Sóknargjöld, kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 10:54:49 (2108)

1997-12-13 10:54:49# 122. lþ. 42.4 fundur 312. mál: #A sóknargjöld, kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (millifærsla gjalda) frv. 124/1997, RG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[10:54]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað af athygli á þá þingmenn sem hafa talað við 2. umr. um þetta mál, um breytingu á lögum um sóknargjöld og framlög til kirkjugarða, og get tekið undir margt af því sem hefur komið fram og vil gjarnan með nokkrum orðum leggja sjónarmið inn í umræðuna og benda á það sem mér finnst óeðlilegt varðandi þetta frv. og afgreiðslu þess. Ég get tekið undir það sem hefur komið fram um forgangsröðun og ég tek líka undir að greinilegt er að það var mjög nauðsynlegt að taka á málum kirkjugarða. Þau mál eiga að vera í lagi í þjóðfélagi eins og okkar og þess vegna finnst mér að það hafi verði ánægjulegt og mjög þýðingarmikið að ráðherra tekur þá ákvörðun að auka tekjur kirkjugarðanna og líka að taka tillit til Reykjavíkurprófastsdæmis.

Á þessu svæði verður mesta sprengingin, ef maður notar það orð, á öllum sviðum. Hér er útþensla mest hvað varðar íbúafjölda og að sjálfsögðu hefur það haft þau áhrif að öll áform kirkjugarða prófastsdæmisins verður stöðugt að endurskoða vegna þess að þörf fyrir meira rými og að brjóta meira land fyrir kirkjugarða er meiri en menn héldu kannski fyrir fáum árum. Þess vegna verður að taka sómasamlega á þessum málum og mér sýnist að það sé gert hér hvað varðar kirkjugarðana með auknum tekjum kirkjugarðanna almennt og svo þessu sérstaka tilliti sem tekið er til Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis um að sleppa við að greiða í sjóðinn þannig að tekjur þeirra eða fjárhagsstaða eykst um 15 millj. kr. hvort þessara tveggja ára.

Þá eru það sóknargjöldin. Með tilliti til þess sem hér hefur komið fram, hvort það eigi að vera sjálfvirkni í því hvernig framlög til sóknarnefnda og safnaðarstarfs eru eða með með hvaða hætti það er þá tek ég undir að það eigi að skoða það hvort á einum stað er sjálfvirk hækkun og á öðrum stöðum ekki þar sem við vildum sjá hana. En þá komum við að því að kirkjunni, þó við ræðum oft um það hvort hún sé nógu sjálfstæð eða ekki, er ætlað að sjá um ákveðna þætti. Í takt við það sem ég hef áður sagt varðandi kirkjugarðana þá hefur það líka gerst, ekki síst á þessu svæði og í nágrannasveitarfélögum að kirkjur hafa verið byggðar á liðnum árum og standa undir safnaðarstarfi og standa undir greiðslum af þungum lánum eða verið er að kaupa ný orgel eða annað sem þurfa hefur þótt til að reka öflugt safnaðarstarf að mati þeirra sem um halda þá gerist það auðvitað að þeir sem með þau mál véla líta á hvaða lög þeir búa við. Þeir búa við að tekjur þeirra eiga að hækka samkvæmt ákveðnum lagabókstaf og auðvitað gerist það að menn fara bæði í fjárútlát og gera samkomulag, t.d. við banka varðandi afborganir, miðað við þær tekjur sem þeir búast við á fá og hafa kannski ráðist í framkvæmdir miðað við að eitthvert sérstakt fjármagn komi. Þetta er ekkert óeðlilega staða og það er staða sem við, löggjafinn, höfum skapað með því að setja þessi lög.

