Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 23:23:24 (2097)

1997-12-12 23:23:24# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[23:23]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þau tvö nefndarálit sem eru einkum til umræðu, álit meiri hluta og minni hluta, og breytingartillögur meiri hluta fjárln. sýna okkur eina mjög athyglisverða staðreynd. Breytingartillögur meiri hluta fjárln. eru upp á 1,6 milljarða sem er um það bil 1% af fjárlögunum. Þessi tala er ekki óalgang í meðförum þingsins, að það stendur eftir 99% af fjárlagafrv. eins og það er lagt fram. Það eru gerðar óverulegar breytingar í meðförum þingsins þótt nokkrar tilfærslur séu auk þessarar upphæðar.

Meginefni frv. er að það verði afgreitt með hálfs milljarðs kr. afgangi samkvæmt frv. en eftir 2. umr. verður hallinn væntanlega um einn milljarður. Síðan verður endurmetin tekjuáætlun, ekki verða lagðir á neinir nýir skattar að því er ég best veit, og hin endurmetna tekjuáætlun skilar væntanlega í kringum 1,5 milljörðum. Við erum því komnir aftur með upphafsstöðuna, afgang upp á hálfan milljarð. Þessi hálfi milljarður er fenginn þannig að meginhluti þeirrar upphæðar er vegna eignasölu en látum það nú vera. En það er ljóst af þessu, herra forseti, að fjárlagaafgreiðsla okkar og kannski fjárlagagerðin er ekkert sérstaklega markverð áætlun. Hún er að vísu mun betri en var á árum áður en samt sem áður er nokkurt áhyggjuefni að Alþingi kemur ekki í reynd mjög mikið að þessum heildarstærðum heldur fyrst og fremst framkvæmdarvaldið í formi frv. eins og það er lagt fram.

Ég sé sérstaka ástæðu til þess að draga þetta fram vegna þess að við viljum oft gleyma því að við 2. umr. fjárlaga eigum við að líta einkum til frv. sjálfs, stefnunnar sem er í því en ekki að gera að meginatriði, þó að merkilegar séu, breytingartillögur meiri hluta fjárln. Við megum ekki missa sjónar af því hvað fjárlagafrv. hefur raunverulega í för með sér.

Að mínu mati er ekki um að ræða góð fjárlög sem hér verða afgreidd og þau eru ekki skynsamleg í þeirri hagsveiflu sem við búum við núna. Ég hugsa að flestir hagfræðingar sem vilja leggja mat á þessa stöðu þjóðarbúsins og skoða fjárlögin væru sammála mér í því að fjárlögin ættu við þessar aðstæður að líta öðruvísi út. Þau ættu að vinna betur gegn þeirri þenslu sem er núna í hagkerfinu. Þetta er allt saman matsatriði en þessi fjárlög bera þess glöggt vitni að ekki eru mjög föst tök á efnahagsstjórnuninni og þótt á ábyrgð ríkisstjórnar sé eru þetta ekki óalgeng vinnubrögð hjá okkur þó að ytri aðstæður séu okkur hagstæðar.

Hins vegar er ýmislegt sem er áhyggjuefni í þessari stöðu og birtist í fjárlagafrv. og fjárlögunum, einkum skuldasöfnun heimilanna og mjög mikill viðskiptahalli. Viðskiptahallinn leiðir til erlendrar skuldaaukningar og þetta fjárlagafrv. og afgreiðsla meiri hluta fjárln. breytir engu um að sett verður á næsta ári nýtt met í erlendum skuldum þjóðarbúsins. Þetta er áhyggjuefni og þetta þyrfti að draga mun skýrar fram í stjórnmálaumræðunni.

Því er sömuleiðis ekki haldið nægjanlega til haga við erum með tiltölulega lítil opinber umsvif hér á landi sem endurspeglast í miklum kerfisvanda, einkum á tveimur sviðum sem hér hafa verið gerð að umtalsefni, þ.e. í menntamálum og velferðarmálum.

