Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 21:48:48 (2079)

1997-12-12 21:48:48# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[21:48]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ekki nokkrar athugasemdir við það hverjir eru á einstöku hjúkrunarheimilum. Þessi þjónusta er mjög mikilvæg og auðvitað eiga vistmenn að vera þar sem þeir kjósa að vera. Hv. þm. leggur út af því að það séu svo mörg hjúkrunarheimili á Suðurlandi og á Vesturlandi og það sé ámælisvert að ekki séu mörg hjúkrunarheimilí í Reykjavík. Það kann vel að vera og ég veit um það raunar að þau eru of fá. Ég vil hins vegar vekja athygli hv. þm. á því að verið er að setja 300 millj. á þessu ári til viðbótar í rekstur hjúkrunarheimila sem er mjög mikilvægt og langstærstur hluti þess fer í hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að hér er mest fjölgunin. Hér hafa verið opnuð ný hjúkrunarheimili eins og í Skógarbæ og þess vegna er þetta svona.

Hins vegar eru gerðar heilmiklar kröfur til sveitarfélaga um dvalarheimili fyrir aldraða og þjónustu við aldraða og þess er að vænta að það öfluga samfélag sem hér er á höfuðborgarsvæðinu gangi e.t.v. feti framar en aðrir, ekki síst vegna þess að það hafa komið fjöldahreyfingar í lið með sveitarfélögunum hér á höfuðborgarsvæðinu, svo sem DAS, til þess að sinna þessu mikilvæga verkefni og gera það með miklum myndarbrag.