Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 22:06:09 (2089)

1997-12-12 22:06:09# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[22:06]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hv. fjárln. hefur fjallað um fjárlögin og að vanda er þar tekið á fjöldamörgum smáatriðum og hækka útgjöld ríkisins um 1,6 milljarða í meðförum hennar eða um 1% af niðurstöðutölu fjárlaga.

Ég gat þess í andsvari við hv. formann nefndarinnar fyrr í dag að ég teldi það ekki hlutverk löggjafarsamkundunnar að standa í þvílíkum framkvæmdum eins og brtt. nefndarinnar bera með sér. T.d. get ég ómögulegt séð að það sé hlutverk Alþingis að setja lög um að það eigi að setja 0,6 millj. kr. í landþurrkun á Suðurlandi. Þetta er hreint framkvæmdaratriði svo sem eins og margt annað, t.d. að ráða fólk og gera eitt og annað. Þetta er ekki hlutverk löggjafarsamkundunnar.

Í kjölfar þess sögðu nokkrir við mig að löggjafarsamkundan væri með fjárveitingavald og þetta væri hluti af fjárveitingavaldinu. Þá hafa menn illilega misskilið það hugtak eða alla vega hef ég misskilið það. Mér finnst nefnilega að löggjafarsamkundan eigi að setja framkvæmdarvaldinu markmið og veita henni fjármagn til þess að standa við þessi markmið og ef ekki er staðið við markmiðin, þá á löggjafarsamkundan að gera athugasemdir við framkvæmdina og ef illa tekst til að kjósa þá nýja ríkisstjórn eða velja nýja ríkisstjórn. Svona lít ég á samspilið. (SvG: Góð hugmynd út af fyrir sig að kjósa nýja ríkisstjórn.) En það virðist komið í tísku hérna að löggjafarvaldið er á bólakafi í framkvæmdum og framkvæmdarvaldið er á bólakafi í að setja lög því að þeir dæla til okkar lögum, ráðherrarnir, sem við eigum að endurskoða og samþykkja. Stundum megum við ekki breyta stafkrók, sérstaklega þegar ASÍ eða Vinnuveitendasambandið hafa staðið að samningu viðkomandi lagafrv.

Þetta er svona svipað og ef maður sendir ungling í skóla. Landsbyggðarþingmenn þekkja það eflaust. Unglingur er sendur í skóla og hann fær ákveðna fjárveitingu í hverjum mánuði. En það er ekki þar með sagt að honum sé sagt að hann eigi að fara þrisvar í bíó og kaupa svo og svo mikið af karamellum. Ó nei. Hann á að skila þeim markmiðum sem sett eru til náms, þ.e. koma heim með próf og standa sig vel í námi og fara ekki í sollinn. Það er það sem foreldrarnir leggja honum til sem veganesti. En þeir eru ekki að standa í því að kássast upp á með einstök framkvæmdaratriði, hvernig hann fer að því að ná þessum markmiðum.

Það er svo líka önnur saga að um leið og löggjafinn fer að standa í framkvæmdum, þá ber framkvæmdaaðilinn ekki ábyrgð á viðkomandi framkvæmd. Þegar löggjafarvaldið fer að skipta sér of mikið t.d. af heilbrigðismálum og setja reddingar hér og þar, þá ber ríkisstjórnin ekki lengur ábyrgð á þeim málum. Það leiðir af sjálfu sér að of mikil afskipti löggjafarvaldsins draga úr ábyrgð framkvæmdarvaldsins. Það þýðir ekkert fyrir alþingismenn að spyrja: Af hverju er framkvæmdin svona þegar þeir hafa ákveðið það sjálfir? Þetta kom einmitt fram í umræðunni áðan, þ.e. að það er formaður fjárln. sem stendur hér og svarar fyrir alls konar gerðir sem í reynd eru gerðir framkvæmdarvaldsins.

Herra forseti. Hver er stefna fjárln.? Hver er stefna fjárveitingavaldsins, þ.e. Alþingis? Hvar viljum við setja okkar peninga? Hvernig sjáum við þjóðfélag okkar eftir 20--40 ár? Hvað á t.d. að setja mikið í menntamál? Hvað á t.d. að setja mikið í heilbrigðismál? Hver er það í rauninni sem ræður þessu, herra forseti? Það eru þeir sem fara fram úr fjárlögum. Þeir ráða því. Þeir sem fara fram úr fjárlögum ráða því hvað fjárveitingavaldið setur mikla peninga í viðkomandi verkefni. Það er engin stefna. Það er ekki sagt: Við ætlum að mennta þjóðina því að það er mikilvægt fyrir þjóðina í framtíðinni að hún sé vel menntuð. Það er ekki sagt. Það er heldur ekki sagt að við viljum setja svona mikla peninga í heilbrigðismál og ekki krónu meir. Það er ekki sagt, heldur er sagt: Það er svo og svo mikil þörf þarna megin og þess vegna skal settur meiri peningur í það. En stefnan er engin.

