Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 22:20:18 (2090)

1997-12-12 22:20:18# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[22:20]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. ræddi afskipti löggjafarvalds af framkvæmdarvaldi og afskipti framkvæmdarvalds af löggjafarvaldi. Við höfum heyrt þetta allt áður frá hv. þm. en þessi málflutningur hans er nú orðinn, satt best að segja, herra forseti, nokkuð þreytandi einfaldlega vegna þess að hann er hluti af ríkisstjórnarmeirihlutanum. Alþingi fer með fjárveitingavaldið og ég vil gjarnan fá að vita, herra forseti, hvar tillögur og áherslur þingmannins eru. Vill hann verja minna til menntamála? Vill hann verja minna til heilbrigðismála? Mun hann leggja fram tillögu um niðurskurð til vegamála upp á 3,5 milljarða, eins og hann sagði hér áðan? Kemur fram tillaga til atkvæðagreiðslu á morgun um það? Stendur hv. þm. einhvern tíma við þau orð sem hann segir hér í þessum ræðustól? Það er ósköp gott fyrir Sjálfstfl. að flagga hv. þm. Pétri H. Blöndal hér öðru hvoru, svona í stjórnarandstöðu, þ.e. manninum sem greiðir atkvæði í nær hverju einasta máli með ríkisstjórninni. Þá er betra að hv. þm. segi sig í andstöðu við ríkisstjórnina. Ég fagna því ef hann vill standa að því með okkur að bera fram vantraust á ríkisstjórnina eins og hann ræddi hér um að ætti gera ef hún stæði sig ekki í stykkinu varðandi eftirlit með ýmsum þáttum. Hann tekur oft dæmi um það að víða sé pottur brotinn. Ég býð hann velkominn að skrifa upp á tillögu með okkur stjórnarandstæðingum um það efni. Maður verður að láta margt yfir sig ganga og allt í lagi með það í pólitískri umræðu en ég er satt best að segja, herra forseti, búinn að fá dálítið nóg af þessum málflutningi hv. þm. þó svo ég virði skoðanir hans mjög mikið og hafi átt við hann gott samstarf. En þetta er ekki mjög uppbyggilegur og heiðarlegur málflutningur sem hér er hafður í frammi.