Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 17:36:05 (2056)

1997-12-12 17:36:05# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[17:36]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gleður mig eins og ég sagði áðan að hér liggur fyrir ótvíræð yfirlýsing frá hv. formanni fjárln. um að farið verði yfir launamáladæmið með forsvarsmönnum háskólans. Ég hef trú á að þeir hafi rök fyrir sínu máli með þær 100 millj. sem þeir telji sig vanta og það fáist niðurstaða í það mál sem allir geti vel við unað.

Mig langar aðeins að fara nokkrum orðum um það sem hann minntist á með reiknilíkan sem fyrirhugað er að taka upp til að reikna út nauðsynlegar fjárveitingar til háskólans hverju sinni. Ég veit að margir skólamenn binda afskaplega miklar vonir við þessi reiknilíkön. En ég vil ítreka það sem ég sagði í ræðu minni að slíkar tölvur moða aðeins úr því sem þær eru mataðar á. Það getur alveg eins verið að skólar, sem úthlutað er samkvæmt reiknilíkani, fari illa út úr fjárveitingum eins og þeir sem úthlutað yrði samkvæmt gömlu aðferðinni. Nú eru í meðferð Alþingis frv. til laga um háskóla. Ég ber mikinn ugg í brjósti þegar ég sé að skornar eru niður fjárveitingar til háskólans með þeim hætti sem hér er gert vegna þess að ég óttast að það verði til þess að farið verði að innheimta skólagjöld til að eiga fyrir útgjöldum í háskólanum. Sérstaklega er ástæða til að óttast það þar sem hæstv. menntmrh. hefur lýst sig samþykkan slíkum aðferðum. Ég held að það yrði mjög til hins verra í íslensku skólakerfi ef skólagjöld yrðu tekin upp. Varðandi ritakaupasjóðinn vil ég ítreka (Forseti hringir.) að ég er mjög ánægð með að framlagið til ritakaupasjóðs háskólans skyldi hækkað að þessu sinni.