Því segi ég þetta að það hefur verð gagnrýnt harkalega í mín eyru af einmitt þeim sem búa við þessar aðstæður, hafa verið að koma upp kirkjum eftir langan undirbúning, hafa að einhverju leyti stofnað til skulda vegna slíkra hluta en vilja geta rekið safnaðarstarf og hafa búist við að sóknargjöldin hækkuðu meira. Það er ekki óeðlilegt að þetta fólk spyrji af hverju það sé svo að þegar á að taka á málum kirkjugarðanna sé ákveðið að skerða tekjur safnaðanna eða skerða sóknargjöldin og af hverju taki þá löggjafinn þessa ákvörðun. Það fær mann til að hugsa um hvort ekki væri eðlilegra að slá þessu saman og gera sóknirnar, sem standa að einu prófastsdæmi, ábyrgar að einhverju leyti fyrir því hvað eigi að fara til sóknanna og hvað eigi að fara til kirkjugarðanna. Af hverju á löggjafinn að vera að standa í því að á einhverju tímabili detti ráðherra og löggjafa, af því við fylgjum þessu eftir, í hug að láta meira renna til sóknarnefnda og safnaðarstarfs en til kirkjugarðanna?

[11:00]

Einn góðan veðurdag, eftir því sem mér skilst, ég sit ekki í allshn. og hef ekki tekið þátt í umfjöllun um þetta mál, þá gerist það að kirkjugarðarnir fara að standa illa og þá á að flytja fjármagn frá sóknarnefndunum yfir til kirkjugarðanna. Satt best að segja, óháð því um hvaða tölur er að ræða eða upphæðir, er þetta fremur óeðlilegt af okkur. Við sitjum hér fyrir jólin og erum að færa fjármagn í miklum mæli á milli að nokkru leyti óskyldra þátta. Því þó þetta snúi hvort tveggja að mikilvægum þáttum eins og kirkjunni sem sinnir hátíðarstarfi og sálusorgun og að sjálfsögðu þeim hluta greftrunar sem snýr að kirkjunni og svo kirkjugarðarnir sem við taka, þá eru þetta samt ólíkir þættir með sérstaka tekjustofna og það er fremur óeðlilegt að við séum eftir einhverjum geðþótta að flytja þarna á milli. Þetta vil ég benda á og taka þar með undir að þessi mál séu skoðuð til framtíðar hvernig með eigi að fara.

Ég geri mér grein fyrir því að þegar nefndin fjallaði um málið þá kallaði hún til aðila frá Samtökum sóknarnefnda og þeir aðilar leggjast ekki gegn því að þarna sé flutt á milli að þessu sinni. En ég vil að það komi fram að þetta hefur hins vegar verið gagnrýnt við mig úr ákveðnum sóknum sem benda á að þetta sé ekki svona einfalt og mjög erfitt sé að búa við það að eiga samkvæmt lögum að fá hækkun þar sem lögð eru til grundvallar hækkun sem orðið hefur á meðaltekjuskattsstofni næstliðin tvö tekjuár á undan.

Virðulegi forseti. Ég tek undir að við skulum skoða þessi mál og við skulum taka það alvarlega þegar við erum að búa til það umhverfi sem einhverjum er ætlað að starfa í og sá trúir því að hann eigi að fá einhverjar tekjur árlega, eða hvernig sem það er, og svo kippum við því til baka. Við erum með góða æfingu í því. Ég þarf ekki annað en að minna á öll ,,þrátt-fyrir``-ákvæðin sem hér eru afgreidd og voru kannski allmörg þar til fyrir u.þ.b. tveimur árum þegar í einu vettvangi voru slík ,,þrátt-fyrir``-ákvæði tekin lögbundið af, ég held um 30--40 lagabreytingar í mjög mikilvægum lögum, endanlega aftengd afskiptum Alþingis. Það er svo sem ekki eins og við þyrftum ekki að líta í eigin barm á mörgum sviðum.

Ég vildi leggja þessi orð inn í umræðuna og vekja athygli á því hvernig við högum okkur stundum gagnvart þeim sem eiga að sjá um sterka sjálfstæða þætti sem eru mikilvægir í okkar þjóðfélagi.