Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 18:50:19 (2071)

1997-12-12 18:50:19# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[18:50]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veitti því athygli að hv. 8. þm. Reykv. notaði mikið af tíma sínum hér til að ræða um vandamál heilbrigðisþjónustunnar. Hann var ekki fyrsti stjórnarandstöðuþingmaðurinn hér í dag sem fyrst og fremst talar um heilbrigðisþjónustu.

Sannleikurinn er sá, herra forseti, að það er náttúrlega minnstur vandi að nota óendanlega mikla peninga í þennan málaflokk og það er mjög til siðs við afgreiðslu fjárlaga að koma hér með yfirboð og segja: ,,Nei, þetta er ekki nóg. Það þarf meira hér og það þarf meira þar.`` Þetta er alveg rétt. Það er hægt að auka kostnað við heilbrigðisþjónustuna gríðarlega í þessu landi eins og öðrum. En staðreyndin er sú að við stöndum vel að vígi í heilbrigðismálum, betur en flestar aðrar þjóðir heims og við erum eins og allar aðrar þjóðir að reyna að halda utan um þessa hluti til að hafa jafnvægi á þessum málum. Við erum tiltölulega háir miðað við verga landsframleiðslu við notkun peninga í heilbrigðisþjónustuna.

Ég hef hins vegar tekið eftir því að heilbrigðisstéttir hafa gagnrýnt það mjög að það skorti langtímastefnumörkun í heilbrigðismálum. Ég held að það sé rétt. Og ég held að það sem Alþingi gæti gert í því væri að reyna að breyta þessari umræðu. Hún er yfirleitt alltaf einhvern veginn þannig að allt sé undir brot og slit. Ókunnugir gætu haldið að hér lægju sjúkir menn og sorgmæddir, slasaðir og illa farnir á vegum úti. Svo rosaleg er lýsingin á því þegar verið er að segja frá ástandi í heilbrigðismálum. Ég held að við gætum gert mikið gagn með því að hafa þessa umræðu miklu hlutlægari, reyna að átta okkur á því hvernig eigi að greiða þennan kostnað, hvernig við getum orðið til aðstoðar í því að gera enn betur því það er verið að gera vel á Íslandi. En eflaust er hægt að gera miklu betur og við eigum að hjálpa hinum góðu heilbrigðisstéttum með því að tala um þetta hlutlægt og reyna að átta okkur á því hvernig við getum orðið að liði.