Ég held að það sé mjög hættulegt fyrir þjóðina ef hún missir allt sitt besta fólk úr landi eða á kannski ekkert gott fólk af því að það er allt ómenntað, en allir eru voðalega heilbrigðir.

Herra forseti. Í fjárlagafrv. og í umfjöllun fjárln. vantar lífeyrisskuldbindingar að miklu leyti. Þær hafa vaxið óðfluga og það er tekin sú stefna að hækkun lífeyrisskuldbindinga vegna launahækkana og vegna verðlags skuli fært yfir á efnahagsreikning eins og hjá fyrirtækjum en áunnin hækkun skuli færð til gjalda, 3,8 milljarðar af 10,5. Það eru ákveðin rök fyrir þessu. En þá þurfa menn líka að skoða ávöxtunarkröfuna sem notuð er við útreikningana á lífeyrisskuldbindingunum. Þar er gert ráð fyrir 2% í dag. En þar sem launin hækka miklu meira en verðlag þessa stundina, þá er sú ávöxtunarkrafa orðin mjög hæpin og það þyrfti hugsanlegt að lækka hana niður í 1% eða jafnvel niður í 0% og þá stóraukast skuldbindingarnar þannig að menn þurfa að hafa samræmi þarna á. Auk þess var nýlega gerður kjarasamningur við kennara sem eykur þessa skuldbindingu ríkissjóðs. Þó að kennarar semji við sveitarfélögin, aukast skuldbindingar ríkissjóðs um 7,5 milljarða á samningstímanum. Og það liggur fyrir hvernig þetta verður þannig að skuldbindingin er þegar fallin til. Og þetta er ekki inni í fjárlagafrv. Þetta hefur ekkert verið rætt í fjárln. Mér finnst mjög brýnt að Alþingi átti sig á þeim gífurlegu lífeyrisskuldbindingum sem eru að hrannast upp við sjóndeildarhringinn og fara vaxandi.

Herra forseti. Eitt sinn vann ég hjá Síldarverksmiðjum ríkisins og þá var viðkvæðið alltaf hreint ef maður var að slugsa í vinnunni: ,,Þetta er allt í lagi, ríkið borgar.`` Þetta var mjög ríkt hjá fólki. Ég var þarna unglingur og ég fór að velta fyrir mér, herra forseti, hvað þetta þýddi eiginlega, hvað þetta ríki væri, guð almáttugur eða eitthvað svoleiðis. Eftir smátíma og nokkra umhugsun og yfirlegu þá áttaði ég mig á því að ríkið væri ekkert annað en ég og allir hinir Íslendingarnir þannig að menn voru alltaf að segja að ég ætti að borga, ég og allir hinir. Þetta er ákaflega ríkt með mönnum, jafnvel enn í dag, að það er ríkið sem á borga. Það er einhver svona guð almáttugur. Stundum er hann óskiljanlega nískur eins og menn heyra hérna á ræðum þingmanna. Hann vill ekki gera þetta og hitt, góð mál, allt góð mál. En stundum er þetta ríki örlátt og það er hægt að láta það gera hitt og þetta fyrir mann. En hver er þetta ríki? Það eru að sjálfsögðu við.

Mér finnst ánægjulegt að það er í vaxandi mæli farið að skína í gegn hjá hv. þm. að ekki sé hægt að reka ríkissjóð eins og einhverja óþekkta stærð, hann verði að skila afgangi, það sé ekki hægt að reka hann með halla. Þetta er að koma í ljós. Og þrátt fyrir það að hér rigni núna inn --- ég hef ekki haldið tölu á því -- öllum breytingartillögunum sem allar eru til þess að auka útgjöld, allar, hver einasta, þá heyri ég sífellt meira í gegn að menn vilja samt hafa ríkissjóð góðan, þ.e. hallalausan.

Staða ríkissjóðs hefur batnað mjög mikið á undangengnum árum, verulega mikið og það er mikið ánægjuefni og ber að þakka hæstv. fjmrh. það, þó að hann sé nú ekki viðstaddur umræðuna, og hugsanlega fjárln. að einhverju leyti. Við skulum gera okkur grein fyrir því, hv. þingmenn, að það er mjög erfitt að standa á bremsunni þegar vel gengur. Það þarf mjög sterk bein til að þola góða daga. Það má kannski segja að það sé afrek að ná ríkissjóði hallalausum. Hins vegar lít ég þannig á að eins og dæmið er lagt fyrir okkur núna, þá séu fjármál ríkisins, fjárlögin, algjörlega óviðunandi. Nú er mikið góðæri. Það gengur vel. Ríkið ætlar að selja eignir fyrir nærri 2 milljarða og samt er kominn 1 milljarður í halla. Reyndar á eftir að taka tekjurnar inn sem hugsanlega bæta þetta eitthvað, en samt mun afgangi fjárlaga verða haldið uppi með sölu ríkisfyrirtækja eða ríkiseigna og það er ekki nægilega gott.

