Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 18:12:57 (2062)

1997-12-12 18:12:57# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[18:12]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér hafa farið fram ágætar umræður í tengslum við þetta frv. og eins í frv. til fjáraukalaga um heilbrigðismál og ég ætla að bæta nokkrum orðum þar við í framhaldi af þeim umræðum vegna nýrra upplýsinga sem ég fékk í dag frá Þjóðhagsstofnun um framlög til heilbrigðismála. Hv. formaður og hv. varaformaður fjárln. hafa haldið því fram að framlög til heilbrigðismála hafi stöðugt verið að hækka á undanförnum árum og hæstv. heilbrrh. fullyrti það reyndar líka. Ég var þá með fyrir framan mig tölur upp úr ritinu Þjóðarbúskapurinn þar sem sýnt er fram á að tölur voru að lækka til ársins 1996 og þá var fullyrt af talsmönnum ríkisstjórnarinnar --- ég man ekki alveg hverjir það voru --- að þær hefðu hækkað síðan, þ.e. 1997, og væru að hækka 1998. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk frá Þjóðhagsstofnun í dag er þetta ekki rétt.

Ef við skoðum heilbrigðismál staðvirkt á mann á verðlagi ársins 1996 þá náðu framlög hámarki á árinu 1991 þegar þau voru 129.200 kr. á mann á verðlagi ársins 1996. Á árinu 1997 eru þessi útgjöld 119.900 kr. Þau hafa lækkað í raunstærðum um verulegar fjárhæðir eða u.þ.b. 9% frá árinu 1991. Þetta er því gríðarleg lækkun. Er þessi lækkun öll í tíð hæstv. fyrrv. heilbrrh. Sighvats Björgvinssonar eða hefur þetta verið að gerast núna á síðustu árum? Svarið er: Veruleg lækkun átti sér stað í tíð hans en lækkunin hefur haldið áfram í tíð núv. hæstv. heilbrrh. og þá er ég ekki að tala um að heilbrigðismálin eigi að taka meira til sín. Ég er bara að tala um það að heilbrigðismálin fái það sama. Hafa þau fengið það sama? Nei, þau hafa fengið minna samkvæmt þessum nýju tölum frá Þjóðhagsstofnun sem mér bárust fyrir fáeinum klukkutímum.

[18:15]

Veruleikinn lítur þannig út að á árinu 1997 eru framlög til heilbrigðismála staðvirkt á mann í þús. kr. á verðlagi ársins 1996 komin niður fyrir það sem þau voru 1987. Árið 1987 voru þessi útgjöld 120.800 kr. á mann á verðlagi ársins 1996 en í ár 119.900 kr. Nú er við það að bæta til þess að vera 100% nákvæmur í þessu efni að þessar tölur eru miðaðar við fjárlög og fjáraukalagafrv. Frá því að það var flutt hefur verið bætt við upphæðum, að ég hygg, í kringum 500 millj. kr. Miðað við þær tölur er það væntanlega þannig að hverjar 500 milljónir eru u.þ.b. 0,5% í þessum stærðum sem ég er með hér. Á árinu 1997 er því samt sem áður þannig, þrátt fyrir þessa hækkun í fjáraukalagafrv., um að ræða lækkun frá árinu 1996. Það er því beinlínis rangt sem hæstv. heilbrrh. hefur haldið fram og talsmenn fjárln. örugglega vegna þess að þeir höfðu ekki annað í höndunum, að framlögin hafi verið að hækka. Þau hafa stöðugt verið að lækka í tíð núv. ríkisstjórnar og það er auðvitað einkar merkilegt með hliðsjón af því að það er Framsfl. sem fer með heilbrrn. og gagnrýndi mjög harkalega fyrrv. hæstv. heilbrrh. sem ég hygg að hafi verið tveir, ef ég man rétt, í síðustu ríkisstjórn.

