Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 22:24:02 (2092)

1997-12-12 22:24:02# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[22:24]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert sérstaklega málefnaleg umræða þegar einn þingmaður kemur og gagnrýnir Alþingi sjálft fyrir vinnubrögð. Hv. þm. er hluti af stjórnarliðinu. Hann á að láta skoðanir sínar koma þannig fram að þær endurspeglist í stjórnarstefnunni. Það væru hin réttu vinnubrögð. Hann segist gagnrýna Alþingi fyrir vinnubrögð við fjárlagagerð. Ég bendi á hina merku löggjöf um fjárreiður ríkisins sem við stóðum reyndar öll sameiginlega að og er mjög mikil endurbót á vinnu varðandi fjárlög ríkisins. Mér finnst þetta ekkert sanngjarn málflutningur. Hv. þm. talar hér um að hann vilji menntatillögur og tölvutillögur. Gott og vel. Þá kemur í ljós í fyrramálið hvernig hann greiðir atkvæði með tillögum okkar stjórnarandstæðinga sem eru um það að auka fjárveitingar til háskólans, sérstaklega til tölvumála, eyrnamerkt í anda þingmannsins. Sjáum nú á morgun hvernig hann greiðir atkvæði, hvort hann greiðir atkvæði með stjórninni eða með stjórnarandstæðingunum, eftir sannfæringu sinni eða gerir eins og hann gerir hvað eftir annað, að hopa frá málinu eftir að hafa gagnrýnt það eins yfirborðskennt og honum hættir til í þessum ræðustól.