Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 18:52:26 (2072)

1997-12-12 18:52:26# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[18:52]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú einmitt það sem umræðan hefur gengið hér út á að menn hafa verið að reyna að tala sig niður á hinn tölulega grundvöll. En hv. þm. tekur ekki þátt í því. Hann kemur hér inn eins og vígahnöttur og stekkur upp í ræðustólinn, ræðst að ræðumönnum fyrir málefnalegar ræður, upplýsingar um málin.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að ræðuhöld eins og hans hér áðan leysa engan vanda. Það er alveg á hreinu. Að bera mönnum ævinlega það á brýn að þeir séu með yfirboð þegar verið er að tala um vandann eins og hann er. Hver er hann? Hann er sá að hér á þessu svæði eru starfrækt sjúkrahús þar sem vantar, eins og fjárlagafrv. lítur út, í kringum 1--1,5 milljarða kr. ef þau eiga ekki að loka verulegum hluta af starfsemi sinni. Gerir þingmaðurinn sér grein fyrir því að ef hann stendur að frv. eins og það lítur út, þá er hann að segja: Það verður að henda fólki út af þessum sjúkrahúsum, bæði sjúklingum og starfsliði í stórum stíl á næsta ári. Það er þannig. Það liggur þannig. Það er ekki uppfinning vondra manna. Ég held að það sé nauðsynlegt líka, herra forseti, að átta sig á því að það er ekki þannig að Íslendingar séu háir miðað við landsframleiðslu á mann í útgjöldum til heilbrigðismála. Það er liðin tíð. Hv. þm. veit það kannski ekki að Íslendingar eru númer fimm í tekjum á mann innan OECD en sennilega númer tíu í útgjöldum til heilbrigðismála þannig að það er augljóst mál að heilbrigðismálin hafa dregist stórkostlega aftur úr. Ég skora á hv. þm. að setja sig inn í málin með skýrari hætti en mér fannst hann hafa gert hér áðan.