Sóknargjöld, kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 10:41:16 (2106)

1997-12-13 10:41:16# 122. lþ. 42.4 fundur 312. mál: #A sóknargjöld, kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (millifærsla gjalda) frv. 124/1997, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[10:41]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. framsögumanni allshn. skrifaði ég undir það nál. sem hér er til umræðu með fyrirvara og hyggst gera grein fyrir því hvers vegna í stuttu máli.

Fljótt á litið er til umræðu lítið frv. um breytingu á lögum um sóknargjöld, um kirkjugarða, kirkjusóknir o.fl. Eins og kom fram hjá framsögumanni er með frv. fyrst og fremst verið að flytja til fjármuni frá sóknarnefndum til kirkjugarða þannig að í stað þess að bæði verði 7,6% af meðaltalstekjuskatti landsmanna verði sóknargjöldin 6,3% og kirkjugarðsgjaldið 11,9%.

Ég tek fram að ég er algjörlega sammála hliðrun á sóknargjöldum til kirkjugjaldsgjalda miðað við þau rök sem hafa komið fram í nefndinni og í greinargerð. Hér er um leiðréttingu að ræða þar sem tekjur kirkjugarðanna virðast hafa verið skertar óhóflega á undanförnum árum. En ég tek undir það sem kemur fram í áliti allshn. að það sé mikilvægt að framtíðarfyrirkomulag þessara mála verði endurskoðað.

Ástæðan fyrir því að ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara er sú að ég hefði kosið að um leið og frv. var afgreitt hefði réttmæti þessa tekjustofns til sóknargjalda og kirkjugarðsgjalda verið skoðað. Með því að uppfæra allar upphæðir í samræmi við tekjuskattsaukningu eins og mælt er fyrir í skattalögum má skilja það sem svo að allshn. sé hugsanlega að leggja blessun sína yfir að þetta sé eðlilegasta fyrirkomulagið á innheimtu og upphæðum sóknar- og kirkjugarðsgjalda.

Hæstv. forseti. Ég set spurningarmerki við að það sé sjálfsagt að þessi gjöld fari eftir veltunni í þjóðfélaginu. Ég tel að það mætti færa rök fyrir hinu gagnstæða og þegar harðnar á dalnum þá sé jafnvel meiri þörf fyrir starf sóknarnefnda og hugsanlega kirkjugarða líka. Ég er því ekki sannfærð um að þessi sjálfkrafa hækkun á sóknargjöldum með auknum tekjusköttum sé eðlileg.

Annað atriði sem ég vil benda á er að margir aðrir aðilar í þjóðfélaginu, t.d. Háskóli Íslands, mundu vafalítið þiggja það að þeirra tekjur yrðu efldar með þessum hætti í hvert skipti sem veltuaukning verður í þjóðfélaginu.

[10:45]

Það er annað atriði sem kemur fram í þessu frv. og það er að Kirkjugarðasjóður nýtur góðs af þessum tekjustofni og hann mun verða skertur árið 1998 og 1999 vegna þess að Kirkjugarðar Reykjavíkur þurfa ekki að greiða til hans þessi tvö ár vegna sérstakra aðstæðna sem þar ríkja. Ég er alveg sammála þeirri ráðstöfun. Kirkjugarðasjóður veitir töluvert mikla styrki til framkvæmda við kirkjugarða og samkvæmt yfirliti sl. árs voru margar umsóknir í Kirkjugarðasjóð afgreiddar þannig að veittir voru mun hærri styrkir en beðið var um. Ég hef oft fylgt eftir umsóknum í Vísindasjóði þar sem yfirleitt er verið að biðja um upphæðir sem eru mun hærri en hægt er að veita, en ekki öfugt. Þetta er annað merki um að ástæða sé til að skoða þennan tekjustofn og mér finnst því ekki rétt að láta þetta litla frv. fara fram án þess að vekja athygli á því að ég tel rétt að skoða þennan tekjustofn sem sóknargjöldin eru. Ég vek athygli þingheims á því að sóknar- og kirkjugarðsgjöld voru 1,5 milljarðar á sl. ári eða 1.532 milljónir og með sjálfkrafa hækkun sem kemur vegna aukinnar veltu í þjóðfélaginu þá hækka þessi gjöld um 116 milljónir eða í 1.648 milljónir.

Hæstv. forseti. Þetta er ástæðan fyrir því að ég skrifa undir nál. með fyrirvara. Ég vildi vekja athygli þingheims á þessu atriði. Það kom einnig fram í nefndinni að kirkjunnar menn og fleiri vilja gjarnan að þetta fyrirkomulag verði endurskoðað. Ég vona að það verði gert í hv. efh.- og viðskn. þegar þar að kemur.