Það er mjög athyglisvert, herra forseti, að skoða tölur yfir útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Norðurlöndum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, þ.e. hversu mikið við verjum af verðmætasköpuninni í þessa málaflokka. Þá kemur í ljós að við þyrftum að tvöfalda útgjöld okkar eða framlög til aldraðra og öryrkja. Þessi tvöföldun þýddi um það bil 30 milljarða kr. aukningu í þennan málaflokk. Sömuleiðis þyrfti að hækka fjárveitingar um eina 8 milljarða til fjölskyldna og barnafólks til að við værum sambærilegir við hin Norðurlöndin. Nú þarf að hafa í huga að velferðarkerfið og félagskerfið á Norðurlöndunum er mun umfangsmeira en hér á landi en þetta segir okkur samt að við erum töluvert fyrir neðan þá almennu velferð sem við berum okkur oft saman við.

Ég vil vera sanngjarn í þessari ræðu og geta þess að útgjöld okkar til heilbrigðismála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru mjög svipuð og á hinum Norðurlöndunum. Það er dálítið athyglisvert miðað við þá umræðu sem hér hefur verið, en dregur samt vegna þess að heilbrigðismálin okkar eru ekki í góðu lagi, en það er e.t.v. fyrst og fremst vegna þess að áherslur okkar í heilbrigðismálum eru ekki réttar. Við höfum til að mynda mjög dýra öldrunarþjónustu hér á landi borið saman við nágrannalöndin. Við erum greinilega með rangt upp byggt kerfi á mörgum sviðum í heilbrigðismálum okkar og höfum ekki borið gæfu til að vinna úr því. Þetta hefur verið gagnrýnt harðlega í umræðunni, ekki einungis af stjórnarandstæðingum okkar en ég vil þó nefna hvassa og málefnalega gagnrýni af hálfu jafnaðarþingmannanna Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur og Össurar Skarphéðinssonar. Ég vil einnig draga fram ályktanir og málflutning hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur sem er að því er ég best veit, herra forseti, eini þingmaðurinn sem er sérmenntaður á sviði sjúkrahúsrekstrar og hún kallaði fyrst og fremst eftir stefnumarkandi umræðu um heilbrigðismál og ég tek undir það.

[23:30]

Það verður sömuleiðis að draga fram, og endurspeglar það á engan hátt í tillögum meiri hluta fjárln., þá staðreynd að íslenskt fyrirtækjaumhverfi býr við mikla skattaparadís. Skattar fyrirtækja eða framlag fyrirtækja til sameiginlegra þarfa eða útgjalda eru minni hér á landi en annars staðar. Ríkisstjórnin hefur kosið þá stefnu að hafa mjög lága skatta á fyrirtæki og vonast til að hagvöxtur og aukin atvinna vinnist upp með því. Það er rétt að sumu leyti en að sumu leyti er það líka rangt vegna þess að þær skattaívilnanir og skattafslættir sem eru í íslensku hagkerfi meira en er annars staðar skekkja í reynd samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að við búum við margvíslega veikleika í atvinnurekstrinum, sem kemur m.a. fram í lítilli framleiðni fyrirtækja, mjög löngum vinnutíma, litlum framlögum til rannsóknar- og þróunarmála og mikilli fákeppni. Reyndar er skýring á fákeppninni að hluta til vegna smæðar markaða. En allt þetta dregur sig saman í það að við höfum ekki búið atvinnufyrirtækjunum þau ströngu skilyrði sem samkeppnin og markaðskerfið hefur búið fyrirtækjum í nágrannalöndunum. Við eigum að hafa áhyggjur af þessu vegna þess að ekki er hægt að sætta sig við að almenningur í landinu verði að vinna yfir 30% lengri vinnutíma til að hafa sambærileg lífskjör og eru í nágrannalöndunum og síðan auka við skuldir sínar til að framfleyta sér í uppsveiflu. Í hagkerfinu er að mörgu leyti rangt gefið hvað þennan þátt varðar en þetta er ekkert annað en stjórnarstefnan sem ég er andvígur sem endurspeglast þarna mjög skýrt.

Annar þáttur sem við höfum dregist aftur úr í hefur verið gerður að umtalsefni og er ekki tekið á með neinum sómasamlegum tillögum í tillögum meiri hluta fjárln. eru menntamálin. Það vantar u.þ.b. 10 milljarða til að við stöndum jafnfætis nágrannalöndunum hvað þann þátt varðar. Ég er nú ekki að biðja um þá alla, einn, tveir og þrír, en samt sem áður sýnir þessi stærðargráða okkur hvað við höfum dregist aftur úr. Ungt fólk mun hverfa héðan meira til útlanda á næstu árum ef ekki verður brugðist við. Við sjáum að það hefði þurft að leggja meira í þennan þátt en gert er, sérstaklega hvað varðar æðri menntun og tæknikennslu.