Þetta eru alveg sláandi tölur. Það er ekki svo að menn séu að fara fram á að heilbrigðismálin auki við sig. Auðvitað er það alveg rétt sem allir hafa sagt hér að það verður að hafa stjórn á þeim málum. Það er líka hægt að halda því fram að heilbrigðismálin gætu að mörgu leyti verið ódýrari. Ég tel t.d. að yfirlæknastéttin á Íslandi sé þjóðfélaginu ákaflega dýr og vald hennar hrikalegt. Og þegar kemur að því að spara í heilbrigðismálum þá rekast menn gjarnan á þessa gangakeisara sem eiga ganga í spítölum og ráða þar lögum og lofum og enginn kemur neinum vörnum við, ekki heldur umboðsmenn skattgreiðenda sem við erum eða fulltrúar okkar. Veruleikinn er engu að síður sá að þessar tölur staðfesta það sem ég var að reyna að segja fyrir fáeinum dögum, að heilbrigðismálin eru enn þá hornreka í kerfinu. Það er alls staðar annars staðar stórhugur á Íslandi að því er margs konar uppbyggingu varðar. Heilbrigðismálin eru enn þá hornreka og það gengur ekki, herra forseti. Ég dreg þessar tölur fram vegna þess að ég held að það sé nauðsynlegt fyrir heilbrrn. að geta teflt þessum tölum fram andspænis fjmrn. eða fjárveitingavaldinu, fjárln. og okkur sem hér sitjum.

Þetta vildi ég nefna, herra forseti, og bæta svo öðru atriði við. Hver er hlutur heilbrigðismála? Hefur hann verið að vaxa eða minnka eða hvernig hefur það þróast í þjóðartekjunum? Þjóðhagsstofnun skoðaði það líka fyrir mig. Samkvæmt þeim gögnum sem nú liggja fyrir er niðurstaðan sú að útgjöld til heilbrigðismála árið 1996 voru 6,84% af vergri landsframleiðslu. Í ár eru þau 6,55% af vergri landsframleiðslu og á næsta ári samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru þau 6,53% af vergri landsframleiðslu. Ef inn í þetta væru teknar þær tölur sem nú liggja fyrir í brtt. meiri hluta fjárln. þá hygg ég að hægt sé að segja að hlutfallið á næsta ári yrði svipað og í ár. Það er ekki um hækkun að ræða á næsta ári en bæði árin, í ár og á næsta ári er um verulega lækkun í hlutfalli að ræða frá því sem var á síðasta ári. Sem sé, herra forseti, heilbrigðismálin hafa ekki haldið sínu frá þeim verulega hlutfallslega niðurskurði sem átti sér stað eftir 1991. Eins og sést á þessu grafi hér þá hafa þau ekki haldið sínu. Hlutfall þeirra hefur verið að lækka. Það er ekki skynsamlegt, sérstaklega þegar staðan er þannig núna að þjóðartekjur okkar á mann eru þær fimmtu hæstu í heimi. Ég hygg að það séu mjög mörg ár, kannski ein 12--14 ár, síðan Ísland var jafnofarlega á tekjuskalanum innan OECD. Við komumst hærra einu sinni eða tvisvar en það er mjög langt síðan við höfum verið þetta há. Þess vegna eru engin rök lengur fyrir því, hafi þau einhvern tíma verið til og sjálfsagt hafa þau einhvern tíma verið til, að halda heilbrigðismálunum eins mikið niðri og gert er enn þá.

Í öðru lagi er það svo þannig, herra forseti, að forsendur fjárlagafrv. og brtt. meiri hluta fjárln. standast ekki. Það er blekking sem hv. formaður fjárln., sá ágæti maður, hefur hér upp aftur og aftur, að þjónustan verði óbreytt á næsta ári með þessum peningum. Hún getur ekki verið óbreytt. Það getur ekki gerst vegna þess að það er ekki hægt að borga fyrir þá þjónustu að óbreyttu. Auðvitað geta menn verið að taka ákvörðun um að minnka þjónustuna og það er út af fyrir sig hlutur sem menn eiga þá bara að ræða. En þá eiga menn líka að segja satt og segja: ,,Við erum að minnka þjónustuna.`` Formaður hv. fjárln. segir hins vegar aftur og aftur: ,,Þjónustan verður óbreytt.`` En veruleikinn er sá að það getur ekki gerst. Veruleikinn er sá, herra forseti, að með þeirri afgreiðslu á heilbrigðismálunum í fjárlagafrv. núna er verið að taka ákvörðun um hvort skerða eigi þjónustuna, loka spítaladeildum og segja upp fólki eða að setja eins og milljarð inn í spítalana í aukafjárlögum á árinu 1998. Það er annað hvort sem verið er að gera. Ef það er vísvitandi svo að það sé síðari leiðin sem menn stefna á þá eru menn að blekkja sjálfa sig.

