í frv. gengið á markaðan tekjustofn Framkvæmdasjóðs fatlaðra þrátt fyrir að þörfin fyrir úrlausnir sé mjög brýn. Á þessu ári er ætlað að taka 235 millj. af tekjustofni framkvæmdasjóðsins. Minni hlutinn leggur til að 3. tölul. 6. gr. sem gerir ráð fyrir þessari skerðingu falli brott.

Nú vil ég aðeins fjalla um þann kafla frv. sem lýtur að landbúnaðarmálum.

Heildarútgjöld landbrn. fyrir árið 1998 eru áætluð um 8 milljarðar 632 millj. kr. á rekstrargruni. Þegar áætlaðar þjónustutekjur að fjárhæð 504 millj. hafa verið dregnar frá reynast heildargjöldin vera áætluð 8 milljarðar 128 millj. kr. Þar af koma rúmir 7 milljarðar úr ríkissjóði og 1,09 milljarðar með hlutdeild í ríkistekjum. Breytingar sem liggja fyrir við 2. umr. gera ráð fyrir að útgjöld ráðuneytisins hækki um 12,1 millj.

Minni hluti fjárln. telur miður að ríkisstjórnin sjái sér ekki fært nú í góðærinu að veita meira fjármagn til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins en raun ber vitni. Rannsóknastarfsemi RALA hefur á undanförnum árum á mörgum sviðum veitt lykil að auknum framförum í landbúnaði á Íslandi. Má nefna sem eitt dæmi að framfarir í kornrækt til fóðurgjafar á undanförnum árum sem gefa íslenskum bændum nú þegar nokkur sóknarfæri byggjast á niðurstöðum úr ræktunartilraunum á Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Margt fleira mætti telja fram sem dæmi um það stórmerka rannsóknastarf sem unnið er á Rannsóknastofnun landbúnaðarins.

Einnig mætti nefna mikil slys sem urðu á síðasta áratug þegar stórfé var veitt til uppbyggingar í fiskeldi og loðdýrarækt án þess að nægar forrannsóknir hefðu farið fram. Það hefur löngum gengið erfiðlega hér á landi að fá yfirvöld til að skilja að vísindarannsóknir borga sig. Þær gefa hreinlega beinharða peninga þegar til lengri tíma er litið. Í skammsýni hefur oft verið hlaupið yfir það stig og ætlað að spara í rannsóknum. Slíkt mun aldrei gefa góða raun.

Við erum heppnir með það, Íslendingar, að þrátt fyrir að ekki hafi verið búið að rannsóknum sem skyldi hér á landi þá eigum við marga vísindamenn á heimsmælikvarða og mörg þau verkefni sem hér hefur verið eða er verið að vinna að hafa vakið alþjóðlega athygli. Og mörg önnur eiga skilið og munu kannski fá miklu meiri athygli en þau hafa fengið hingað til. Má þar benda á rannsóknir og tilraunir með bóluefni gegn visnu í sauðfé. En það smitefni sem veldur henni er talið náskylt HIV-veirunni sem veldur alnæmi og sumir segja að sá árangur sem Margrét Guðnadóttir prófessor hefur náð með bólusetningu gegn visnu sé það lengsta sem komist hefur verið í heiminum áleiðis til þess að finna bóluefni gegn alnæmi.

Íslenska ríkið hefur þó ekki lagt mikið fé til þessara rannsókna af einhverjum ástæðum. Menn viðhafa fögur orð og fyrirheit á tyllidögum en þegar til kastanna kemur treysta ríkisstjórnir landsins enn varlega á að framfarir í vísindum verði í askana látnar eins og fjárveitingar til þessarar vísindastofnunar á Keldum er skýrt dæmi um.

Bændaskólarnir og Garðyrkjuskólinn á Reykjum eru heldur ekki of sælir af þeim framlögum sem þeim eru ætluð. Þó tók steininn úr þar sem í fjárlagafrv. hafði ekki verið gert ráð fyrir að ráðinn yrði tilraunastjóri í tilraunagróðurhús sem verið er að ljúka við að byggja á Reykjum. Heimild hafði verið veitt til að ráða mann sem kominn var hingað til lands frá Svíþjóð með allt sitt en þá var engin fjárveiting í fjárlagafrv. Úr því hefur nú sem betur fer verið bætt þar sem veitt er 2,5 millj. kr. í brtt. við 2. umr. til þessa liðs. Samkvæmt því sem forsvarsmenn skólans tjáðu fjárln. vantar samt enn töluvert fjármagn til að sá tilraunarekstur geti hafist.

