Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 18:38:35 (2063)

1997-12-12 18:38:35# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[18:38]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki að það sé mjög frjó umræða um heilbrigðismálin að deila um það hver þróunin hafi verið í útgjöldum til heilbrigðismálanna og hversu hátt hlutfall af þjóðarútgjöldum þar sé um að ræða o.s.frv., heldur að aðalatriðið sé hvort þeir fjármunir sem við höfum til ráðstöfunar dugi og nýtist vel.

Hv. 8. þm. Reykv. spurði þeirrar spurningar hvort hægt væri að fullyrða að ekki yrði um lokanir að ræða hjá sjúkrahúsunum í Reykjavík ef ekkert yrði að gert og fjármunir ekki auknir frá því sem nú liggur fyrir. Ég treysti mér ekki til að fullyrða neitt um það. Auðvitað vekja athygli þær upplýsingar sem liggja fyrir í bréfi til okkar í dag frá forsvarsmönnum Sjúkrahúss Reykjavíkur. Að vísu eru margar af þeim upplýsingum sem þar eru reiddar fram upplýsingar sem hafa verið lagðar fyrir okkur þingmenn í fjárln. þannig að þær koma okkur ekkert á óvart.

En það sem ég vildi segja vegna ræðu hv. þm. er að samkvæmt fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir, þá er um að ræða hækkun á milli ára hjá Ríkisspítölunum um 9,8% og 6,5% hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Auk þess erum við að fjalla um frekari viðbætur inn í þennan rekstur. En það sem mér finnst aðalatriðið í þessu máli og snúa að okkur þingmönnum er að 12. sept. sl. skrifaði borgarstjórinn í Reykjavík ásamt heilbrrh. og fjmrh. undir samkomulag sem gerði ráð fyrir því að hægt yrði að taka á þessum málum og gert var ráð fyrir því að sérstök aukafjárveiting kæmi upp á 320 millj. kr. Ég geri þá kröfu til þessara aðila að þeir hafi áttað sig á því 12. september að það blasti ekki við að það þyrfti að loka í stórum stíl deildum á sjúkrahúsunum hérna í Reykjavík.