Ég vil þó geta sérstaklega um einn merkan áfanga í menntakerfi okkar vegna þess að hann var að gerast í dag. Ég sé ástæðu til þess, herra forseti, að nota aðeins af tíma mínum til að fjalla um það. Það er stofnun viðskiptaháskóla sem ég tel að hafi verið mjög merkur áfangi í menntakerfi okkar og ég flyt hamingjuóskir mínar úr þessum ræðustól til aðstandenda þess skóla. Ég er sannfærður um að þetta mun skapa hér fjölbreytni í vali nemenda í menntamálum og það er mikil þörf fyrir viðskiptamenntaða einstaklinga. Mér er málið nokkuð skylt þar sem ég er, reyndar í leyfi, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og þekki slíka kennslu og menntun þannig nokkuð af eigin raun. Ég tel þetta mjög jákvætt skref sem þarna hefur verið stigið. Ég vil hins vegar vekja athygli á því og það á að vekja til umhugsunar að ríkisvaldið greiðir allt þetta skólastarf, sama hvort það er nýr skóli og hvort hann er rekinn af sjálfseignarstofnunum eða í ríkisstofnunarfarvegi eins og Háskóli Íslands er. Þá er nokkuð athyglisvert að bera það saman sem skólastjóri hins nýja skóla sagði í sjónvarpi í kvöld að kostnaður ríkisins á hvern nemanda mundi nema u.þ.b. 300 þús. kr. Nú þekki ég nefnilega tölurnar á hvern nemanda í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og þar eru útgjöld ríkisins 120 þúsund á ári. Það er því gert ráð fyrir að hinn nýi skóli fái meira en 2,5 sinnum meira framlag úr ríkissjóði til að mennta nemendur sína. Ég á vitaskuld von á því að þetta leiði til þess að fjárveitingar til einmitt þessa hefðbundna viðskiptafræðináms við Háskóla Íslands muni væntanlega aukast auk þess sem samkeppni á þessu sviði knýr fram betri rekstur hjá báðum aðilum og ég lít á þetta sem jákvæðan þátt. Ég vil draga sérstaklega fram að menn verða að láta ríkisvaldið, sem bryddar upp á nýjungum og styður nýjungar á þessu sviði sem öðrum, gæta alltaf að samræmi þannig að hvorki samkeppnisstaða né möguleiki einstakra stofnana raskist til að gera það sem ríkisvaldið ætlast til fyrir fjármuni sína. Ég sé sérstaka ástæðu til að vekja athygli á þessu um leið og ég fagna þessu nýja skrefi í menntamálum okkar Íslendinga.

Heilbrigðismálin hafa verið gagnrýnd eins og ég nefndi, dýr öldrunarþjónusta, langir biðlistar og ýmislegt sem tengist þeim málum og hefur verið farið yfir þau hér af öðrum. Ég vil hins vegar, herra forseti, gera vinnubrögð varðandi fjárlagafrv. í þinginu aðeins að umtalsefni. Mér finnst að okkur hafi ekki enn þá tekist nægjanlega vel að vinna úr hinni nýju löggjöf um fjárreiður ríkisins. Við þurfum að endurskoða þingsköpin hvað þennan þátt varðar. Nú er tekjuhlið fjárlaga öll unnin í fjárln. og þó ég viti að þar séu hinir bestu menn sem kunna vel til verka þá voru þessi mál áður unnin í efh.- og viðskn. og var líka mjög ágætt fyrirkomulag. Ég hefði kosið, herra forseti, en mér skilst að tillögur séu um það vinna að því máli, að efh.- og viðskn. og fjárln. yrðu sameinaðar, þ.e. að búin yrði til ein nefnd. Ég teldi það vera mjög æskilegt og síðan yrði sérstök þingnefnd með atvinnu- og viðskiptamál sem tæki þá við verkefnum sem tengjast viðskiptaráðuneytinu og atvinnuvegaráðuneytunum. Ég held að slík skipting og fækkun nefnda væri mjög af hinu góða og ég veit að hæstv. forseti er að vinna að þessum málum með formönnum þingflokka og mun vafalítið kynna tillögur um slík og önnur efni. Ég dreg þetta fram, herra forseti, vegna þess að það er brýnt að taka á vinnubrögðum í þinginu í kjölfar hinna nýju laga um fjárreiður ríkisins. Við höfum ekki gert það, þetta hefur svo sem allt gengið vel við afgreiðslu fjárlagafrv. núna, undir styrkri stjórn þeirra manna sem fara með ráðin í fjárln., þ.e. hv. þm. Jóns Kristjánssonar. Þetta hefur allt verið í góðu lagi og vinnubrögð að því er ég best veit öll til fyrirmyndar en það breytir því ekki að fjárreiðufrv. gefur Alþingi mun betri tækifæri og tæki til að koma mun skýrar að vinnu við fjárlagagerðina og umfjöllun um fjárlagafrv., m.a. í eftirlitshlutverki gagnvart framkvæmdarvaldinu og við nýtum ekki öll þau tækifæri og þann anda og stefnu sem felst í því frv. Allt tekur þetta sinn tíma en ég tel brýnt, herra forseti, að unnið verði að því þannig að á næsta ári mundum við geta haft enn betri vinnubrögð varðandi þetta langmikilvægasta frv. þingsins.