Það mun vera samkvæmt samkomulagi við Bændasamtökin að lagt er til í frv. að framlag til þeirra hækki um 25 millj. kr. milli ára. Hækkunin skýrist af því að lagt er til að þær 89 millj. kr. sem verja skal til uppkaupa á fullvirðisrétti eða markaðsaðgerða samkvæmt núgildandi búvörusamningi verði veittar til jarðræktarframlaga og fleiri verkefna. Fróðlegt verður að fylgjast með hvert þessir peningar renna í raun. Landbn. Alþingis bendir á að þarna er einhliða verið að taka upp samning við sauðfjárbændur og nota fjármuni sem þeim eru ætlaðir samkvæmt samningnum til að leysa önnur uppsöfnuð vandamál. Þessi vandamál hefur í sjálfu sér dregist allt of lengi að leysa en erfitt er að sjá réttlætið í að þau séu leyst á kostnað sauðfjárbænda á sama tíma og ekki hefði verið vanþörf á sérstökum aðgerðum til styrktar þeim sem verst standa í þeirra hópi.

Það verður að teljast umdeilanlegt atriði að telja til tekna og gjalda ríkissjóðs þó að hann hafi innheimturéttinn --- Búnaðarsjóð upp á 187, lánasjóð upp á 147 millj. og Framleiðsluráð upp á 39 millj. kr. Þessir sjóðir eru fjármagnaðir með búnaðargjaldi sem er 2,65% á framleiðsluvörur landbúnaðarins og raunar má segja það sama um verðskerðingargjöld sem Framleiðsluráð innheimtir samkvæmt lögum, t.d. af útflutningi kindakjöts.

Að lokum skal minnt á að í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum er gert ráð fyrir að framlög til sérstaks átaksverkefnis til markaðssetningar og framleiðslu vistvænna og lífrænna afurða verði skert um helming frá því sem lög gera ráð fyrir. Verður að átelja þá vanþekkingu á mikilvægi slíks átaks til að lyfta undir nýjungar er til framfara horfa í landbúnaði sem þessi tillaga sýnir. Í engri grein landbúnaðar hefur orðið önnur eins aukning á eftirspurn eftir afurðum eins og í lífræna geiranum. Má nefna að í Bandaríkjunum jókst sala lífrænna afurða um 150% á síðustu 10 árum. Svipað hefur verið uppi á teningnum í Vestur-Evrópu. Þessar afurðir seljast að jafnaði á 20--30% hærra verði en hefðbundnar landbúnaðarafurðir svo til mikils er að vinna að sá hluti bænda, sem vill leggja á sig allar þær píslir sem fylgja því að skipta yfir í lífræna ræktun, fái einhvern stuðning bæði til að skipta um búlag og ekki síður til markaðssetningar. Ég undrast þá skammsýni sem lýsir sér í þessum tillögum sem koma fram í frv. Reyndar vil ég taka fram að fram hefur komið í umræðum í dag hjá hv. 2. þm. Austurl. og formanni fjárln., Jóni Kristjánssyni, að meiri hluti hv. fjárln. vill reyna að fá fram einhverja bót á þeim málum milli umræðna og er það vel og raunar þó fyrr hefði verið.

Ég ætla aðeins að fara örfáum orðum um kaflann sem lýtur að vegamálum. Í frv., nánar tiltekið í 6. gr. skerðingarákvæða, er lagt til að framlög til vegamála verði skert um 1 milljarð og 64 millj. sem muni renna beint í ríkissjóð af mörkuðum tekjustofnum til vegamála á komandi ári. Þetta þýðir að sú vegáætlun sem lá fyrir er þar með hrunin og hlýtur þessi ákvörðun að leiða til mikilla vandræða úti um land. Hún er sérstaklega undarleg í ljósi þeirrar umræðu sem hefur farið fram í landinu undanfarnar vikur vegna nýlegrar könnunar sem virðist sýna að sá fólksstraumur sem hefur verið úr dreifbýli til höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum muni halda áfram. Ein af höfuðástæðunum sem fólk gefur upp er ástandið í samgöngumálum á landsbyggðinni. Þessi ákvörðun hlýtur að vera mjög til vitnis um þann hug sem stjórnarflokkarnir bera til málefna dreifbýlisins á hinu háa Alþingi. Undrast nú ýmsir að þeir sem áður vildu láta líta á sig sem sérstaka málsvara dreifbýlis hér á hinu háa Alþingi og eru nú í ríkisstjórn skuli ekki bíta í skjaldarrendur og hnekkja þessari fyrirætlan.

Meiri hlutinn leggur fram á sérstöku þingskjali margar brtt. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1998. Njóta þær margar hverjar stuðnings okkar minnihlutamanna. Einnig flytjum við margar brtt. við frv. Við teljum að tekjuhlið frv. sé vanáætluð um 1--1,5 milljarða og munum auk þess flytja breytingar við tekjuhlið frv. við 3. umr. ef tillögur okkar um breytingar á gjaldahlið frv. verða samþykktar.