Að því er varðar fjárlagafrv. þá segir það ekki sannleikann. Það skilur eftir útistandandi í þjóðfélaginu útgjaldavanda upp á 1 eða 2 milljarða kr. að því er spítalana varðar og sennilega upp á á nokkur hundruð millj. kr. að því er menntakerfið varðar. Og það er dálítið umhugsunarefni þegar hv. formaður fjárln. segir svo áðan í andsvari við hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur að málefni háskólans verði skoðuð á næsta ári. Það er verið að segja af forustu fjárln. að ekkert sé að marka fjárlögin, það þurfi allt næsta ár að tína saman sprek hér og þar til þess að þau gangi upp og væntanlega að flytja síðan haustið 1998 fjáraukalagafrv. upp á fleiri milljarða króna.

Sjúkrahús Reykjavíkur hefur borið á góma nokkuð hér í sambandi við þessa umræðu. Þar hefur verið gefin út í dag greinargerð, sem send er öllum alþingismönnum, dagsett 12. des. 1997, og er býsna fróðleg. Þar er farið yfir allar tölur í þessu máli og rakið hvað í raun og veru vantar og svo segir hér að lokum, með leyfi forseta, um stöðuna á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Það er nákvæmlega það sama og ég var að segja fyrir nokkrum kvöldum. Það er þetta:

,,Þá liggur fyrir að í frumvarpi til fjárlaga vantar samanlagt til sjúkrahúsanna í Reykjavík 900 millj. kr. miðað við að rekstur 1998 verði sambærilegur við árið 1997.``

Þetta eru tölur sem við þekkjum, þ.e. að samanlagt á árinu 1998 þá vanti um 900 millj. kr. miðað við að reksturinn verði sambærilegur við það sem er á þessu ári. Síðan segir:

,,Fyrirsjáanlegt er að sjúkrahúsin í Reykjavík munu um komandi áramót standa frammi fyrir niðurskurði kostnaðar sem nemur a.m.k. þessari upphæð þar sem áætluð viðbótarfjárveiting í fjárlagafrumvarpinu og breytingatillögur meiri hlutans, 300 millj. kr. eða minna, þar sem mun hærri upphæð þarf til að mæta uppsöfnuðum halla. Ekki þarf að taka fram að slík kostnaðarlækkun hefur í för með sér stórfelldan niðurskurð á þjónustu. Fjárvöntunin sem snýr að Sjúkrahúsi Reykjavíkur mun leiða til þess að leggja þarf niður um það bil 100 sjúkrarúm af rúmum 500 rúmum spítalans og fækka ársverkum um u.þ.b. 200.``

Sjúkrahús Reykjavíkur segir með öðrum orðum að núna fyrir áramótin verði að segja upp um 200 manns og taka ákvörðun um að loka spítaladeildum með u.þ.b. 100 sjúkrarúmum, þ.e. fimmtungnum af öllum sjúkrarúmum Sjúkrahúss Reykjavíkur.

Það sjá það allir, herra forseti --- eða hvað? --- að þetta gengur ekki. Hér er einn talsmaður meiri hlutans í fjárln., varaformaðurinn og fleiri, en hann heiðrar okkur með nærveru sinni sem ég þakka sérstaklega. Það væri gaman að hafa t.d. heilbrrh. hér stundum sem hefur ekki sést í þessari umræðu. Þó snýst hún öll um heilbrigðismál. En heilbrrh. er ekki hérna. Ég spyr þá hv. varaformann fjárln. og aðra fulltrúa meiri hlutans sem hér eru: Gera þeir sér grein fyrir þessu? Geta þeir vefengt þessar tölur Sjúkrahúss Reykjavíkur að miðað við óbreytt framlög þýði frv. að loka þurfi deildum með 100 sjúkrarúmum frá og með áramótum og fækka ársverkum um 200? Ég stórefa það, herra forseti, að menn geti mótmælt þessu með rökum. Ef svo er þá er það gott, en þá vil ég heyra þau. Ég vil heyra þau rök meiri hlutans fyrir því að hann skuli ætla sér að bjóða spítölunum í Reykjavík upp á þessi ósköp sem verið er að gera tillögur um.