Ég vil, herra forseti, aðeins drepa á nokkrar tillögur sem við í þingflokki jafnaðarmanna flytjum. Við erum vitaskuld aðilar að sameiginlegum tillöguflutningi stjórnarandstöðunnar sem hefur verið gerð ágætlega grein fyrir af þeim hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, Gísla S. Einarssyni, Kristínu Halldórsdóttur og Sigríði Jóhannesdóttur. Ég ætla ekkert að víkja að þeim tillögum en nefni nokkrar sem við í þingflokki jafnaðarmanna flytjum. Einstakir þingmenn munu gera betur grein fyrir þeim á morgun, bæði við atkvæðagreiðslur og e.t.v. verða einhverjar af þeim dregnar til baka til 3. umr. og ræddar betur þá en ég tel rétt, herra forseti, að geta meginatriða í nokkrum þeirra. Það er m.a. tillaga frá mér þar sem gert er ráð fyrir að auka framlag til stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi um 2 milljónir og er það brýnt verkefni í ljósi þeirra handrita sem sú stofnun varðveitir og stöðu málsins eins og þekkt er úr fréttum. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Jóni Baldvini Hannibalssyni flytja tillögu um að hækka framlög til hjúkrunarheimila í Reykjavík og það er brýnt mál og aðkallandi. Sömuleiðis flyta hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir tillögu um að hækka framlög til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins um 5 milljónir, þ.e. til meðferðar einhverfra. Það er brýn tillaga sem vert er að samþykkja. Sömuleiðis er flutt af sérfræðingum okkar sem tengjast samgöngumálum, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Guðmundi Árna Stefánssyni og Össuri Skarphéðinssyni tillaga um að auka framlög til Reykjavíkurflugvallar um 60 milljónir en eins og rakið hefur verið í umræðunni er staða þess flugvallar alveg með eindæmum og vonandi verða ekki slys vegna ástandsins. Þetta væri mjög brýnt að taka upp af hálfu Alþingis.