[22:15]

Hvað er hægt að gera? Það er hægt að draga saman útgjöld eða auka tekjur. Ég held að það að auka tekjur sé ákaflega hæpið vegna þess að Ísland er komið í samkeppni við erlend lönd um vinnuafl, um unga fólkið okkar og við verðum að fara að huga að því að við getum ekki rekið ríkissjóð með halla og myndað miklar vaxtagreiðslur. Nú má segja að nánast allur tekjuskattur einstaklinga fari í að borga vexti af skuldum ríkissjóðs, þ.e. halla ríkissjóðs undangenginna ára. Þetta finnst mér ekki ganga upp. Við megum ekki hegða okkur svona gagnvart unga fólkinu. Við megum ekki hegða okkur svona gagnvart framtíðinni. Að sjálfsögðu verðum við að ná því marki að reka ríkissjóð hallalausan og án þess að selja eignir. Það ætti að vera markmið okkar.

Herra forseti. Það er oft munur á því að skilja og trúa. Menn skilja það að ekki má reka ríkissjóð með halla en þeir trúa því ekki. Menn skilja að það sé ekki í lagi að safna erlendum skuldum en menn trúa því ekki og þeir vinna öðruvísi, þeir hugsa öðruvísi. Þeir gera sífelldar kröfur á ríkissjóð án þess að átta sig á því að þeir séu um leið að krefjast þess að ríkissjóður sé rekinn með halla. Þetta þurfa hv. þm. að hafa í huga þegar kemur að afgreiðslu fjárlagafrv. (Gripið fram í: Ætlarðu að standa að því?) Já, ég mun standa að fjárlagafrv., hv. þm. vegna þess að ... (Gripið fram í: Ertu á móti öllu?) Herra forseti. Það er verið að þúa mig hérna.

(Forseti (GÁ): Forseti biður um hljóð í þingsal.)

Eins og ég gat um, herra forseti, þá er munurinn að skilja og trúa sá að menn geta skilið hlutina og vitað að ekki megi gera þetta og hitt en þeir trúa því ekki og hegða sér ekki í samræmi við það. Ég held að það sé mjög mikilvægt að á milli 2. og 3. umr. taki fjárln. sig til og reyni eins og hún mögulega getur að skera enn frekar niður.

Það er eitt sem ég vilda hafa rætt, herra forseti, og það eru opinberar framkvæmdir. Nú eru geysilega miklar framkvæmdir í gangi í landinu, erlendar fjárfestingar í stórum stíl og það er fyrirséð, það er vitað, hvenær þær eru búnar. Það verður árið 1999 sem þessar framkvæmdir klárast. Og hvað þá? Á sama tíma erum við með óbreytta framkvæmd ríkissjóðs bæði í vegamálum og flugmálum og í nánast öllum málum alls staðar. Þar er ríkið að keppa við þessar framkvæmdir í orkuverum og að sjálfsögðu er mannskapurinn kátur. Fólk er ráðið og vélar keyptar og allt fer á fleygiferð og það fer að vanta fólk og það er skortur á fólki. En hvað gerist árið 2000? Þá sitja verktakarnir uppi með allt of stóran vélakost, of mikinn mannskap og allt í einu kemur atvinnuleysi. Ég hefði gaman af að vita hvort þetta hafi verið rætt í fjárln. Hvort menn hafi ekki hugað að því að taka svo sem eins og helminginn af vegáætluninni og flytja hana til ársins 2000, bara eitilharðir og kaldir og sagt: Það er þjóðhagsleg nauðsyn að taka hluta af framkvæmdunum á næsta ári og flytja til ársins 2000 vegna þess að þá vantar framkvæmdir. Ég get ekki séð að þá verði komið nýtt álver til að fylla upp í þetta gat. Það er því ákaflega óskynsamlega hvernig að málum er staðið með framkvæmdagleði ríkis og sveitarfélaga. Menn keppast við að framkvæma núna í samkeppni við þá erlendu aðila sem eru að fjárfesta hérna. Ég ætla ekki að nefna þær framkvæmdir sem eru í gangi. Þær eru svo margar að ég kæmist ekki yfir það. En árið 2000 er ekki neitt og hvað ætla hv. þm. að gera þá?