Síðan segir í greinargerð Sjúkrahúss Reykjavíkur sem mér barst áðan, með leyfi forseta:

,,Til viðbótar við ofangreinda fjárþörf vegna rekstrar sjúkrahúsanna í Reykjavík kemur skortur á fé til húsnæðiskaupa og tækjakaupa. Minnt er á ítrekaðar beiðnir Sjúkrahúss Reykjavíkur um fjárveitingar til þess að taka á alvarlegu ástandi húsnæðis og tækjabúnaðar sjúkrahússins. Á þeim vanda er hvorki tekið í frumvarpi til fjárlaga né í þeim áætlunum um breytingar á Alþingi sem frést hefur af.``

Með greinargerð Sjúkrahúss Reykjavíkur eru síðan birtar mjög fróðlegar töflur um fjárvöntun sjúkrahúsanna í Reykjavík á verðlagi hvers árs, sem ég vona að fjárlaganefndarmenn fái eða hafi fengið. Síðan er farið yfir málin með nokkuð ítarlegum samanburði til ársins 1990 þar sem kemur t.d. fram að talsvert mikið hefur sparast í sjúkrahúsrekstrinum á Reykjavíkursvæðinu. Það eru tölur sem ég ætla ekki að fara yfir. Síðan er birt hér niðurstaða, vaktaskýrsla af bráðavakt Sjúkrahúss Reykjavíkur 8. og 9. desember. Ég ætla að lesa niðurstöðuna, herra forseti, þar segir:

,,Að kvöldi þriðjudagsins er hjartadeildin yfirfull af fólki. Þar eru mörg rúm á gangi á deild A-7 og slysadeild er yfirfull, bæði sjúkravakt og gæsludeild.``

Í þessari skýrslu segir enn fremur um stöðuna á lyfjadeild, bara eftir þennan sólarhring milli 8. og 9. desember, með leyfi forseta:

,,Yfirfullt var á mánudeginum, bæði á A-6 og A-7. Um kvöldið voru þrír sjúklingar á gangi á A-7 og fjórir sjúklingar á gangi á A-6. Aðfaranótt þriðjudags þurfti að færa á milli sviða til að alvarleg teppa myndaðist ekki í húsinu og rétt tókst að afstýra því. Að kvöldi þriðjudags voru enn tveir mjög veikir sjúklingar á gangi A-7. Opnuð höfðu verið fjögur viðbótarrúm á gangi A-6 og mannað þar aukalega til að geta tekið við auknu álagi. Þetta kostaði tvær aukavaktir hjúkrunarfræðinga á allar vaktir frá mánudegi til þriðjudagskvölds. Með þessu tókst að afstýra algerri kreppu á lyflækningasviði.``

Hjartadeild var stútfull kl. 19 á þriðjudagskvöld, bæði almenni gangurinn og sjálf gjörgæslan. Gjörgæsludeildin var að öðru leyti í þokkalegu jafnvægi, fjórir inni á gjörgæslunni og verið að útskrifa af vöknun á deildirnar.

Skurðdeild, bæði deild A-5 og deild B-6 voru tæpt mannaðar á þriðjudagskvöldinu og nóttin leit þannig út á A-5 að þar yrði einungis einn hjúkrunarfræðingur og einn sjúkraliði á vakt. Á báðum deildum var aðeins eitt laust pláss.

Hér er um að ræða skýrslu sem send var hjúkrunarforstjóranum á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, Sigríði Snæbjörnsdóttur, 10. desember sl., þ.e. fyrir fáeinum sólarhringum og lýsir vakt hjúkrunarframkvæmdastjóra á Sjúkrahúsi Reykjavíkur eina nótt.

