Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 18:09:04 (2059)

1997-12-12 18:09:04# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[18:09]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins drepa á það sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sagði. Ég bendi á það að ég tel ástandið í heilbrigðismálunum vera vanda sem hefur ekki verið tekið á, eins og ég hef sagt áður, ekki bara á þessu kjörtímabili heldur árum eða áratugum saman. Ég hef fylgst með þessum málaflokki í 30 ár og mér finnst í eins og ég sagði í fyrrakvöld að við höfum verið að vinna eftir 30 ára gamalli umræðu og 25 ára gömlum lögum sem voru stefnumótandi fyrir ástandið sem ríkti í heilbrigðisþjónustu á þeim tíma, þ.e. fyrir 30 árum, en við höfum ekki tekið ferska aðlögun að því sem hefur verið að gerast á undanförnum árum. Ég er sammála því að Alþingi á að fá hlutlausar upplýsingar og ég efast ekki um að þessi ágæta ráðgjafarskrifstofa VSÓ hafi verið með réttar upplýsingar. En spurningin er sú, hvaða upplýsingar hafði hún ekki með höndum, hver hefur tilfinning hennar verið fyrir íslenskum markaði í heilbrigðisþjónustu og hvernig ætlum við Íslendingar að skoða möguleika á heilbrigðisþjónustu í framtíðinni, hvort við eigum fyrir utan eitt stórt sjúkrahús að reiða okkur eingöngu á nágrannasjúkrahús í nágrannalöndum. En ég ber fulla virðingu fyrir því starfi sem VSÓ hefur unnið og ég vil ekki að menn haldi að ég sé að níða það starf niður.

Ég ítreka það að mér finnst, eins og í mörgum öðrum málum á undanförnum árum og áratugum --- ekki bara í heilbrigðismálum heldur annars staðar --- að þingmenn mættu vera virkari og embættismenn hefðu kannski minna vægi í framsetningu mála.