Þingmenn okkar úr Reykjanesi, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson og Ágúst Einarsson, flytja tillögu um að þegar á næsta ári verði hafinn undirbúningur að tvöföldun Reykjanesbrautar en þetta mál hefur lengi verið eitt af stefnumálum okkar jafnaðarmanna og brýnt er að koma því á dagskrá með afgerandi hætti í fjárlögum næsta ár. Fjórir hv. þm. úr okkar röðum, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Gísli S. Einarsson, Lúðvík Bergvinsson og Svanfríður Jónasdóttir, flytja tillögu um að auka framlög til tvöföldunar einbreiðra brúa. Það er nýr liður upp á 65 milljónir. Hér er augljóst hver ætlunin er. Það er að gera átak í því að einbreiðar brýr sem eru víða um land verði tvöfaldaðar eins fljótt og unnt er. Við höfum horft upp á allt of mörg dauðaslys á þessum vegum til að við getum látið svo við búið. Þetta tel ég vera brýnt mál að samþykkja, herra forseti. Við leggjum til sérstakt framlag í baráttu gegn fíkniefnavandanum, vaxandi vandamáli hérlendis. Þessi tillaga er borin fram af þeim hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, Ágústi Einarssyni og Rannveigu Guðmundsdóttur. Þar er lagt til að auka framlög um 17 milljónir en þetta er farið að verða vaxandi vandamál í umhverfi okkar og ber að taka á með þessum eða líkum hætti.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, Svanfríður Jónasdóttir og Guðmundur Árni Stefánsson leggja til að aukin verði framlög til Samkeppnisstofnunar um tæpar 18 milljónir en hlutverk hennar er vaxandi í þjóðlífi okkar og það þarf að skapa henni betri fjárhagslega stöðu eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur oft vikið að í ræðustól. Sömuleiðis er lagt til af þeim hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur, Lúðvíki Bergvinssyni og Sighvati Björgvinssyni aukaframlag til skattrannsóknarstjóra ríkisins um 10 milljónir en allur þingheimur veit að það er málaflokkur sem vert er að leggja meiri áherslu á og mörg mál bíða þar úrlausnar sem ekki er komist að vegna fjárskorts. Sömuleiðis leggja fram hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir ásamt þeim hv. þm. Svavari Gestssyni og Guðnýju Guðbjörnsdóttur tillögu um að auka til Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála um 5 milljónir. Það er mjög brýnt mál í ljósi stöðu okkar í menntamálum, sjálfsögð tillaga, herra forseti, að nái fram að ganga og er borin fram af þeim fulltrúum okkar í stjórnarandstöðunni sem gleggsta þekkingu hafa á menntamálum. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og Jóhanna Sigurðardóttir leggja til að aukin verði framlög í sambandi við neyðarsímsvörun, þáttur sem er mjög mikilvægur og þar er ýmis pottur brotinn eins og vakin hefur verð athygli á í þessum ræðustól.

Að lokum, herra forseti, er tillaga frá Jóhönnu Sigurðardóttur um fæðingarorlof feðra, að það verði aukið og lagt meira fé til þess. Eins og ég gat um áður, herra forseti, munu einstakir þingmenn gera betur grein fyrir tillögum sínum. Ég taldi rétt þó að sumt hafi reyndar þegar komið fram í umræðunni, að fara um þær nokkrum orðum þannig að það lægi skýrt fyrir þingheimi hvernig þetta væri hugsað. Ég vil geta þess að við höfum vitaskuld tillögur um útgjaldaminnkun og tekjuaukningu til að fjármagna allar tillögurnar ef þær verða samþykktar sem vonandi verður ef stjórnarliðar veita okkur aðstoð við að láta þær ná fram að ganga.

[23:45]

Herra forseti. Ég vil draga sérstaklega fram það sem ég hef áður nefnt, þ.e. stöðu okkar gagnvart öldruðum og öryrkjum í samanburði við nágrannalöndin og einkum út frá þeirri baráttu sem þeir hafa þurft að heyja við óvinveitta ríkisstjórn undanfarna mánuði. Ég tel að nú komi stjórnarstefna ríkisstjórnarinnar hvað skýrast fram, ógeðfelld að mínu mati gagnvart þessu fólki sem á ekki í mörg hús að venda. Þó náðum við í stjórnarandstöðunni því fram að tengja bætur úr almannatryggingakerfinu að nokkru leyti aftur við launaþróun eins og við höfum barist fyrir ásamt fulltrúum eldri borgara um nokkur missiri. Brýnt var að það mál næði fram að ganga en samkvæmt þeim samanburðartölum sem ég nefndi erum við enn langt á eftir.

Ég vil að lokum geta þess, herra forseti, að fjárlögin eru ekki góð í þeim skilningi. Þetta eru þenslufjárlög. Undir kraumar verðbólga. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er að fara úr böndum. Það er hins vegar erfitt að vera með kassöndruhróp nú þegar jólin nálgast og enginn sér neitt nema góðærið fram undan. Ég hef áhyggjur, herra forseti, af nokkrum þáttum af efnahagslífi þessarar þjóðar eins og ég hef reynt að draga hér fram. Ekki er allt gull sem glói. Skrautsýning sú sem þessi hæstv. ríkisstjórn dregur upp í fjárlögunum og þeim tillögum sem hún stendur að ásamt meiri hluta fjárln. er ekki byggð á eins traustum grunni og menn vilja vera láta.