[18:30]

Þetta er engin skreytni, engin yfirborðsorð fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Þetta er ekki nógu gott, herra forseti. Það er alveg ástæðulaust að setja þetta mál þannig upp að hér séu menn að rífast hástöfum um þessa hluti milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég tel að málið snúist ekkert um það og að nauðsynlegt sé að rífa málið upp úr þeim farvegi. Ég er hundrað prósent sannfærður um að þessar hugmyndir um 300 millj. kr. aukalega á næsta ári undir stýrinefndinni duga ekki neitt. Ég lít á þessa umræðu fyrst og fremst þannig að við séum ekki með henni að ráðast á hæstv. heilbrrh. Ég lít þannig á að við séum að hjálpa hæstv. heilbrrh. Ég tel það vera skyldu mína sem stjórnarandstæðings í þessari umræðu að koma upplýsingum á framfæri ef það mætti verða til þess að rífa heilbrigðismálin aðeins upp úr þeim vanda sem hér blasir við. Ég tel reyndar líka að heilbrigðismálin gjaldi fyrir það að þau eru að sumu leyti rekin í bandalagi við aðra starfsemi sem er að nokkru leyti óskyld, þ.e. tryggingastarfsemina, sem tekur milljarðatugi. Og svo er alltaf sagt: ,,Heilbrrn. tekur 50 milljarða.`` En þannig er það ekki. Heilbrrn. tekur miklu minna en heilbrrn. Trmrn. er aftur á móti ellilífeyrisráðuneytið sem tekur til sín náttúrlega mjög mikla fjármuni þannig að ég held að að nokkru leyti sé heilbrrn. að gjalda fyrir þessar hræðilega háu tölur. Þær eru vissulega háar og við eigum að vanda okkur við að halda utan um það og ekki að hleypa þessu öllu af stað. En ég segi alveg eins og er, herra forseti: Ég mundi í sporum meiri hlutans sem ber á þessu ábyrgð hafa miklar áhyggjur af því sem verið er að leggja upp með vegna þess að ég tel að það sé allt of takmarkað.

Ég ætla þessu næst, herra forseti, að víkja í örstuttu máli að örfáum breytingartillögum sem ég flyt hér ásamt fleirum. Fyrst varðandi hjúkrunarmál aldraðra í Reykjavík þar sem ég geri tillögu um ákveðið upphafsátak. Það er auðvitað hluti af vanda sjúkrahúsanna. Á sjúkrahúsunum í Reykjavík eru núna 70 aldraðir sem ættu að vera á hjúkrunarheimilum samkvæmt nýjustu tölum frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur, 70 manns. Kostnaðurinn við að hafa þetta fólk inni á sjúkrahúsum er tvisvar sinnum hærri en að hafa það inni á hjúkrunarheimilum þannig að það er hrein peningasóun að hafa þetta eins og það er í dag. Ástæðan er einfaldlega sú að þetta fólk á hvergi höfði sínu að halla. Það eru ekki til hjúkrunarheimili og það er ekki aðstaða heima hjá þessu fólki. Það má segja að það sé til skammar hvernig þeim málum er háttað hjá okkur hér, sérstaklega á þéttbýlissvæðinu, og þess vegna flyt ég þessa tillögu um sérstakt átak að því er varðar hjúkrunarvanda aldraðra í Reykjavík. Ég tek það fram að flm. að þessari tillögu um hjúkrunarrými fyrir aldraða í Reykjavík er ásamt mér Kristinn H. Gunnarsson, 5. þm. Vestf.

Í annan stað ætla ég að nefna litla tillögu sem ég flyt um lítils háttar hækkun á framlaginu til samtakanna Heimili og skóli. Ég held satt að segja að það sé eitt það besta sem hefur gerst í menntamálum um langt skeið, þ.e. hvað þessi samtök hafa verið virk. Mér er auðvitað kunnugt um að oft hafa verið deilur og mismunandi sjónarmið annars vegar af þeirra hálfu og hins vegar af kennara hálfu. Mér finnst samt að það skipti miklu máli að foreldrarnir séu virkir í þessu efni og hafi áhuga á skólum. Foreldrar eiga að vera forvitnir um skóla og það á að kvitta fyrir það að þessi samtök eru til og þau hafa reynt að opna áhuga á skólastarfi í landinu.

Þá flyt ég ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur litla tillögu um lítils háttar hækkun á framlagi til Landssambands eldri borgara. Í brtt. meiri hlutans er gert ráð fyrir að veita í það 300 þús. kr. Tillaga okkar hv. þm., Margrétar Frímannsdóttur gengur út á að þetta verði 1,5 millj. kr., sem er nú ekki mikil upphæð satt að segja og ég fer fram á að hv. meiri hluti velti því fyrir sér hvort hægt er að skoða þau mál ögn betur.

Loks flyt ég ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur litla tillögu um lítils háttar framlag til undirbúnings íþróttahússbyggingar við Menntaskólann í Hamrahlíð. Samkvæmt munnlegum upplýsingum frá hv. formanni fjárln. mun það vera svo að sú upphæð sem inn á framhaldsskólastofnkostnaði er merkt Menntaskólinn í Hamrahlíð sé ætluð til íþróttahúss. Eða hvað? Með hliðsjón af því að það sé þannig sem ég vænti að verði staðfest, þá mundi ég draga tillöguna til baka. (Gripið fram í.) Hæstv. menntmrh. staðfestir það. Þar með kemur tillagan væntanlega ekki til atkvæða.

Hæstv. forseti. Ég hef hér farið aðallega yfir stöðuna í heilbrigðismálum og tel mig hafa sýnt fram á að heilbrigðismálin eru enn hornreka í þjóðfélaginu. Góðærið hefur gleymt heilbrigðismálunum en það kemur vonandi þangað líka. Ég hef lagt áherslu á að hér væri um að ræða verkefni sem við ættum að fara í að reyna að leysa saman. Ég hef sagt það og endurtek að ég er alveg sannfærður um að ef fjárlagafrv. verður afgreitt svona þá eru menn að biðja um milljarð á næsta ári í fjáraukalögum. Það er ekki skynsamlegt að fara þá leið. Það er miklu nær að horfa á hlutina eins og þeir eru og ganga í verkið. Ég veit það út af fyrir sig og ég get alveg skilið þau sjónarmið sem vafalaust eru að einhverju leyti uppi hjá meiri hlutanum, að það að setja peninga í þessa starfsemi eins og aðra án þess að á málum sé sérstaklega tekið á skipulegan hátt getur stundum orkað tvímælis. Ég held hins vegar að það sé alveg augljóst mál að stjórnvöld, ríkisstjórnin og heilbrrn., ráða ekkert við heilbrigðismálin eins og staðan er núna, bókstaflega ekki neitt. Þess vegna legg ég mikið kapp á og hef gert í þessari ræðu minni og um fjáraukalög að reyna að sýna fram á það hér að þetta er alvöruvandi. Þetta er ekki vandi til að pexa um heldur vandi til að leysa. Það er aðalatriðið.

Herra forseti. Ég vísa, að því er varðar menntamálin sérstaklega að lokum, til ræðu hv. 8. þm. Reykn. og einnig þess sem fram kom í ræðum talsmanna minni hlutans í hv. fjárln. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka minni hlutanum í fjárln. fyrir góðar ræður og gott nál. Ég vil einnig leyfa mér að þakka meiri hlutanum fyrir tvö atriði. Það eru annars vegar tillögur um að setja í gang sérstaka vinnu við að undirbúa það að minnst verði landafundanna. Ég vil einnig þakka sérstaklega fyrir það að í tillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir því að efla rannsóknir og framkvæmdir að því er varðar það framtak sem Dalamenn hafa sérstaklega beitt sér fyrir á Eiríksstöðum og jafnvel víðar í Dalasýslu til að minnast þess að Eiríkur rauði lagði af stað þaðan árið 986 eins og við vitum alveg nákvæmlega, væntanlega í júní. Ég veit ekki alveg hvenær. Fyrir þetta vil ég þakka því það á að þakka það sem vel er gert og ég vil þakka hv. meiri hluta fyrir það sérstaklega.

Aðalefni máls mín eru heilbrigðismálin og ég tel að þau séu mjög illa afgreidd enn þá og í stóralvarlegu ástandi og tel mig hafa sýnt fram á að þau eru enn þá hornreka í íslenska þjóðfélaginu.